bryndísar&kristjánsbörn
bryndís stefáns
gunnar hjálmars
elín smára
árný gísla
sigrún bjarna
hálfdán hálfdáns
eiríkur hrafns
karl hallgríms
örn guðmunds
birna guðmunds
kristinn hermanns
steingrímur guðmunds
páll páls
smári karls
grímur atla
vidófjölskyldan
bókabúðin mín
hljómsveitin reykjavík!

Bloggið er dautt og internetið líka. Ég las það á netinu, á einhverri bloggsíðunni!


























 
Archives
<< current













 
This is where you stick random tidbits of information about yourself.



























Ég er Kriss og ég er Rokk.
 
29 desember 2004  
Ávarp í enda árs!
Jæja, djöfull hefur maður það gott. Maður er kominn með velmögunarsár víðsvegar um líkamann. Það er með herkjum sem ég nenni að bera mig eftir lyklaborðinu, en með puttana útbíaða af hangiketsfitu renni ég mér milli takkana og hripa nokkrar setningar. Það var ólýsanleg stund að lenda hér á flugvellinum á Ísafirði á aðfangadag. Þegar við höfðum spennt á okkur beltin í vélinni á Reykjavíkurflugvelli sagði flugstjórinn að það væri ófært á Ísafjörð, veðrið þar væri alls ekki gott en ætlunin væri að reyna að lenda svo fólk gæti haldið jólin. Af því tilefni var sett aukaeldsneyti sem dygði í klukkustundarhringsól yfir Ísafjarðardjúpi. Ég var hársbreidd frá því að missa vitið þegar við fórum í loftið. Ég reyndi sem ég gat að hugsa um eitthvað annað um borð í vélinni, en hugur manns var óneitanlega við Ísafjarðarflugvöll. Þegar við vorum komin inn við Ögur sagði flugstjórinn að það væri smá glufa og nú ætlaði hann að tefla á tvær hættur og reyna að lenda. Allt var gefið í botn. Að lenda á Ísafjarðarflugvelli var fyrir mér einungis bænheyrn.

Þegar ég lít til baka get ég ekki sagt annað en að árið hafi farið blíðum höndum um mann. Á stundu sem þessari finnur maður tilgang að baki bloggsins, ef einhver er! Það er gott að geta skrollað árið í gegn á bloggsíðunni ( í archives ) og fundið hvað var markverðast. Ég verð nefnilega að viðurkenna það fyrir guði og mönnum að ég er orðinn skratti gleyminn. Ég gleymi öllu steini léttara og man ekkert stundinni lengur. Ég er nú svo heppinn að Bryndís mín man allann fjandann, og ekki ónýtt að hafa hana sér við hlið þegar eitthvað þarf að rifja upp. Vinir mínir vita sem er að ég er hins vegar uppfullur af óþarfa upplýsingum. Get munað bílnúmerið hjá Palla Stull og símanúmerið hjá Selecta í Reykjavík..!

Af því að ég geng að árinu vísu hér á síðunni mun ég setja upp nokkra topplista ársins hjá mér í næsta bloggi. Annars mun ég mæta þessum áramótum með höfuðið hátt, en samt með óttablandinni virðingu. Mér finnst alltaf eins og ég sé að gleyma einhverju. Ég mun hugsa til fjölskyldu minnar og allra vina minna um áramótin, ég var mjög hrærður að heyra frá vinum mínum um jólin þar sem margir hugsuðu til okkar þegar við komum vestur á aðfangadag. Ef það er eitthvað sem maður má gera meira af er að rækta samband sitt við fjölskyldu og vini. Hvað væri maður án þeirra?!

Nú er ég orðinn svo væminn að einhver gæti haldið að ég væri Mugison að blogga...neinei. Djók.

Gleðilegt nýtt ár. Takk fyrir allt sem undan er gengið.

10:37 e.h. Ekki vera feiminn

19 desember 2004  
Jól og menning!
Nú fer að síga á seinni hlutann í jólahasarnum. Leikar farnir að æsast svo um munar. Fullt af höfundum að afgreiða hjá okkur um helgina; Jóhanna Kristjóns, Kristín Marja, Einar Már, Bragi Ólafs, Margrét Lóa, Auður Ólafs, Kristín Ómars, Sigurgeir Sigurjóns og Unnur Jökuls...æ, hvað er ég að þylja þetta upp. Þetta er svo sem ekki frásögur færandi, og ég var að skoða ársgamlar dagbókafærslur og þá var nákvæmlega sama uppá teningnum. Mest hafði ég þó gaman af einhverri kergju sem upp hófst innan Eddu-höfunda á laugardaginn. Ónefndir höfundar vældu sáran í mér yfir að Ólafur Jóhann hafi verið auglýstur með heilsíðu en þau ekki. Voða gaman að upplifa gömul sár milli Vöku og Máls og menningar. Af öðrum ólöstuðum verð ég að hæla Kristínu Ómarsdóttur, hún kom til okkar um 14.30 á sunnudeginum, vann hörðum höndum sleitulaust til 17.30 og ruddi frá sér vinnunni. Algjör snillingur.

Maður reynir að bera sig vel þrátt fyrir að vera að sprella í sjónvarpinu öll kvöld. Viðskiptavinir sækja á mig harðar en áður, og margir mjög sniðugir,"..áttu bókina með Kate Moss, hehehe!", "hey þú, ég ætla að fá gatara". Frábært og bara skemmtilegt. Nema sú staðreynd að hætt hafi verið við að auglýsa okkar búð í þessum auglýsingum. Það hefur tekið af mér gleðina. Maður reynir sitt allra besta til að ná sölu og auglýsir Pennann-Eymundsson á meðan. Kaldhæðni.

Þeir sem sáu Kastljósið síðasta miðvikudag gætu hafa séð mig bregða fyrir, þ.e.a.s. ef þið hafið ekki blikkað augum á meðan. Þetta voru hinar margumtöluðu fimmtán sekúndur af frægð, eins og honum Kalla Hallgríms verður svo tíðrætt um á gestablogginu. Þá kunna margir að spyrja; hver er Kalli Hallgríms? Jú, hans fimmtán sekúndur voru....jahhh, í skagnesku hljómsveitinni Abbababb, eða....tjahh í söngkeppni framhaldsskólana 1994. Nei, hann er einn af þeim fáu ágætu sem koma frá Bolungarvík. Það má nú ekki segja svona, en þeir skekkja vissulega myndina af Bolvíkingum þeir Kalli og Kristján Jónsson sem er nú með þeim hressari...!

Ég þakka þeim sem hlýddu,
góðar stundir!

11:43 e.h. Ekki vera feiminn

12 desember 2004  
Jólatangó, hehe næstum eins og yo la tengo!
Hæ,
jæja jólin bara að koma! Enn og aftur! Ég er rosalega lélegur jólakall, ég kann ekki á þau. Ég hneykslast yfir öllu jólatali fólks frá haustbyrjun og finnst allt of mikil orka og tími ársins snúast um jólin. Svo koma þau allt í einu... klukkan að slá sex á aðfangadagskveldi og ég að gleyma öllu. Ég er best geymdur í bókabúðinni, næ að halda einbeitingu að vinnunni, fókuseraður stend ég vaktina og veit um hvað lífið snýst! Ég stimpla mig inn í svarta myrkri árla morguns og labba svo heim í næsta myrkri. Bryndís sér um allt hitt og ekkert gleymist.
Ég á engu að síður árvisst, eitt af mínum uppáhalds augnablikum rétt fyrir hádegi aðfangadags; eftir að hafa staðið af mér mánaðarlangt bókaflóðið í ægilegum hasar, kem ég aðframkominn heim til mín, fæ mér rauðvínsglas með Bryndísi, sofna og slefa í koddann, vakna og mér er nánast hent í einhverja larfa og hent útí flugvél sem flýgur til Ísafjarðar. Að lenda á Ísafirði um hádegisbil 24.desember er unaðslegt, hjartað fer að starfa eðlilega og ég vakna úr rotinu. Ég breytist úr ófreskjukenndum verslunarmanninum í hinn mjúka fjölskyldumann. Og ég mæti glaður í Hnífsdalskapellu kl.18.00!

Homebreakers spiluðu tangó í brunarústunum í JL-húsinu í gærkvöldi. Vorum pöntuð af Myndlistarskólanum í Reykjavík. Við stóðum okkur vel. Myndlistarmenn eru skrýtnir. Til að mynda Daði Gubjörnsson sem er víst gallharður sjálfstæðismaður. Það heyrði ég þegar ég kom inn og innan við hálftíma var hann byrjaður að bulla í Valda með Sjálfstæðisflokkinn. Hálftíma síðar heyrðust hugmyndir frá Daða um að breyti nafni skólans í Lífsstílsskóla Reykjavíkur. Hvað er það!

Ein af kennurum skólans kom til mín og þakkaði fyrir tangóinn og þakkaði mér einnig fyrir síðast. Ég vissi ekkert hvað konan var að tala um og ég spurði hvenær það hafi verið.
- manstu ekki, ég var að kenna þér í Hnífsdal í 8 ára bekk?
Mér leið eins og smákrakka þegar ég sagði; "Elsa! Hæ, já og takk kærlega fyrir síðast"! Magnað að hún skuli muna eftir mér. Ég held að Elsa sé klárlega frægikarldagsins.

3:22 e.h. Ekki vera feiminn

09 desember 2004  
PPPP á Súfistanum í kvöld!
Í kvöld munu nokkrir af okkar ástsælustu rithöfundum gera sig að fífli á kaffihúsinu Súfistanum í Máli og menningu við Laugaveg. En þá keppa þau Sigmundur Ernir, Birna Anna, Huldar Breiðfjörð, Þorsteinn Guðmundsson, Auður Jónsdóttir og Sindri Freysson í Popppunktsspilinu góða. Stríðið hefst kl.20.00 og um að gera að koma snemma því víst er að færri komast að en vilja.
Sérstakir gestir kvöldsins verða meistararnir í Baggalúti og ætti engum að bregða þó þeir skyldu bresta í söng.
Dómari og spyrill er heimsmeistarinn og höfundur prumpulagsins; Dr.Gunni!

10:30 f.h. Ekki vera feiminn

04 desember 2004  
Fullir dagar!
Það er svo mikið að gerast þessa daga, það er alls staðar full dagskrá og ef maður ætlar að reyna að koma því í prent verður maður fyrir það fyrsta að ráða sér ritara.
Bryndís mín á afmæli í dag, og í gær hitti ég Þránd Thoroddsen...magnað?!

4:49 e.h. Ekki vera feiminn

 
This page is powered by Blogger.