bryndísar&kristjánsbörn
bryndís stefáns
gunnar hjálmars
elín smára
árný gísla
sigrún bjarna
hálfdán hálfdáns
eiríkur hrafns
karl hallgríms
örn guðmunds
birna guðmunds
kristinn hermanns
steingrímur guðmunds
páll páls
smári karls
grímur atla
vidófjölskyldan
bókabúðin mín
hljómsveitin reykjavík!

Bloggið er dautt og internetið líka. Ég las það á netinu, á einhverri bloggsíðunni!


























 
Archives
<< current













 
This is where you stick random tidbits of information about yourself.



























Ég er Kriss og ég er Rokk.
 
31 október 2004  
Rokk í Reykjavík - lau.
Við kvöldverðaborðið, þar sem ég var að gæða mér á kræsingunum (laugardagskjúklingi og frönskum kartöflum), fann ég einkennilega til í maganum. Þar var hnútur sem orsakaðist af svengd, spennu og kvíða. Framundan gat ekki verið annað en skemmtilegt kvöld en ég er þeim einstöku hæfileikum gæddur að ég get málað skrattann á vegginn við hverskonar aðstæður. Við í Reykjavík! vorum settir inn í dagskrá Airwaves þetta kvöld á Grand Rokk, og þvertek ég fyrir að það hafi orsakað magahnútinn, ég hef nefnilega nokkrum sinnum spilað þar áður. Málið var einfaldlega þannig að The Shins voru á dagskrá seinna þetta kvöld á Gauknum. Það hlyti eitthvað að fara úrskeiðis. Einhver myndi leggja stein í götu mína. Það yrði uppselt, eða Gauknum yrði lokað þetta kvöld vegna slæmra brunavarna, eða The Shins borðað slæman hákarl og væru allir á sjúkrahúsi. Þetta hugsaði ég meðan ég var að troða í mig kjúklingnum fína sem Briss bar á borð. Heilbrigt?

Klæddur í hvíta skyrtu og með svart bindi, pantaði ég mér tvöfaldan gin og tónik á Grand Rokk og málið var dautt. Ég var kominn í stuð. Nilfiskliðar voru að hrista unglingamakka sína þegar við mættum og þeir voru nokkuð hressir. Mér finnst þeir jafnvel skemmtilegri en Foo Fighters. Við vorum næstir á svið, vorum vel upplagðir, með gott fólk í salnum og áttum prýðilegt gigg. Við vorum ánægðir sjálfir, og fengum gott fídbakk. Óvenjugott úr óvæntum áttum! Eftir að við höfðum pakkað saman og þakkað fyrir okkur, lá leiðin á Gaukinn. Það var ekki laust við að maður hafi fengið móral við að skilja Atómstöðina eftir á Grandinu, leikandi fyrir tómu húsi...Nei, ég er að grínast. Móral hahaha.

Fyrir utan Gaukinn rann það upp fyrir mér enn og aftur skínandi skært að ég þarf að fara troða þessum endalausu óþarfa áhyggjum mínum uppí óæðri endann. Siggi Hólm Gauksvert var á leiðinni inn eldhúsmegin og dró okkur með. Ég var kominn inn. Vinyl voru að geifla sig uppá sviði, ég hef einhvern veginn aldrei náð þeim. Þeir eru ekkert endilega lélegir. En er þeim alvara. Singapore Sling voru næstir. Enginn vill leika við Henrik af því að hann er svo leiðinlegur, nema Einar Sónik, allir hinir eru hættir. Henrik og Einar rökuðu saman í band og héldu uppi sínum heiðri, mér sýndist að þeir hafi farið í Nonnabúð til að fá session leikarana. Allir með rétta lúkkið og sólgleraugu. Þetta rann ágætlega í gegn, nýja platan þeirra er drulluflott. Svo komu Stills en þá þekki ég ekki nógu vel. Þeir eru ábyggilega mjög fínir. Ég fór á barinn. Ég var tilbúinn.

Á síðastliðnum vormánuðum hafði Haukur Magnússon gítarleikari, plötuútgefandi og starfsmaður í Bókabúð Máls og menningar spurt mig endrum og eins hvort ég hefði heyrt í hljómsveitinni the Shins. Ég þekkti þá ekki vitund og hafði ekki mikinn áhuga. Það var ekki að hjálpa til að bandið skyldi heita "the ...eitthvað". Mig minnir að Haukur hafi sagt "..this music got your name on it!". Haukur gaf mér síðan báða diskana þeirra og hef ég varla hlustað á annað síðan. Mér hafði tekist að troða mér í gegnum mannmergðina og var kominn vel inní sal Gauksins með bjór í hendi og Shins voru væntanlegir. Þá uppgötvaði ég að ég þurfti að pissa. Klassískt. Það var ekki séns að ég færi að spilla gleðinni, ég ákvað bara að pissa í buxurnar og fíla Shins, svo yrði ég laminn eftirá og hent pissublautum út í kuldann. The Shins voru frábærlega skemmtilegir. Mér finnst þetta ótrúlegt band, spilar popp og ballöður og nýtur þvílíkrar hylli. Það var stórmerkilegt og skemmtilegt að upplifa aðra eins stemningu í salnum. Gestir höfðu aldeilis unnið heimavinnu sína. Að einhver skuli detta mig í hug við að hlusta á the Shins getur varla verið slæmt. Takk fyrir Shins, Haukur!

Það var við hæfi að enda þessa Airwaves-helgi á Rokk-sirkus á Grand Rokk um kl. 03.00! Þar var samankomin einkennilegasta blanda af fólki sem flest átti það sameiginlegt að koma frá Ísafjörður rock city! Hljómsveitin Nine elevens voru síðastir á dagskrá og voru búnir að ráða nokkra aðstoðarmenn, sprengisérfræðing, hljóðsérfræðing úr Súgandafirði og meðal annars mig sjálfan en ég gegndi hlutverki "drum tech-s". Þetta var frábær konsert hjá drengjunum og öll sprengjulæti og konfettitrix náðu að klúðrast. Þetta var eins og Spinal Tap á góðum degi. Leikurinn reis hæst þegar Tussi (Bergvin Þráinsson) öskraði milli laga; "Ísó, ísó, ísó.."! Þetta var ekki dónaleg dagskrá þetta kvöld. Það var töluvert álag en mikil gleði. Rétt áður en Nine elevens liðar stigu á svið mundi ég eftir því að ég þurfti að pissa (í síðustu málsgrein). Eftir að Nine elevens hafði svo lokið sér af, vaknaði ég úr kick ass rock-roti og fattaði að ég var í fráhnepptri skyrtunni og með bindið um ennið. Það var kominn tími á mig og konan mín beið mín á öðrum skemmtistað, þar sem hún var stödd í fatahönnuðapartýi. Það var ágætt að setjast og trappa sig niður með einn bjór eftir allt rokkið um helgina. Ég gæti ekki hafa tekið aðra eins U-beygju, því ég endaði rokkið á Rex. Það er ekkert rokk í Rex.

Væntanlegt: Frægikarldaxins! Vegna fjölda áskorana!


1:31 e.h. Ekki vera feiminn

25 október 2004  
Rokk í Reykjavík - fös.
Nú er þetta allt saman yfirstaðið og bransadaunninn að minnka yfir miðbænum. Þetta var stórskemmtileg helgi, tók Airwaves rúnt á föstudeginum og laugardeginum fyrir utan að hafa spilað á laugardeginum.

Það var ansi kalt á föstudeginum en maður lét sig hafa það að flakka örlítið á milli. Eftir hressa bjóræfingu hjá Reykjavík! lá leiðin niður á Nasa, þar sem við rétt náðum í skottið í elektrógrúvífönkípönkinu hjá Dáðadrengjum. Þeir voru eiturhressir og mikil synd að hafa misst af þeim, fyrir utan að lúkka vel þá eru þeir helvíti skemmtilegir. Frá Nasa lá leiðin í Þjóðleikhúskjallarann til að sjá Skakkamanage, þangað hlupum við sem fætur toguðu og mættum alltof snemma svo að hlegið var að okkur. Á meðan við biðum hoppuðum við nokkrir yfir á Grand Rokk og sáum Skáta sem voru ágætlega skemmtilegir, spiluðu pönkað indírokk en ég var meira upptekinn að horfa á crowdið á staðnum. Ég þekkti ekki eina sál. Ég sem þekki nær alla grandgesti með nafni. Skakkamanage var í þann mund að hefja leik þegar við komum aftur í Þjóðleikhúskjallarann, þau spila stereolabbandisætafroðuindípopp og gera það bara nokkuð vel. Svavar er mjög skemmtilegur músíkant og geðuður piltur. Við hlupum frá lóðalyftandi trúbadúrnum Sigga Ármanni og sussandi vinum hans, beint niður á Gaukinn til Sigga Hólm, þar sem Yourcodenameis:Milo spiluðu líttspennandienhressandigaurarokk. Eftir það stigu Mínus-liðar á sviðið og þarf ekki að fjölyrða um rokkið sem sullaðist af þeim. Þeir kunna þetta. Það var svo ekki leiðinlegt að enda kvöldið á Nasa þar sem bresku æringjarnir í Hot chip skemmtu. Mikið rosalega eru þeir skemmtilegir. Þeir lúkkuðu reyndar eins og vel heppnaður Fóstbræðrasketch, með úfinn Jón Gnarr berum að ofan á gítar og Gussa með kúabjöllu og bassatóna í hálsi. Tónlistin var bæði bullandi fjör og grenjandi einlægni. Frábært. Ég náði svo að forða mér áður en Jagúar hóf leik, þoli þá ekki... nei, ég segi það ekki. Þeir eru bara svo góðir spilarar, ekki nógu gaman að fylgjast með og verða bara soldið flatir. Ingi bassaleikari er samt mjög kúl. Ég labbaði beinustu leið heim eftir þetta enda að fara að vinna daginn eftir í Bókabúð Íslands.

Ég geri laugardeginum skil litlu seinna.

8:46 e.h. Ekki vera feiminn

19 október 2004  
..til háborinnar fyrirmyndar!
Ísfirska nýbylgjulestin að baki. Stórkostlegt fest. 100% success. Allir sem komu nálægt þessu stóðu sig með stakri prýði, stemningin var frábær hjá áhorfendum jafnt og öllum þeim sem komu fram. Það er ekki séns að taka út einhvern einn eða fleiri sem voru skemmtilegir uppá sviði, það áttu allir geysigott kvöld. Annars komst ég annarsvegar að því að hljómsveitin Unaðsdalur er frábær, og svo aftur að Jón Þór smali er snillingur. Þetta var allt saman til háborinnar fyrirmyndar.

Nú er Icelandic Airwaves að bresta á. Það er sitthvað af íslensku böndunum sem manni langar að sjá; t.d. trabant, mugison, skakkamanage, nine elevens og dáðadrengi. Hefði lagt mig í lima við að sjá hljómsveitina Rass, en giggið þeirra datt út. Helvítis rassgat. Svo er það hljómsveitin Shins á laugardag sem ég ætla ekki fyrir nokkra muni að missa af.

9:06 e.h. Ekki vera feiminn

12 október 2004  
Ef Keflavík er Liverpool Íslands, þá er Ísafjörður að sjálfsögðu fokkings Hull!
Síðasta blogg var frá 19. september..djöfull hefur mikið gerst síðan! Ég veit ekki hvort/hvar er hægt að byrja? Þetta yrði svo langt blogg! Hvað segið þið ef ég greini frá í stuttum setningum, svo gætuð þið bara hringt í mig ef þið finnið eitthvað áhugavert!

* Elísa og Palli áttu litla dís á dögunum, við hittum hana um daginn, hún er ferlega hress. Tékkiði á henni hér!
* Homebreakers fóru vestur og spiluðu finnskan tangó í Edinborgarhúsinu. Það var rosalega gaman. Það voru ekki margir sem mættu en þeir sem mættu, mættu mjög vel.
* Keyrði frá Ísafirði til Reykjavíkur og Sveinn Blöndal fékk far. Við áttum ca. 500 km. langt spjall sem var gefandi.
* Vera Stefáns Bjarts í pestabælinu Sólhlíð er farin að setja strik í reikninginn, hann kom heim með Hlaupabólu.. eða Óó eins og hann segir.
* Fór í æði hressandi sveitarferð með vinnunni síðasta laugardag; kom við að Gljúfrasteini sem var magnað, fór á sauðamessu og hitti Hvanndalsbræður sem voru einfaldlega frábærir, kíkti á Snorrastofu, á Baulu og enduðum í bústaði Grunnvíkinga.

Annars er mál málanna; Ísfirska nýbylgjan, ísafjörður rock city. Mikil orka hefur verið kostuð til og virkilega góð vinna unnin, og ef ÞÚ mætir ekki til að sjá afraksturinn..þá, þá, þá...verð ég að minnsta kosti frekar sár. Eða allavega svekktur. Í það minnsta leiður...!!
http://www.folk.is/reykjavikreykjavik/?pb=sidur&id=813908







9:03 e.h. Ekki vera feiminn

 
This page is powered by Blogger.