bryndísar&kristjánsbörn
bryndís stefáns
gunnar hjálmars
elín smára
árný gísla
sigrún bjarna
hálfdán hálfdáns
eiríkur hrafns
karl hallgríms
örn guðmunds
birna guðmunds
kristinn hermanns
steingrímur guðmunds
páll páls
smári karls
grímur atla
vidófjölskyldan
bókabúðin mín
hljómsveitin reykjavík!

Bloggið er dautt og internetið líka. Ég las það á netinu, á einhverri bloggsíðunni!


























 
Archives
<< current













 
This is where you stick random tidbits of information about yourself.



























Ég er Kriss og ég er Rokk.
 
31 desember 2005  
Tvöþúsundogfimm var gott ár, takk fyrir samveruna.

Tímamótaár myndi ég segja. Ég átti fjölmargar, yndislegar stundir með fjölskyldu og vinum. Við Bryndís og Stefán og flestir okkar nánustu ættingjar og vinir við ágæta heilsu. Það ber að þakka.
Á Sony geislaspilaranum mínum er hægt að ýta á high-peak takka og heyra hvar diskurinn rís hæst. Hér eru high-peak stundablik í mínu lífi 2005, samkvæmt vefdagbókinni:
janúar; kvef og heilsuleysi hjá fjölskyldunni, lítið annað merkilegt.
febrúar; keypti árskort í líkamsrækt og hef frá því lést um 15 kg. Hljómsveitin Reykjavík! fór í vel heppnaða tónleikaferð til Lundúna og Brighton.
mars; hlaup mín í ræktinni með hljómsveitina RASS í eyrunum það helst eftirminnilegasta. Svo var það náttúrulega Aldrei fór ég suður.
apríl; tók þátt í afmæli meistara Megasar, með því að halda litla veislu í Máli og menningu og spilaði á tónleikum honum til heiðurs.
maí; fór í skemmtilega vinnuferð til Eyjafjarðar, Kiddý vinkona átti dóttur, Bóas átti strák.
júní; vinir mínir glöddu mig eftirminnilega þann 04. júní, gekk að eiga Bryndísi á stórkostlegasta degi ársins í faðmi vina minna og fjölskyldu, varð þrítugur.
júlí; var í fríi á Ísafirði og fór í brúðkaup Smára Spekt og Sigríðar. Fór á tónleika með Antony and the Johnsons.
ágúst; spilaði á Innipúka, Krúttinu, fór vestur í brúðkaup Hála og Dóru. Stefán Bjartur átti afmæli daginn eftir það brullaup.
september; skemmtileg bókmenntahátíð, mikil og góð bókaútgáfa í kjölfarið, Paul Auster kom í heimsókn.
október; eyddum miklum tíma í stúdíóinu hjá Valgeiri við að taka upp fyrstu plötu Reykjavík!, spiluðum á Airwaves, fór í brúðkaupsferð til Berlínar.
nóvember; Fór á tónleika með White stripes og Sigurrós.
desember; Bryndís varð þrítug og við héldum skemmtilega veislu, fórum á jólahlaðborð og í leikhús. Jesús átti afmæli, héldum uppá það litla fjölskyldan saman ein, í Reykjavík ekki á Ísafirði. Það var notalegt.

Auðvitað gerðist margt fleira skemmtilegt. Þetta var helvíti fínt ár. Ég segi bara takk fyrir mig.
Áramótaheit? Jú, látum árið 2006 vera jafn eða meira skemmtilegt!

4:08 e.h. Ekki vera feiminn

 
Hvar á maður að kaupa flugeldana!
,,Við kepptum í hundruðum kappleikja á árinu, skoruðum böns af mörkum, unnum reyndar enga titla, keyptum dýran þjálfara frá Noregi, eyðum ógisslega miklum peningum til að ná árangri en lítið hefur gengið. Með því að kaupa flugelda frá okkur getum við kannski keypt betri leikmenn, kannski alla góðu mennina í hinum liðunum. Við erum KR".

3:16 e.h. Ekki vera feiminn

28 desember 2005  
Reykjavíkurnætur.
Á aðfangadagskvöld þegar kirkjuklukkurnar hringdu inn hátíðina klukkan 18.00 í útvarpinu var ég að hjálpa Stefáni að taka til í dótinu sínu, Bryndís var að þurrka af bókahillunum inní stofu þegar ein hansahillan losnaði og bækurnar hrundu yfir hana. Ég hljóp til og greip nokkrar bækur og við náðum að stoppa hillunam áður en stórskaði hlytist af. Þetta var örugglega eitthvað hint! Hvað þetta þýðir veit ég ekki. Bókaflóð inní stofu hjá mér kl.18 á aðfangadagskvöld. Úr flóðinu greip ég m.a. Flóttann eftir Sindra Freysson. Mér áskotnaðist hún í haust, ég er ekki búinn að lesa hana. Ætli hún sé ekki góð? Hún gerist á mínum heimaslóðum.

Reykvíkingar eru minntir á að þeir búa í stórborg. Þessi setning er haft eftir einhverjum ráðamanni í útvarpinu eftir að tveir eiturlyfjasjúklingar létust á heimili sínu við Hverfisgötu á jóladag eftir ofneyslu heróíns. Fólk í eiturlyfjaheiminum fer ekki varhluta af góðærinu, fólkið sem lést hafði boðið nágrönnum sínum að kíkja yfir í heróín sama dag! Jú, eiturlyfjavandinn er sannarlega til staðar í smábænum Reykjavík en ætli að það sé ekki hægt að ráðast til atlögu gegn dópruglinu í ekki stærra samfélagi? Ég trúi því algjörlega að eitthvað liggi meira á bakvið; spilling eins og í stórborgunum. Það kæmi einhverjum valdamönnum illa ef eitthvað róttækt yrði gert. Til dæmis kom það bersýnilega í ljós þegar Grímur Atlason, sem marga fjöruna hefur sopið í þessum "efnum", skrifaði í blöðin að úrlausnir vantaði fyrir þessa tegund sjúklinga. Hann talaði þar um vöntun eftirmeðferðar, sjúklingarnir færu aftur og aftur í meðferð en hittu svo alltaf sama fólkið og dyttu á endanum aftur í ruglið. Fyrir þessi litlu skrif hlaut Grímur hótanir í blöðum og var kallaður ljótum nöfnum. Greinilegt að menn eru búnir að koma sér vel fyrir í sætum sínum í þessum meðferðargeira.

Menn keppast um að tala illa um Hringbrautina, hið mikla skipulagsslys. Mér finnst hún frábær. Ég bý í 105 og að ferðast til vina minna sem búa í vesturbænum er hægðarleikur eftir þessar breytingar. Þessar slaufur við Snorrabrautina eru mjög lógískar þegar maður lærir á þær en ég hef vissulega klúðrað málunum þar. Þetta er nefnilega lífæðin milli bæjarhlutana. Þeir sem væla hve hæst um þetta eru þeir sem þurfa ekkert að nota brautina, vilja bara labba um borgina sína. En sömu aðilar hafa áreiðanlega aldrei labbað um þetta svæði. Nú á dögunum labbaði ég frá Stúdentakjallaranum og heim í Barmahlíðina og ég var eldsnöggur að því og var aldrei nálægt bílaumferð. Frábærar þessar stóru göngubrýr. Ekki skemmdi fyrir að þegar ég var á miðri göngubrúnni yfir Njarðargötu sá ég allt í einu ljós birtast að himni ofan; stórglæsileg Fokker 50 var að lenda á flugvellinum okkar. Ég var akkúrat í beinni línu við flugbrautina. Þetta var stórkostleg upplifun í fallegu veðri seint á vetrarkvöldi.

Halldór Ásgrímsson reynir að klára í bakkann, maður fólksins vill ekki að kjaradómur hækki laun þingkjörinna. Hann reynir að líta vel út, veit hinsvegar ekkert hvað hann er að gera. Veit einhver hvað hann er að gera þarna?

Akureyringar eru slegnir yfir því að Guðmundur frá Rifi sé að flytja allan fiskinn úr Eyjafirði. Þeir vilja meina að landvinnslan leggist niður. Þegar Guðmundur keypti þetta allt var Kristján bæjarstjóri hundfúll, sá sami sem fullyrti oftar en einu sinni á sínum tíma að Guðbjörgin færi ekki frá Ísafirði þegar Akureyringar keyptu hana. Þar kom vel á vondan sögðu gárungarnir þá. Ég ætla ekki að segja að þetta sé gott á Akureyringa en það má fara minnka vægi ráðamanna sem koma frá Akureyri. Það er meira en Akureyri og Reykjavík. Allir á Rif, þar eru stuðið. Hvað kallast fólk frá Rifi? Rifverjar? Ribbarar..?

10:14 e.h. Ekki vera feiminn

25 desember 2005  
Hátíð í bæ!

Stefán Bjartur Kristjánsson pollrólegur þegar klukkan sló 18.00 í gær.

Gleðilega hátíð kæru vinir og þið öll sem þetta lesið. Við Bryndís og Stefán áttum yndislegt aðfangadagskvöld saman. Í fyrsta skipti vorum við ein saman og ekki á Ísafirði þar sem við eigum foreldra okkar. Borðuðum hina rómuðu sjávarréttasinfóníu í forrétt, fyllta kalkúnabringu með döðlum og beikoni, heimagert rauðvín með og heimagerður ís á eftir. Allir voru duglegir að borða og allir fengu góðar gjafir. Yndisrosalegt. Mér tókst næstum því að gleyma tilhugsuninni um að lenda á Ísafjarðarflugvelli um hádegi á aðfangadegi og sækja messu í Hnífsdalskapellu kl.18.00. Næstum því.
Það var ekki laust við það að fjölskyldan hafi verið þreytt eftir pakkaflóðið og matinn. Við vorum ekki lengi að sofna. Allir skulduðu svefn eftir annríki síðustu daga. Jólin hjá okkur í bókabúðinni voru stórkostleg. Gekk rosalega vel, mikið að gera og alltaf jafn mikið af skemmtilegum viðskiptavinum. Á þorláksmessu var svo mikill troðningur hjá okkur að ég átti bágt með að komast yfir götuna til að fara á Grand rokk. Já, hvern fjárann var ég að fara á Grand rokk á Þorláksmessu? Nú, til að spila í partýi hjá Kiefer Sutherland. Ég var á fullu við að fylla á bókastaflana en var svo kallaður yfir á Grand rokk um kl.20.00 til að spila rokk. Fór þá úr hvítu skyrtunni og tók bindið af mér og beint í rokkgallann. Kiefer var upprifinn að heyra að þrír meðlimir úr hljómsveitinni hafi frestað för sinni til Ísafjarðar til að spila í partýinu. Það sem Kiefer veit ekki er að tveir af þeim komust ekki vestur í gær til að halda jólin með fjölskyldum sínum, það var ófært með flugi. Ég hamaðist á trommusettinu í góðan hálftíma, kinkaði kolli til Kiefer á leiðinni út og ruddi mér svo leið yfir í Mál og menningu. Eftir að ég hafði þurrkað mestan svitann og var kominn í bóksalagallann fór ég beint í að aðstoða með jólagjöf fyrir áttræða konu sem hafði kennt í húsmæðraskóla. Auður Eir þótti borðliggjandi.

2:49 e.h. Ekki vera feiminn

17 desember 2005  
Jólatónaflóðið í jólabókabúðinni!
Bókabúð Máls og menningar um helgina
Laugardagur 17.12.05:
Kl.14.30 BRYNHILDUR and the BBQ´s
Kl.15.00 MUGISON
Kl.16.00 HJÁLMAR
Sunnudagur 18.12.05:
Kl.14.00 KRISTINN SIGMUNDSSON og JÓNAS INGIMUNDARSON
Kl.15.00 KK & ELLEN
Kl.16.00 SÓLVEIG SAMÚELS

kíkið í miðbæinn og fáið jólastemninguna beint í æð. Gleymið svo ekki að kíkja til okkar í bókabúð allra landsmanna!

Sláandi tíðindi!

Benni Hemm Hemm heldur jólatónleika í Stúdentakjallaranum í kvöld, kl.22.00. Hann tekur hljómsveitina Reykjavík! með sér í stuðið og leyfir þeim að spila með.
Benni Hemm Hemm er ekki bara frábær gaur heldur frábær hljómsveit sem er með bestu íslensku plötu ársins.
Reykjavík! er ekki bara höfuðborg Íslands heldur klikkuð hljómsveit . Hljómsveitin er rekin með miklum halla alveg eins og borgin. Reykjavík! hefur ekki gefið út plötu...ennþá!

11:28 f.h. Ekki vera feiminn

13 desember 2005  
Leikur einn!

Hann Eyvindur P.Eiríksson er sjötugur í dag. Eyvindur er geysiskemmtilegur kall og mikið gæðablóð. Hann hefur oft komið til mín í heimsókn í bókabúðina og nú síðast kom hann til mín í gær og við drukkum saman kaffi á Súfistanum. Það er nefnilega svo með hann Eyvind að það er svo glettilega gott að ræða við hann málin, maður getur talað við hann líkt og jafnaldra. Hann er á sama plani. Hann og Erpur og Eyjó eru meira eins og vinir en feðgar. Eitt sinn sagði ég honum að ég væri með hljómsveit sem sérhæfði sig í finnskum tangó, hann var mjög hrifinn, þekkti finnska tangóinn vel og hafði eitthvað átt við að þýða texta við þekkta tangóa. Eftir góðan tíma birtist hann á gólfinu í bókabúðinni og gaf mér þýðingu á laginu Saatuma; ævintýralandið. Það var afbragðsþýðing. Við spjöllum oft um heimahagana eins og gefur að skilja. Hann eyðir sumrum í Arnardal í Skutulsfirði án rafmagns og hjólar í kaupstað eftir kosti. . Við vorum að tala um Hnífsdælinga í gær og það þótti mér stórmerkilegt að sögur hans af sínum kynnum þaðan í æsku mátti bera saman við mína kynslóð í Hnífsdal. Það var líkt og við værum að tala um sama fólkið, það hét bara öðrum nöfnum. Í minni útgáfu hétu hrekkjusvínin Deddu-púkar en hjá honum synir Stebba hnífs..eða eitthvað svoleiðis.

Á bókmenntakvöldi á Hótel Ísafirði árið 1996 var hann að lesa upp og hafði hitt mig einhverju fyrr og beðið mig um að tromma undir lestri sínum á téðu kvöldi. Ég átti að mynda hjartslátt undir miklum og taktföstum kvæðabálki undir heitinu "Hakk". Þetta var nú ekkert annað en rapp hjá kallinum. Þetta gerði ég að sjálfsögðu fyrir kallinn og mætti með stóra konga-trommu og allt kom þetta vel út. Í hléinu, eftir að ég hafði troðið upp kom til mín annar höfundur sem var líka að lesa upp í þessari dagskrá og sagði; ,,trommar þú ef ég syng?". Ég svaraði af bragði að það væri líklegast heppilegra en að ég syngdi og viðkomandi myndi tromma. Það varð úr að höfundurinn var kynntur á svið eftir hlé og ég kynntur sérstaklega til leiks. Höfundurinn minntist aldrei á hvað skyldi sungið, setti sig bara í stellingar og blikkaði mig þegar ég átti að telja í. Ég henti mér í einhvern takt og höfundurinn hóf raust sína af miklum glæsibrag.
Hvert er skáldið?

10:12 e.h. Ekki vera feiminn

11 desember 2005  
Hver er höfundurinn?
Um helgina komu til okkar fjölmargir höfundar í heimsókn. Þeir ráfuðu um og spjölluðu við viðskiptavini, afgreiddu á kössunum, pökkuðu inn, árituðu og margt fleira. Þannig mátti sjá Hallgrím mæla með bók fyrir þrettán ára stúlku, Sjón segja til hvar bílablöðin væru, Vilborgu Davíðs pakka inn Hugleiksbók sem jólagjöf, Auði Eir og Eddu Andrésar hlaupandi um alla búð leitandi af suður-amerískum matreiðslubókum. Þetta er uppátæki sem við hófum að bjóða uppá fyrir fjórum árum. Rithöfundar afgreiða; þá eru höfundar ekki að koma gagngert til að árita, sem getur verið mjög pínlegt, eða að lesa upp. En þeir geta gert hvort tveggja fyrir utan að afgreiða bækurnar oní poka.
Fyrir síðustu jól var ég að falast eftir höfundum til þess að "afgreiða", og fékk ég skemmtilegt svar frá einum höfundi sem var þá með skáldsögu:

Já, ég skal mæta svo framarlega að gengið verði að eftirtöldum skilyrðum:

A. Ég fái ókeypis kaffi og ábót.
B. Tryggt verði að Arnaldur hlæi ekki að mér.
C. Ungum drengjum verði ekki sérstaklega beint til mín.
D. Enginn segi við mig: ég man eftir þér, ert þú ekki Randver Þorláksson.
E. Fólk fari ekki að apa eftir göngulagi mínu (sem er frekar vaggandi, þetta er erfðagalli).
F. Þeir sem kaupi bókina mína verði ekki stoppaðir af og lamdir í klessu.
G. Hinir rithöfundarnir mæti ekki með heillandi gæludýr, svo sem talandi páfagauka.
H. Ég fái að komast á salernið á a.m.k. þrisvar, einu sinni til þess að gera nr. 1 einu sinni til þess að gera nr. 2 og einu sinni til þess að þvo mér um hendurnar.

Hver er þessi höfundur?

(svarið fékk ég í tölvupósti og er ég því hugsanlega að brjóta lög. Þetta er nú samt voða saklaust og varla meiðandi fyrir hlutaðeigandi.)

6:09 e.h. Ekki vera feiminn

08 desember 2005  
Á Grand Rokki má finna margt fleira en vonda lykt!
Úrkynjuð aðventa á Grandrokk með Reykjavík! Hairdoctor og Ben Frost.
Föstudagskvöldið 9. desember næstkomandi mun stórmerkilegur viðburður eiga sér stað á öl-kránni Grandrokk við Smiðjustíg í miðbæ Reykjavíkur, en þáleiða saman hesta sína ansi máttug öfl úr íslensku og alþjóðlegumenningarlífi og keyra saman kollum svo úr verður mikill og listfenginnárekstur. Um er að ræða tónleika sem hefjast um kl. 23oo, en þar koma fram:
Ben Frost-Hairdoctor-Reykjavík!Milli laga munu svo fræknir fulltrúar Nýhil-samsteypunnar kynna nýja ljóðaseríu sína, Norrænar bókmenntir. Ekki er þó verið að slá í neitt ljóðakvöld, heldur munu rokk og rólegheit skiptast á eins og skin og skúriryfir gervallt kvöldið, sem hlýtur að ljúka með trylltum ölæðisdansi.Miðaverði á þessa hljóðveislu er stillt mjög í hóf, aðeins kostar 500 krónurinn, þrátt fyrir að engu sé til sparað við að gera þá sem glæsilegasta úr garði (m.a. með notkun hágæða hljóðgerfla, gervisnjávar, reykvélar og rauðrafiltspjalda).
Ben Frost
Drengurinn með fínu klippinguna, Ben Frost – eða Frosti eins og hann er stundum kallaður – er fæddur og uppalinn í Ástralíu en elur manninn í Reykjavík þessa dagana og lætur vel af. Hann hefur á sínum 27 árum víða getið sér góðs orðs fyrir eigin tónsmíðar, mikla færni í hljóðupptökum og síðast en ekki síst endurhljóðblöndunarhæfni sína, en Frosti hefur fitlað við lög margra þekktra tónlistamanna. Þessa dagana starfar hann samhliða Valgeiri Sigurðssyni í Gróðurhúsinu milli þess að hann vinnur að eigin tónsmíðum – en í þeim má m.a. heyra óm af Swans, Cure (c.a. Pornography) og jafnvel Joy Division. Á föstudaginn má heyra forsmekk af væntanlegri plötu hans, „Theory of machines“, en áætlað er að hún komi út árið 2006. Þess má geta að góður rómur var gerður af framkomu Bens á Airwaves hátíð haustsins.
Hairdoctor
Að búa til tónlist er góð skemmtun. Þetta veit Hairdoctor. Þess vegna er fyrsta plata Hairdoctor, Shampoo, kominn í allar betri hljómplötuverslanir landsins svo að þú, hlustandi góður, getir notið fyrsta flokks skemmtunar í formi tónaflæðis hvenær sem þér hentar. Jón Atli (sem hingað til verið hvað mest áberandi á tónlistarsviðinu sem plötusnúður og bassaleikari – hefur spilað með fjölda listamanna hér á landi, allt frá hip hop sveitinni Forgotten Lores yfir í Bang Gang en lengst af var hann þó í rokkhljómsveitinni Fídel) og tæknitröllið Árni "PlusOne" gera Hairdoctor að því sem hann er í dag – svölum gaur sem veit hvað hann vill og gerir þar að auki fína tónlist sem helst væri hægt að lýsa sem lo-fi poppi með taktföstum tölvutónum.
Reykjavík!
Hljómsveitin Reykjavík! hefur vakið talsverða athygli í það eina og hálfa ársem hún hefur starfað, enda þykir sprengikraftur hennar á sviði magnaður(svo mjög að sumum þykir nóg um). Á stuttri starfsævi sveitarinnar hefur hún afrekað ýmislegt, m.a. að koma fram við góðan róm á Aldrei fór ég suður, Innipúkanum og tvennum Airwaves-hátíðum, afdrifaríka ferð til Lundúna og Brighton á vegum hinnar þarlendu Xfm útvarpsstöðvar og vefritsins drownedinsound.com og svo eignaðist líka söngvarinn Bóas fallegan pilt,Dalí, ásamt henni Ingu sinni. Um þessar mundir vinnur Reykjavík! að hljóðversfrumburði sínum í samstarfi við hinn kynngimagnaða ValgeirSigurðsson, en útgáfa hans er áætluð snemma á næsta ári.

11:27 e.h. Ekki vera feiminn

05 desember 2005  
Bárður fullur!
Bryndís mín átti afmæli í gær og við héldum uppá það á laugardagskvöldið með því að fara á Lækjarbrekku og borða góðan mat og síðan í Hafnarfjarðarleikhúsið að sjá gott leikhús. Það rættist úr því. Við borðuðum góðan mat á Lækjarbrekku og drukkum Shiraz með (Merlot er fyrir vanvita), þar sem leiðin lá suður til Hafnarfjarðar og við búin að staupa okkur urðum við að kvabba á vinum okkar. Núna liggur við að ég þurfi að hætta að blogga því upp gaus bráðamengun við heila. Ég fékk lagið "Ég held ég gangi heim.." á heilann. Þetta bévítans lag er óafturkræft umhverfisslys! Verra en Kárahnjúkar. Takk Valgeir Guðjónsson!
En þegar hér er komið við sögu þá fengum við Gumma til að keyra okkur á okkar bíl sem við höfðum lagt í grennd við MR. Við hlupum af Lækjarbrekku og hittum Gumma á bílastæðinu en þar var bíllinn okkur fastur inni þar sem tíu bílum hafði verið lagt á miðju bílastæðinu. Bílarnir komst hvergi. Jón Þór kom aðvífandi til bjargar sem oft áður á Lödu Sport 2002 með litaðar rúður og ók okkur á ofsahraða beint til Hermóðar og Háðvarar.
Þar beið okkur Himnaríki. Eftir Árna Ibsen. Árni er pabbi Þóru Karítasar. Ég ætla að vona að Árni sé góður til heilsunnar. Hann veiktist á dögunum. Sýningin er mjög skemmtileg. Gestir þurfa að skipta um sal í hléi, sjá sömu sýningu frá tveimur hliðum. Inní og fyrir utan sumarbústað. Frikki er frábær leikari og Guðlaug Elísabet var mjög skemmtileg. Við Bryndís vorum sammála um það að Jóhann Jóhannsson væri búinn að brenna brýr að baki sér með því að leika í Stundinni okkar. Það var erfitt að horfa uppá hann blindfullan í Himnaríki og daginn eftir í bláum spandex-galla að skemmta þriggja ára syni okkar. Þeir eiga þetta sameiginlegt Jóhann og Gunnar Helgason, en Gunnar sá ég einmitt fyrir fáeinum árum í Sölku-leikgerð í Hafnarfirði. Gott að hann hafi ekki leikið Arnald. Hann var ekki sannfærandi. Maður beið eftir að Felix birtist á sviðinu honum við hlið og þeir brytust í söng.
Óneitanlega fer maður að hugsa hvort ég sé á góðri leið með að skemma fyrir sjálfum mér. Hressi Penninn-Eymundsson kallinn. Get aldrei orðið svona hljómsveitartöffari eins og strákarnir í Singapore sling. Verð aldrei tekinn alvarlega í pólitík. Sölumannshæfileikum mínum er mætt með hlátri. "Hey..áttu gatara, hehehe"! "Þadna...Kate Moss...eitthvað, hahaha"!
Svo vinn ég ekki einu sinni í Eymundsson.

9:33 e.h. Ekki vera feiminn

02 desember 2005  
Hverjir verða hvar um helgina?
Laugardagur 03.des.
Kl.14.00 Töframaðurinn Jón Víðis kynnir Töfrabragðabókina
Kl.14.30 Aðalsteinn Ásberg flytur efni úr Romsubókinni og tekur lagið
Kl.15.00 Sigrún Edda kynnir myndasöguna Rakkarapakk
Kl.15.30 Útgáfan Stílbrot kynnir bókina Tröllafell og tölvuleik á netinu sem henni fylgir
Kl.16.00 Skoppa og skrítla koma í heimsókn
Einnig verða höfundarnir Kristín Helga, Ragnheiður Gestsdóttir, Halldór Baldursson og Gæludýra-Guðrún á staðnum milli kl.15.00-16.30.

Kl.16.30 Stórsveit Baggalúts spilar sveitó tónlist.

Sunnudagur 04.des.
Dagurinn verður tileinkaður ljóðinu í Bókabúð Máls og menningar við Laugaveg 18.
Ljóðabókaútgáfa ársins verður í forgrunni og ljóðskáldin mæta á staðinn, spjalla við viðskiptavini, lesa upp úr bókum sínum og árita.
Boðið verður uppá kakó og piparkökur.
Dagskráin stendur frá kl. 15.00 - 17.00 og þeir sem taka þátt eru m.a.:
Halldóra Kristín Thoroddsen með bókina Gangandi vegfarandi
Haukur Már Helgason með bókina Rispa jeppa
Þorsteinn frá Hamri með Dyr að draumi
Óttar Norðfjörð með Gleði og glötun
Kristjan Guttesen með Litbrigðamyglu
Sölvi Björn Sigurðsson með Gleðileikinn djöfullega

- þetta er nú ekki blogg, Kriss minn Rokk!
- Já, nei ég veit. Þetta er bara auglýsing.
- Þú verður nú að fara skrifa eitthvað gáfulegt eða sniðugt.
- Já, ég gæti skrifað um bækur eða um borgarskipulag. Hringbrautina kannski?!
- Tjaahh. Skrifaðu frekar eitthvað sniðugt.

12:36 e.h. Ekki vera feiminn

19 nóvember 2005  
Síðasta helgin fyrir jólaátökin!
Hæ,
ég er að fara í IKEA að kaupa herbergi fyrir Stefán. Þessi helgi verður annars notuð í að draga andann en jólin koma brátt. Fullt af spennandi bókum sem mann langar að lesa, ég er annars að lesa Sjón og Kristjón Kormák. Bryndís stal annars bók þess síðarnefnda. Þessi jól verða tímamótajól hjá mér og fjölskyldunni, við munum ekki fara til Ísafjarðar í ár. Við erum orðin fullorðin. Ég þarf einmitt að fara að finna afmælisgjöf fyrir Bryndísi en hún verður þrítug í byrjun desember.
Ég mun geyma að lesa einhverjar af þessum glæpasögum til aðfangadagskvölds, það verður næs. Annars var gaman að lesa í morgunblaðinu í dag, á bls.34 um verðkönnun í Bónus og Krónunni. Sú grein var eins og vel skrifuð spennusaga um verðstríð.
Svo er ég að hlusta á Megasukk, hún er mjög skemmtileg, og gaman frá því að segja að ég get hermt eftir Hafþóri söngvara Súkkats..ef ég er í stuði. Svo finnst mér gaman að hlusta á Arcade fire og Benna Hemm Hemm. Platan hans Benna er með því besta sem ég hef heyrt á árinu. Svo finnst mér gaman að Eiríkur sé farinn að skrifa aftur á síðuna sína!
Hvað finnst ykkur gaman?

2:29 e.h. Ekki vera feiminn

11 nóvember 2005  
Ég er í röð útá götu!
Á miðvikudagskvöldið fór ég úr vinnu um kl.19.30 og kom við á Domino´s á Skúlagötu að sækja pizzu. Þá var röð útá götu og þar stóð ég í kuldanum. Til að láta Bryndísi vita af stöðunni ákvað ég að senda henni sms: "ég er í röð út á götu"! Það fór nú ekki betur en svo að ég sendi sms-ið óvart á vin minn Braga Valdimar en hann er einmitt á undan Bryndísi í símaskránni í farsímanum. Þetta var svo sem ekkert merkilegt nema hvað að ég fékk sms frá Braga um kl.06.00 árla fimmtudagsmorguns: "Fædd, Inga Margrét Bragadóttir kl.04.10, 51 cm. Allir í góðu stuði". Ég hef greinilega fundið á mér að eitthvað væri að gerast hjá Braga.
Ég get samt ekki ímyndað mér hvað Bragi hefur haldið um mig þegar hann, verandi á fæðingardeildinni fékk frá mér sms-ið: ég er í röð útá götu.

8:00 e.h. Ekki vera feiminn

06 nóvember 2005  
Brúðkaupsferð í Berlín!

Sjónvarpsturninn við Alexander-torg.
Við komum úr ferðinni okkar á síðasta þriðjudag og erum algjörlega í sjöunda himni. Berlín er frábær borg, falleg, spennandi og menningin og sagan við hvert fótmál. Við flugum á fimmtudeginum út til Kaupmannahafnar, vorum lent um hádegisbil og hentum töskunum í geymslu á flugvellinum. Meðan ég eyddi dögunum fyrir brottför í almenn kvíðaköst og magahnúta þá skipulagði Bryndís ferðina frá A–Ö. Hún er helber snillingur þegar kemur að svoleiðis.
Fimmtudeginum var því eytt á Strikinu, annarsvegar í Hennes & Mauritz og hinsvegar á barnum. Eins og sönnum íslendingum sæmir fórum við út úr H&M með tvo troðfulla poka. Þaðan fórum við út á völl og með Easy Jet til Berlínar. Þangað komum við um miðnætti og hafði Bryndís þess vegna bókað herbergi á Holiday Inn á Schönefeld flugvellinum í Berlín. Það var æði að ferðast með easy-jet, fínar vélar og nóg af plássi.
Föstudagurinn rann upp og Berlín skartaði sínu fegursta í sól, heiðskýru og 20 stiga hita. Eftir lestarferðina niðurí bæ, og smá labb fundum við hótelið okkar. Þar fengum við ekki nógu góðar móttökur því þeir báru fyrir sig misskilning og sögðu allt vera uppbókað næstu nótt. Við brugðumst harkalega við og sagði ég m.a.”..this is totally unacceptable”! Við fengum því herbergi á öðru hóteli í grenndinni þessa einu nótt, leigubíl þangað og aftur tilbaka daginn eftir. Þar að auki frían morgunverð og drykki á barnum. Fjórum gistinóttum okkar í Berlín eyddum við á þremur hótelum.

Ég og bjórfroða á Hackescher-hofi.
Við notuðum föstudaginn í að kynnast umhverfinu og löbbuðum á Hackescher markt, þar var margt að skoða, um kvöldið fórum við á tapasbarinn Yosoy sem mælt var með í Lonely planet. Staðurinn var troðfullur en við fengum tvo stóla við barinn og pöntuðum einn fisk-platta og einn kjöt-platta. Það er ekki hægt að segja að við höfum borðað þetta með bestu lyst, kjötið samanstóð af tveimur skinkusneiðum, allt hitt var í olíubaði; síli, ólífur, ætiþistlar og einhver óskapnaður. Bjórinn þarna var fínn. Eftir það fundum við kokteilbarinn Erdbeer (jarðarberið), þetta kvöld og hinum kvöldunum lukum við á þessum bar. Ódýrir og æðislegir kokteilar.

Bryndís og Berlínarmúrinn.
Laugardagurinn var túristadagur. Stefnan var tekin á Brandenburgar-hliðið, Checkpoint-Charlie, Berlínarmúrinn og TV-tower. Það kom okkur skemmtilega á óvart að allt var þetta í göngufæri, þ.e.a.s að ekkert labb var yfirgengilegt. Við fórum á safnið við Checkpoint Charlie og þar var hægt að renna sér í gegnum söguna frá byggingu múrsins til fallsins en við lögðum ekki í brjálaðar biðraðir við TV-tower og Reichstag (þinghúsið). Eftir frábæran túristadag sem við enduðum í bjór á Potsdamer platz, áttum við pantað borð á veitingastaðnum Nocti-vagus þar sem borðhaldið fer fram í myrkri og þjónarnir eru blindir. Það var þvílík upplifun. Við sáum ekki neitt, myrkrinu var ekki hægt að venjast. Í ofanálag við myrkrið og upplifunina þá pöntuðum við svokallaða “óvissuferð” á matseðlinum. Þetta voru fjórir réttir og hver öðrum betri. Eftir að við höfðum lokið okkur af, yfirgáfum við matsalinn og myrkrið og fórum aftur upp á barinn. Þar fengum við að vita að við vorum að borða; salat með gæsakjöti, súpu með túnfiski, naut, kanínu og krókódíl í aðalrétt. Í eftirrétt fengum við ávexti og hrísgrjón. Þetta var æðisgengið.
Á sunnudeginum nutum við þess einungis að vera í fríi, í Berlín. Fórum í bátsferð um ána Spree og sáum m.a. sundursprungnar brýr. Löbbuðum líka í Prenzlauer Berg, þar sem búa víst íslenskir námsmenn. Þeir voru greinilega heima að læra því við sáum enga íslendinga. Við heimsóttum gamlan myndasjálfsala áður en við fórum heim á hótelið. Eftir enn einn frábæran dag í Berlín, og jafnframt síðasta dag fórum við yfir bækur okkar til að finna veitingastað að heimsækja. Þá komumst við einfaldlega að því að gatan sem við bjuggum við, Oranienburgerstrasse er fræg fyrir fína veitingastaði. Við löbbuðum því einungis yfir götuna og borðuðum á austurlenska staðnum Mirchi (sem þýðir víst chili pipar). Löbbuðum þaðan út eftir dúk og disk, södd og sæl. Sóttum sannarlega ekki vatnið yfir lækinn í það skiptið.

Einbeitt við myndatöku við 17.júní-götu.
Við erum í skýjunum eftir ferðina sem við fengum í brúðkaupsgjöf frá vinkonum Bryndísar..vinkonum okkar. Berlínarbúar tóku vel á móti okkur, svo vel að gestrisnin var næstum vandræðaleg!!(..en hér á myndinni að ofan sést að gatan fyrir aftan okkur heitir strasse des 17.júni, en þá giftum við okkur!) Það er náttúrulega algjört rugl hjá manni að einblína á flugið til og frá þegar maður fer í fríið en svona er þessi blessaða flughræðsla. Eins og ég hef gaman af því að vera til, þá finnst mér ekki gaman að láta færa mig til. Ég fékk hinsvegar töflur hjá Maríu systur minni og þær róuðu mig eitthvað.

9:59 e.h. Ekki vera feiminn

25 október 2005  
Bókabúðastrákurinn er flugdólgur!
Við Bryndís erum á leið til Berlínar eftir rúman sólarhring. Við fengum flugferð í brúðkaupsgjöf frá vinum okkar. Þetta verður spennandi og skemmtilegt. Fáum okkur Berlínarbollur, hlustum á hljómsveitina Berlín, höngum við Berlinarmúrinn og kíkjum á Berlínarbjörninn, sem er örugglega á Checkpoint Charlie. Annars höfum við ekki komið til Berlínar og þess vegna gaman að vita ekki alveg hverju maður á von á. Heiða sagði okkur annars frá ýmsum stöðum sem við yrðum að heimsækja, m.a. blinda veitingahúsið þar sem borðhaldið fer fram í niðamyrkri og þjónarnir eru blindir. "Gæti ég fengið að heyra matseðilinn?".
Þetta ferðalag okkar gæti verið ögn gleðilegra fyrir mig og ekki síst elskulega konu mína ef ég væri ekki SJÚKLEGA FLUGHRÆDDUR! Það er algjör hryllingur að vera svona, þetta tekur af manni alla gleði við að ferðast og ekki getur maður verið skemmtilegur ferðafélagi. Þeir sem þekkja ekki flughræðslu skilja hana engan veginn og gera gys að manni. Þetta er ekki svona einfalt. Það er ekki eins og maður haldi að flugvélin sé að hrapa, það eru bara einhver ógurleg óþægindi sem fylgja þessu. Því er ég og Bjarnveig búin að stofna klúbb, hann á að heita the mile high club...er búið að nota það annars?!
Ég er hinsvegar kominn með lausn á þessu vandamáli; ég ætla að gerast FLUGDÓLGUR! Þá hefur maður í nógu að snúast í vélinni og hefur engan tíma til að hugsa hvar maður sé staddur eða hve mikið sé eftir að flugleiðinni. Ætli tannlæknirinn og handboltaþjálfarinn séu með dólganámskeið?!
Ég kem aftur eftir helgi, ætli ég verði ekki á forsíðu DV þá. Svarthvít mynd af mér með yfirvaraskegg og kótilettuvanga; "Bókabúðastrákurinn er flugdólgur"!

10:37 e.h. Ekki vera feiminn

20 október 2005  
Það er hollt að dansa!
Reykjavík! eru í banal-stuði þessa dagana og ætlar að deila því með öðrum. Spilum í kvöld, fimmtudag í Hafnarhúsinu kl.20.20. Þar er því miður uppselt fyrir aðra en þá sem hafa þartilgerð armbönd. Þess vegna er gaman að segja frá því að við munum spila í Smekkleysubúðinni á morgun föstudag kl.18.15. Þar er aðgangur ókeypis.
Það er hollt að dansa!

12:52 e.h. Ekki vera feiminn

16 október 2005  
Haustið í Reykjavík!


Minn uppáhaldsárstími er tvímælalaust haustið. Litirnir, myrkrið, lyktin og laufblöð útum allt. Haustið byrjar í ágúst og endar þegar byrjar að snjóa, verður óbærilega kalt og líður að jólum.
En nú er búið að stela haustinu! Neyslusamfélagið er búið að stela haustinu. Um leið og fyrsta laufblaðið fellur þá byrja kaupmenn að auglýsa jólin. ,,Jólin byrja hjá okkur". Maður fær ekki að anda haustinu að sér, fyrir peningalyktinni. Og ég er hluti að lyktinni.

Hljómsveitin Reykjavík! spilar í gallerý Humar eða frægð í Smekkleysubúðinni næsta fimmtudag kl.18.00 og á Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu kl. 20.20 sama kvöld. Það væri gaman að sjá ykkur þar!

Í tilefni af þessu langar mig að setja hér inn tengil að glænýjum, ferskum, lífrænt ræktuðum afurðum úr Gróðurhúsinu. Þær hafa ekki náð fullum þroska og eitthvað á eftir að hreinsa og flysja. Fríkeypis!

Always
Jesus meets Daniel san

10:16 e.h. Ekki vera feiminn

08 október 2005  
Mál og menning mætti Eymundssyni í Popppunkti!
Í gær fór fram á Grand Rokk æsilegt einvígi bókabúðanna Máls og menningar við Laugaveg og Eymundssonar við Austurstræti í Popppunkti. Engu var til sparað, verslunin 12 tónar sá um framkvæmd keppninnar, dómgæslu og sömdu allar spurningarnar. Þrautirnar voru skemmtilegar og fjölbreyttar;
- Hraðaspurningar
- Búðin spreytir sig
- Vísbendingaspurningar
- Leynigestur
- Bjölluspurningar
- Popphjólið
Skemmst er frá því að segja að Eymundssynir áttu sér aldrei viðreisnarvon, einhver myndi segja að lið Eymundssonar hafi verið kjöldregið, annar gæti orðað það þannig að þeir hafi verið teknir í bakaríið, eða nefið, já eða í ra**gatið....en ekki ætla ég að gera það!
Allir stóðu sig vel og úr varð geysiskemmtilegt kvöld.

Ég klæddist hálstaui frá Indriða klæðskera í gær og stóð uppi sem sigurvegari.

9:49 e.h. Ekki vera feiminn

01 október 2005  
Reykjavík! í hljóðveri!


Hljómsveitin Reykjavík! er þessa dagana að vinnu að breiðskífu í hljóðverinu Gróðurhúsinu í Breiðholti. Gróðurhúsið er tvímælalaust eitt snyrtilegasta, flottasta og best búna hljóðver landsins.


Valgeir Sigurðsson ræður ríkjum í Gróðurhúsinu. Valgeir er hin klæðskerasniðna viðbót við öll flottu og dýru tækin í hljóðverinu svo útkoman verði sem næst fullkomnun.


Á þessari mynd eru hinn ástralski tónlistarmaður Ben Frost og austfirski söngfugl Bóas Hallgrímsson að útsetja einhverja aríuna. Ben Frost og snillingurinn Míó (bróðir Valgeirs) eru okkur til halds og trausts í hljóðvinnunni.


Valgeir er heilmikill snillingur og hefur unnið með fjöldamörgum tónlistarmönnum. Björk gerir ekkert án hans, við hittum Morten Harket söngvara A-ha hjá honum ekki fyrir löngu og svo var Will Oldham að panta tíma í Gróðurhúsinu. Valgeir var líka í UNUN og er sitjandi Íslandsmeistari í Víbrafónleik. Það er mjög spennandi að vinna svona rokk með Valgeiri. Bóas og Valdimar ráða vart við kæti sína.


Guðmundur er ekki bara myndarlegur maður, hann er líka brjáluð gítarhetja sem nær á tíðum undraverðum tónum úr hljóðfæri sínu. Á milli laga sýnir hann hljóðfærunum ást og alúð.


...svo er það náttúrulega Haukur sem er, má segja spútnikvopn okkar Reykvíkinga! Skeleggur blaðamaður, draumatengdasonur og geðugur piltur sem breytist í óargadýr þegar búið er að plögga hann í magnara!

12:52 e.h. Ekki vera feiminn

26 september 2005  
Ég er frjáls og óháður, en hef ekkert að segja...!
Hvernig á maður að snúa sér í þessu Baugsmáli? Á hvaða fjölmiðla á maður að hlusta á? Hvaða blöð á maður að lesa? Hver er vondi karlinn og hver er góði gaurinn? Frá því að maður lék sér á yngri árum í "löggu og bófa" hefur maður nokkurn veginn haft á hreinu hvor er hvað! Man einhver hinsvegar um hvað málið snerist í blábyrjun? Blábyrjun, skemmtilega orðað.
Alla mína samúð fá þeir sem eiga tölvupóst sem síðan er birtur í fjölmiðlum. Ég lenti í því á dögunum að ég sendi kunningja tölvupóst og reyndi að vera fyndinn, en kímnin komst ekki til skila.
Er þetta ekki annars spurning um bullandi spillingu á bananalýðveldinu Íslandi? Jónar, Jóhannesar, Björgólfar, Baugur, Kolkrabbi. Er ekki soldið fyndið að í öllum þessum óbragðsgrauti sé allt þagað í hel í bak og fyrir. Það er ekki nema peð eins og Þórólfur Árnason sem hefur snefil af sjálfsvirðingu og axlar ábyrgð. Af mýmörgum dæmunum.
Þórólf sem borgarstjóra!!

7:03 e.h. Ekki vera feiminn

22 september 2005  
tek á móti pólitískum bitlingum milli kl.....
Í gær skráði ég mig í Flokkinn og pantaði mér ferð til Austur-Þýskalands. Það held ég að Grímur sé ánægður með mig núna...!

2:56 e.h. Ekki vera feiminn

15 september 2005  
Sitthvað!
Ég er að lesa bókina Skotgrafarvegur eftir finnskan höfund sem heitir Kari Hotakainen og er staddur hér á Bókmenntahátíð. Bókin er mjög skemmtileg og fyndin. Fyrir tveimur árum kom hingað annar finnskur höfundur á Bókmenntahátíð; Mikael Niemi sem skrifaði Rokkað í Vittula, þá frábæru bók. Niemi kom til okkar í Mál og menningu ásamt Páli Valssyni útgáfustjóra. Páll kynnti okkur Óttarr Proppé fyrir honum með skemmtilegum hætti; ,,Óttarr er ein legend í islandsk rock & roll och Kristjan er ein polkarytmameister”. Við Óttarr spjölluðum við Niemi dágóða stund og keyptum svo sitthvort eintakið af Rokkað í Vittula og fengum hann til að árita. Það fór svo ekki betur en svo að kynning Páls stóð eitthvað í Niemi, því þegar ég kom heim með eintakið mitt stóð á saurblaðinu; ,,till Kristjan, ein legend i islandsk rock & roll”! Sem setur mig í óþægilega pressu. Ég veit hinsvegar að polkinn stendur varla í Óttarri!

Ég hitti eða sá öllu heldur Þorstein Jóhannesson í Búðardal um daginn. Þorsteinn er læknir á Ísafirði og fyrrum oddviti Sjálfstæðisflokksins þar. Við vorum einmitt saman í Bæjarstjórn milli 1996-1998. Þorsteinn lenti í einhverjum vandræðum með hjónabandið fyrir nokkrum árum og alla tíð síðan hef ég bara séð manninn með ægilega skeifu, fýlusvip. Á fjögurra ára fresti, eða fyrir kosningar birtist Þorsteinn ávallt mjög kumpánlegur á reiðhjóli, kumpánlega líkt og margir hverjir sem eru í framboði. Mér flaug þetta í hug þegar ég hitti rithöfund á dögunum sem heilsaði mér einmitt kumpánlega, sem aldrei fyrr. Sama mann hitti ég í sumar á tónleikum en þá var eins og hann þekkti mig ekki.
Það er komið haust.

Á dögunum kom fram hér á síðunni hugtakið “lélegur bloggari”, sem fékk mig til að hugsa um hvað það er ferlegt að vera kallaður lélegur bloggari. Blogg er dagbók, ef maður er lélegur bloggari, þá á maður lélega dagbók, lélegt líf.

Ég er með í maganum yfir nýju stjörnuspánni í Mogganum, ég hef ávallt farið inní daginn með gömlu stjörnuspána og haft hana sem leiðarvísi fyrir daginn, en hvað á ég nú að gera.

9:39 e.h. Ekki vera feiminn

14 september 2005  
Paul Auster í Máli og menningu!
Rithöfundurinn og töffarinn Paul Auster mun koma í heimsókn í Bókabúð Máls og menningar við Laugaveg 18 á morgun fimmtudag 15. september kl.16.30. Þá geta menn og konur hrifist af töffaraskap og ljúfmennsku hans og fengið hann til að árita bækur. Fólk má koma með sínar eigin en svo er gríðargott úrval af bókunum hans í búðinni á ensku og lítið eitt á íslensku.
Auster á stóran aðdáendahóp hér á landi og er það morgunljóst að félagi minn Davíð Stefánsson er einn þeirra. Það var allavega hann sem benti mér á hann fyrst. Hún er allavega skemmtileg greinin hans Davíðs sem ég las í dag í Tímariti Máls og menningar sem er tileinkuð komu Austers.
Vonandi veit Davíð af Auster í Máli og menningu.

7:14 e.h. Ekki vera feiminn

11 september 2005  
Hryðjuverk!
Í dag er 11.september eða nine-eleven, dagurinn sem breytti heiminum árið 2001. Dagur hryðjuverka. Sá dagur var nú alls ekki efstur í huga í dag, áttum prýðilegan dag. Fórum í heimsókn til Kiddýar og Tóta og fengum svo Gumma og Jón í heimsókn. En það er þó ekki að ástæðulausu að ég nefni hryðjuverk! Ég fór nefnilega í "leikhús" í gær, í loftkastalann. Þar á fjölum er boðið uppá tónleikinn Bítl. Þar eru þrír menn að leika Bítlalög og segja brandara og sögur á milli. Okkur var boðið á þessa sýningu af Pennanum, sem var nú aldeilis vel boðið. Ég skrúfaði niður væntingarnar á leiðinni vestur í bæ og mætti inní sal með bjór í hendi mjög jákvæður. Flestir hafa gaman af Bítlunum og fátt ætti að geta klikkað, nema flytjendurnir náttúrulega!
En maður lifandi hvað þetta var ægilegt leikhús. Þessi sýning er hvorki fugl né fiskur. Hún hangir ekki saman þrátt fyrir góða tónlist því grindin er engin. Utan um Bítlalögin eru bara einhverjir fimmaurabrandarar sem maður hefur heyrt áður og þeir hlæja mest sjálfir af þeim, þrátt fyrir að segja þá sömu þrisvar í viku. Ég hygg svona eftir á að þeir hafa verið að hlæja að okkur sem voru í salnum og borguðu sig inn. En þá kemur að sjálfum lögunum sem flestir hafa gaman af, allavega þeir sem mæta af ásetningi, þau voru voða skrýtin. Útsetningarnar voru fyrir tvo gítara og píanó. Þær voru bara alls ekki skemmtilegar og þrátt fyrir að píanóleikarinn Pálmi Sniglabands sé fær þá var ekki gaman að heyra gospelpíanó í lögunum. Þetta var ægilegt. Og ég sem var svo jákvæður. Þetta væri hugsanlega í lagi núna í kvöld á Hverfisbarnum, á fjórða bjór og aðgangseyrir 500 kr., en í leikhúsi fyrir 2.200 kr...nei!
Ég fór heim grátandi og beint í nauðgunarsturtu.

10:41 e.h. Ekki vera feiminn

06 september 2005  
Er hægt að vera með reiðhjólahjálm og halda kúlinu um leið?



Það er leiðinlegt að segja það en samviskan sem talar á mínu heimili, nefni engin nöfn en fyrsti stafurinn er "B" og síðasti "riss", hefur fengið mér hjálm í hendur sem ég mun ávallt klæðast framvegis þegar ég fer út að hjóla , og hefur þetta næstum tekið alla gleðina af mér við það að ferðast um á hjólinu. Eins og það er gaman. Ef ég dirfist að nefna það hversu kjánalegur ég lít út með þetta höfuðfat, svarar hún umsvifalaust að ég liti jafnvel verr út án höfuðs eftir að ég hef lent í árekstri á hjólinu.

Gaman að sjá Popppunkt aftur á skjánum. Frábært sjónvarpsefni. Hvenær mun Gunni selja hugmyndina til útlanda og verða forríkur, hann yrði okkar næsti Magnús Scheving og æki um á alveg eins bíl og Doddi í leikfangalandi. Annars er ég ekki ánægður með sýningartímann, mér fannst miklu skemmtilegra að hafa þáttinn á laugardegi. Hátíðlegra. Svo lengdi það helgina að endursýna þáttinn á sunnudagskvöldi. Ég er í raun mjög óánægður með þetta og er að spá í að fara að mótmæla. Hringja í þessa Birgittu og hræra í skyr ... kannski?!

Jæja, ég ætla að fara að horfa á Gísla Einarsson með þáttinn Út og suður. Algjörlega frábærir þættir. Gísli er jafngóður að ræða við fólk, kynna sér viðfangsefnið og búa til áhugaverðar samræður líkt og nafni hans Marteinn er það alls ekki..!

7:08 e.h. Ekki vera feiminn

29 ágúst 2005  
Slikk og Stefbjartur!
Fjölskyldan fór til Ísafjarðar um helgina. Brullaup og ammæli. Erfið helgi og allir þreyttir.



Þessi kall átti laugardaginn. Háli Slikk kvænti sig almennilega, Dóru Hlín Gísladóttur. Veislan var að aungvu leyti eftirbátur hinna tveggja í sumar, þvert á móti!



Þessi kall átti svo sunnudaginn; Stefán Bjartur Kristjánsson varð þriggja ára í gær. Stefán fékk píanó og gítar með sveif ásamt allskonar bílum, stórvirkum vinnuvélum, teiknimyndum og pollagalla.
Ég verð að fá að segja ykkur betur frá þessu öllu saman síðar. Minnið mig á að segja ykkur frá ræðu Smára Karlssonar, besta gaurs, þ.e. ef enginn verður fyrri til!

9:28 e.h. Ekki vera feiminn

18 ágúst 2005  
Þar sem fídbakk og ruslutunnuendar eru list...!
Komið þið sæl,
jæja ég fór á Sónik Júþ í gærkveld. Ansi hreint magnaðir tónleikar. Rosalega gaman að sjá þetta band. Ég reyndi hvað ég gat að halda kúlinu þegar þau komu á svið (..enda virðast tónleikar í dag snúast um að sýna sig og sjá aðra og vera í réttu fötunum með réttu greiðsluna) en ég hló upphátt af geðshræringu. Þau voru óþarflega kúl og í banastuði, og þá sérstaklega Thurston Moore sem lék á als oddi. Gítargeðveikin var allsráðandi og margt hægt að læra af þeim, þvílíkt frábært sánd þrátt fyrir fídbakk og drullu.
Annars er merkilegt hvernig fólk er orðið ofdekrað í dag. Manni finnst það vera hversdagslegur hlutur að fara á tónleika með stóru böndum. Í gær fórum við Gummi saman og ákváðum að fara frekar á bar fyrst og fá okkur einn áður en við færum inn. Sonic í næsta húsi og við að chilla yfir einum köldum á Kaffibrennslunni (n.b. þar má biðja um sérstakan Ísfirðingabjór sem mælt er með hér). Það þykir ekkert tiltökumál að sjá Sonic youth í dag og jafnvel Rolling stones á morgun.

Menningarnótt framundan og ég hef undirbúið dagskrá af miklum metnaði. Til háborinnar fyrirmyndar. Ég er samt virkilega óánægður með þróun Menninganætur, mér finnst hún ömó. Áður fyrr opnuðu verslunarmenn í miðbænum uppá gátt hjá sér og buðu uppá eitthvað menningartengt með. Allar búðir voru opnar frameftir og gátu kynnt sína starfsemi með skemmtilegu móti. Núna hinsvegar er öll dagskrá búin um 23.00 og þá tekur við geðveikt fyllerí. Tryllinglega stórir Rásar 2 tónleikar drekkja öllum miðbænum með hávaða og látum. Svo er náttúrulega Landsbankinn kominn í þetta og rauði krossinn og hvaðeina...! Ég hef ákveðið að kenna R-listanum um þetta, að sjálfsögðu. Enda er það lenska í dag.
Fólk er að missa af strætó...helv. R-listinn! Mávafargan uppá landi...helv. R-listinn! Rigning...helv. R-listinn! Ekkert bílastæði...helv. R-listinn!

Annars ætla ég að biðja ykkur að labba framhjá Máli og menningu á morgun milli 17.00 og 18.00 en þar verður grillveisla, tilboð á töskum og hljómsveitin eiturhressa Norton mun spila!! Ég er ekki að segja ykkur það, ég er að biðja ykkur..!!!

9:50 e.h. Ekki vera feiminn

09 ágúst 2005  
Einu sinni á ágústkveldi..!


Halló, halló!
Mikið fjári líkar mig vel við ágúst (les. mánuðinn)! Birtan, myrkrið, lyktin, ilmurinn, litirnir. Líf án lita, hvernig yrði það. "Líf án lita, engar kindur". Þetta er ódauðleg textalína eftir Ernu Jónmundsdóttur bolvíking, ekki óhugsandi að Vagns-systkin hafi verið viðriðin þessa snilld líkt og aðrar. Það er samt hundfúlt að allt sumarið, eða öllu heldur helstu atburðum sumars skuli vera pakkað í einn mánuð; ágústmánuð. Verlsunarmannahelgin, krútthátíðir, mýrarboltamót, hinseginhátíðir og menningarnótt.

Sumarið
er líkt
og ljóð
þar sem öllu er troðið í síðustu línuna.

Sko, þetta get ég. Ég er ekki bara ómerkilegur bókabúðakall.

Síðasta föstudag var ég á gangi á Laugaveginum og gekk þá framhjá stórri auglýsingu í glugga Kirkjuhússins. Þar var verið að auglýsa armband sem heitir "Bænabandið", fallegt rautt band til að hafa um úlnliðinn. Þetta er víst útlensk framleiðsla og stóð þess vegna stórum stöfum; PRAY GUIDE, en það er útlenska heitið. Þetta fannst mér yfirnáttúrulega fyndið svona akkúrat daginn fyrir GAY PRIDE.

Fór á krútthátíðina með strákunum í Reykjavík! og skemmti mér dável. Sá Múm í hörkusveiflu, Borko í banastuði, Auxpan í amazing-grace fjöri en missti því miður af Skátum sem eru í miklu uppáhaldi. Dyravörðurinn stoppaði mig þegar ég var á leiðinni inn og sagði; "...mig langaði bara að segja að þú ert mun betri söngvari í dag en þú varst hér áður, margir segja að þú sért lélegur en mér finnst þú góður"!
Ég þakkaði bara pent fyrir.
Síðar um kvöldið kom hann til mín og spurði; "..hva segiru Biggi, ertu enn að vinna í Skífunni, eða ertu bara í músikinni?"
Ég er í músikinni.
Eftir að við í Reykjavík! höfðum lokið okkur af, elti hann mig inná klósett; "..hérna Biggi, þú ert bara helv.. góður á trommur! Trommaðir þú eitthvað sjálfur með Maus?"
Maðurinn hélt að ég væri Biggímaus, ég var of seinn að leiðrétta hann og fór því bara sem fyrst af svæðinu.

Myndin að ofan er af Jóni Þór, Stefbjarti og Bryndísi í dýrðarpottinum hjá Jóa og Öldu. Bryndís er þarna með tilbrigði við svipinn sem fegurðardrottningin Unnur Birna notar óspart. Jón Þór er ekki með síðri svip, en fyrirmyndin er óljós. Stefán situr einbeittur á Polar-barnum í miðjunni.

10:08 e.h. Ekki vera feiminn

02 ágúst 2005  
Hér koma nokkrir punk-tar!
Komið þið sæl,
ég er nú bara að láta vita af mér svona! Ég hef því miður látið dagbókarskrifin mæta afgangi síðustu misseri, sem er verulega slæmt því ef einhver spyr þá man ég ekki svo vel hvað ég gerði, hvað var gaman og hvað ekki. Svo ekki sé nú minnst á ykkur greyin mín, sem ekkert vita um mínar ferðir né gjörðir og tryllast af áhyggjum.
Hér koma því einungis nokkrir minnispunktar:
  • ég fór á fjölskyldumót rétt fyrir mánaðarmót júní-júlí, í Heydal Mjóafirði. Skemmtum okkur dável þrátt fyrir dumbung og smá djöflarok sem þeytti tjöldum og matarbirgðum systra minna um víðan völl. Vígðum hinsvegar hið nýja tjald okkar "the palace" sem stóð af sér allar orrustur.
  • stundaði fjallgöngu, golf og almenna útiveru um Vestfirði.
  • fór í brúðkaup Siggu og Smára, tók virkan þátt, trommaði með hinni unaðslegu sveit Unaðsdal, smurði snittur og stofnaði um leið veisluþjónustuna "Snitturnar þrjár".
  • eftir að hafa glímt við þjóðveginn, á leið til Reykjavíkur, fór ég á tónleika með Antony and johnsons. Skrýtnir en hin þægilegasta skemmtan þegar allt kom til alls. Fannst best þegar hann kóveraði Leonard Cohen.
  • undirbjó miðnæturopnun í bókabúðinni vegna útkomu sjöttu bókarinnar um Harry Potter, grillaði pylsur undir DJ-i Gísla Galdurs.
  • fór í stórkostlega útilegu með klíkunni í Þjórsárdal, fór í sund á tunglinu, skoðaði fossinn Hjálp!
  • einn dag fékk ég tvær barneignafréttir og þrjár skilnaðarfréttir frá vinum og kunningjum, ég var örmagna um kvöldið.
  • spilaði með hljómsveitinni Reykjavík! á ljóðahátíð Nýhil.
  • spilaði með hljómsveit Dr.Gunna á Innipúkanum, eftir nokkra mánaða hlé, nýtt stöff og gamalt. Við stefnum jafnvel á plötu í haust.
  • spilaði með Reykjavík! á Innipúkanum, gekk vel og fengum verulega góðar viðtökur. Sá Rass sem er frábær en var í slæmu sándi, Þóri sem var ágætur, Cat power sem var bara leiðinlegt, Mugison átti frábært kvöld, með Rúnu á trommum í einu lagi, Jonathan Richman var hlægilegur og hefði kannski frekar átt að vera á ljóðakvöldi Nýhil, Apparat var eiginlega bara leiðinlegt, Brim voru síðastir og voru mjög skemmtilegir. Bibbi klikkaði oft á gítarsólóunum og lagaði gleraugun inn á milli. Það var sjarmi yfir því.
  • fór í útilegu með Jóni og Gumma í Þverárhlíð. Dæmalaust hvað er gaman að koma þangað, ég fæ aldrei nóg. Ekki skemmir gestrisnin þar á bæ. Fórum í sund í Borgarnesi á heimleiðinni.

Ljúfir dagar, nú er verslunarmannahelgin búin og sumarið búið. Nei, aldeilis ekki, meira rokk og ferðalög taka við; Krútt, Mýrarknattspyrna, Sonic youth, Menningarnótt og brullaup.


10:05 e.h. Ekki vera feiminn

03 júlí 2005  
Sól, sól skín á mig..!

Komið þið sæl,
ég er staddur í eldhúsinu hjá tengdó í Kjarrholti 7 á Ísafirði, Bryndís situr á móti mér skoðandi Bæjarins besta og Stefán Bjartur er sofandi. Hér höfum við dvalið síðan á síðustu helgi að frátaldri frú Bryndísi sem þurfti frá að hverfa í vikunni til saumaskaps í Reykjavík. Það var brúðarkjóll. Nú er vertíðin víst. Hér er maður í endurhæfingu eftir stanslausa gleði. Eftir stórkostlegan brúðkaupsdag tók við mitt eigið stórafmæli með kökum og humri, og eftir það ættarmót í Heydal í Mjóafirði. Niðursveiflan er búin að vera rosaleg, ég er nánast búinn að vera í fýlu síðan.

Í heimsóknum mínum hér í bæ hef ég komist í þessi slúðurblöð sem maður sér aldrei, t.a.m. Hér og nú sem hefur verið fyrirferðamikið í öðrum miðlum uppá síðkastið. Ég sá þar að þeir eru að borga fyrir fréttaskot og ljósmyndir af frægu fólki. Ég sá þann leik á borði að senda þeim mynd af mér og frúnni í brúðarklæðum, svona til að vega upp á móti skilnaðarmyndunum og að sjálfsögðu til að græða smá pening, það er vissulega mjög dýrt að halda góða veislu. En nei, ég hef ekki séð neina einustu mynd birta. Ennþá er verið að birta myndir af Loga og Svanhildi!!! Þegar við Bryndís giftum okkur voru þau orðin "yesterday´s news", samt eru þau enn slúðurmatur. Svo eru Simmi þarna...spjótkastsdroppát, bróðir Einars Vilhjálmssonar í blöðunum!! Jájá, systkini fræga fólksins. Djísus, vita þeir ekki hver ég er?!

Á myndinni fyrir ofan er Stefán Bjartur á róló í Hnífsdal. Í baksýn má sjá Heiðarbraut 7 (hvíta-bláa húsið) húsið sem pabbi byggði, þar sem ég bjó í fimmtán ár, uppá dag. Ég labbaði um götur Hnífsdals, minningarnar hrundu yfir mig, ég leitaði af Big Country kroti á ljósastaurum, rak mig uppundir á leið á rólóvöllinn, sá skugga minn, Braga og Smára Ólafs inní stofu í skólanum, og boltaförin á húsinu hennar Helgu Páls. Stóri veggurinn á róló náði mér rétt uppað bringu, ég vó salt eða vippaði með Stefáni, hjálpaði honum svo í róluna og byrjaði að ýta. Þá kom þetta yfir mig eins og grátt ský. Aldurinn kom yfir mig. Ég var staddur með son minn í rólunni sem ég rólaði sjálfur í, fyrir ekki löngu síðan að mér fannst, hélt utan um keðjurnar og ég leit á hringinn á fingrinum, ýtti Stefáni af stað og fékk um leið ægilegan bakverk...uhhuuhhuuu!

4:40 e.h. Ekki vera feiminn

22 júní 2005  
Morgundagurinn kemur á morgun, ef ekki þá...?!

Brúðhjón fyrir utan Háteigskirkju 17.júní í sól og hamingju!
Þessi fallegi dagur...! Líkt og skáldið sagði. Framan af degi var þetta lag syndandi um heilann. Svo hvarf það og margt annað jafnan fallegra tók við. Í þessu veðri var allt svo fallegt. Maður sveif um á skýi, úrvinda eftir amstur síðustu daga, ekki búinn að borða mikið, klukkan var orðin 15.00 og ég var að borða popcorn chicken sem Jón og Gummi gáfu mér. Opnaði bjór og setti Söng riddarans á fóninn. Ég vildi hafa það rómantískt.. eitthvað í takt við tíðarandann.

Ég vaknaði og steig ofan af skýinu þegar fiðlan öskraði á mig. Hún var að spila eitthvað eftir Wagner eða var það Mendelsohn?! Mér leið allavega vel. Eftir nokkur "já", angurværar perlur í guðdómlegum flutningi Rúnu og Ödda og góð heillaráð frá Erni Bárði vorum við Bryndís orðin hjón. Haddi og Stebbi búin að gefa okkur frá sér. Didda og Steina hreyfðu ekki við mótmælum. Ísland er land þitt ómaði frá fiðlunni og við örkuðum útí sólina ásamt ættingjum og vinum.

Veislan tók við með harðfiski frá Hadda og freyðivíni sem gaf tóninn um það sem koma skyldi. Ræður og hestaskálar, söngur og gítarsóló, hvítur og rauður Haddi, valsar og væmni, hlátur og grátur. Allir áttu stórleik. Foreldrar okkar beggja og systkini í stærstu rullunum. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að segja ykkur frá hljómsveitinni Hlekkjunum. Fáir áttu orð yfir þeim, og síst ég. Fádæma snilli. Veislan var svo skemmtileg að við Bryndís vildum ekki missa af neinu þrátt fyrir að eiga pantað fansí herbergi á Nordica hótelinu. Síðustu gestir fóru milli 05.00 og 06.00. Takk fyrir okkur, góðar gjafir, hlýjar kveðjur, símskeyti og hjálpina. Þessi fallegi dagur.

Í fyrramálið kl.06.55 verða liðin þrjátíu ár frá því að 56 cm og 4270 gr drengur fæddist á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði.

10:29 e.h. Ekki vera feiminn

14 júní 2005  
Herra og frú Rokk!


Nú er allt að gerast. Við Bryndís ætlum að ganga í heilagt hjónaband á föstudaginn. Nú þegar undirbúningurinn stendur sem hæst, sit ég með tölvuna í kjöltunni að blogga. Haldiði að ég sé bara ekki að verða ruglaður?! Þetta blogg á nú samt örugglega eftir að breytast eitthvað eftir föstudaginn. Fyrir það fyrsta þarf ég ef til vill að breyta slóðinni í herrarokk. Er Rúni Júl kannski með þá slóð? Svo verð ég örugglega geðveikt væminn, svona kannski eins og Ágúst Borgþór, geri upp gamlar syndir, tala um heilsu og mataræði og slíkt.

Annars fæ ég hvern kjánahrollinn á fætur öðrum þessa dagana. Þorsteinn Joð hitti mig í bókabúðinni og sagðist vera dyggur lesandi bloggsins, sama sagði Gerður Kristný og nú í dag var ég í góðum hópi bloggara sem kynntir voru í DV. Þar var m.a. vélstjórinn Anna Kristjáns.
En ég komst að þeirri niðurstöðu um síðustu áramót að það er gott að halda dagbók, þá getur maður lesið um gjörðir sínar eftir á. Ég er nefnilega ekki það minnugur á slíkt. Ég get munað öll helv.. bílnúmer og símanúmer en ekkert sem máli skiptir. Ekki mín eigin pin-númer. Á næsta ári þegar ég sörfa um síðuna þá get ég til dæmis lesið um það að ég hafi kvænst 17.júní. Fátt er svo með öllu illt að ekki boði eitthvað gott...!

Myndin er ekki tekin af okkur á brúðkaupsdaginn heldur í Hnífsdalskapellu við skírn Stefáns Bjarts árið 2002.

9:38 e.h. Ekki vera feiminn

11 júní 2005  
Helvítis rokk og helvítis ról!

Nú í dag er laugardagur og vika liðin frá síðasta laugardegi. En sá dagur verður mér lengi í minni hafður og ég er rétt búinn að jafna mig. Ég er farinn að geta skrifað aftur. Vinir mínir komu og náðu í mig á eðal-hljómsveitarrútu með öllu tilheyrandi innanborðs; ískaldur bjór, harðfiskur, klámmynd í sjónvarpinu og þungarokk í hátölurunum. Við keyrðum um bæinn og heimsóttum bæði hátíð hafsins og menningarhátíð Grandrokk.

(Valdi keppir í "gagnárás trommarans", Palli, Stebbi, Geiri, Hilmar, Gummi, Tóti, Haukur, Gunni, ég, Freyr og Gunni fylgjumst með!)

(Sleggjan sýnir valinkunna takta í bassafimi.)
Síðan tóku íþróttirnar við. Fyrst var það ballskák í Lágmúla og þaðan lá leiðin uppí Heiðmörk. Þar lögðum við rútunni og hlupum út í sólina. Það var enginn tími fyrir sólbað því svæðið var undirlagt brautum fyrir hinar ýmsu keppnisgreinar í ROCK ´N ROLLYMPICS. Þar hentum við trommukjuðum í mark, spiluðum á bassa með álímdum upptakara og opnuðum með honum bjórflösku, köstuðum gítarnögl í krádið, spiluðum Gamla Nóa á ámáluðum píanónótum í grasinu með því að hoppa á annarri löppinni og síðan var endað með ultimate söngvarastönti; að hoppa í gegnum eldhring!

(Freysi, Hilmar, Stebbi og Kriss borða eftir harða keppni.)
Eftir Rokk og rólympíuleikana var gasgrillið tekið útúr rútunni og borðaður dýrindismatur. Síðan var brunað beint á Lambastaði og sungið og spilað. Eftir ellefu tíma taumlausa gleði var stefnan tekin á Trabant og kvöldið endað á viðeigandi hátt. Djöfull var ógeðslega gaman og djöfull á maður góða vini!

10:15 f.h. Ekki vera feiminn

31 maí 2005  
Bóas, ísjaki og karaoke!

Bóas hinn óviðjafnanlegi söngvari hljómsveitarinnar Reykjavík! varð faðir hresss 16 marka drengs nú á sunnudaginn. Inga María konan hans var að eignast sitt annað barn, og Kara Lind lítinn bróður. Annars er það að frétta af bandinu og við hyggjum á endurkomu, eftir lægð. Sá gjörningur fer fram í Sirkus-garðinum annan fimmtudag og Skátar eru með...!



Er ekki bara góð stemning? Jú jú, sumarið og svoleiðis. Ég fór í vinnuferð til Eyjafjarðar um síðustu helgi. Vorum á Akureyri á föstudeginum og fórum síðan á laugardeginum til Ytri-Víkur, sem er rétt fyrir utan Dalvík. Meðal annars fórum við á sjóstöng og sigldum meðfram stórum borgarísjaka. Frábær ferð!



Núna á föstudaginn munu Eymundsson í Austurstræti og Mál og menning við Laugaveg eigast við í karaoke á Ölveri. Settar voru upp strangar æfingarbúðir hjá okkur og höfum við staffið staðið sveitt uppá sviði síðustu vikur. Ég leyfi ykkur að fylgjast með hvernig þetta fer allt saman. Hér á myndinni erum við nýkomin af einni æfingunni á Gljúfrasteini til að fá réttan anda yfir okkur, en eins og alþjóð veit voru ófá karókípartí í stofunni á Gljúfrasteini á sínum tíma.

10:01 e.h. Ekki vera feiminn

25 maí 2005  
Sumarrass!


Síðustu misseri hef ég farið í Laugar á morgnana mér til heilsuræktunar. Mér líkar það virkilega vel og er allur mun hressari út daginn fyrir vikið. Það er nú ávallt stjörnufans á þeim tíma sem ég stoppa við; ég mæti Dr.Gunna iðulega á leiðinni út, hann er mjög duglegur og vaknar greinilega mun fyrr en ég. Einar Bárðar, Einar K.Guðfinnsson, Jónsi í Sigurrós...nei, djók, í svörtum fötum, Gísli Marteinn og Andri Snær Magnason. Það er eitthvað skrítið að hitta svona fólk undir þessum kringumstæðum, það er engan veginn hægt að vera kúl. Gísli Marteinn var svo langt frá því að vera kúl, gleraugnalaus í stuttbuxum. Það er svosem viðeigandi að sjá hann í stuttbuxum (SUS) en hann minnti mig mjög á Gúmmí-Tarzan. Þó mér líki þetta ágætlega þá er langt í það að þetta verði einhver lífstíll hjá mér. Það finnst mér ógnvekjandi.
Á leiðinni úr ræktinni og í vinnuna stoppa ég ansi oft á ljósunum á horni Borgartúns og Sæbrautar. Það er ansi sérstakt móment. Þá sé ég streyma af Sæbrautinni og inní hið nýja Wall-street umhverfi fjölmarga jakkaklædda menn á nýjum bílum. Þetta eru menn sem eru að gera það gott í lífinu, komnir í feitar stöður í bönkunum, eru á glænýjum jeppum og með pelsklæddar konur sínar sér við hlið. Uppskafningar. Úr öllum bílunum sem streyma framhjá mér fæ ég ekki stakt bros, það eru eintómar skeifur. Þarna eru peningarnir að tala. Mér hefur alltaf verið illa við peninga, ég reyni að losa mig við þá strax þegar ég eignast þá. Ég hef til dæmis heyrt að Björgólfur eldri sofi vart fyrir áhyggjum. Hann kann vart aura sinna tal.

Það er einhver meiri sál og bjartara í miðbænum þegar þangað kom. Ég labbaði Bergstaðastrætið og var að koma framhjá Blómaverkstæði Binna þegar Erlingar Gíslason koma þaðan út aðvífandi. Hann var nýgreiddur, ilmandi af rakspíra, var með Morgunblaðið undir höndinni, brauð í poka og rósabúnt. Sólin skein og kaupmenn á Skólavörðustíg að stilla vörum sínum útá stétt. Fallegt eða hvað!?

Ég er að hlusta mikið á hljómsveitina RASS þessa dagana, hún er í miklu uppáhaldi og hefur verið frá því að Óttarr kom til mín með RASS-diskinn til að lána mér fyrir einhverju síðan. Mér finnst hún svo frábær að ég var búinn að gleyma því að hún héti rass og hvað það þýddi. Þannig hef ég gleymt mér og sagt ýmislegt asnalegt uppá síðkastið; ,,..ég dýrka RASS!" og ,,ég er með RASS á heilanum" og svo get ég ímyndað mér að það hafi hljómað hallærislega um daginn þegar ég var staddur í búð með Gumma vini mínum sem er samkynhneigður og spurði hann; ,, náðiru að sjá RASS í gær?"

Myndin er af Prófessornum að skemmta á Megasartónleikum.

10:08 e.h. Ekki vera feiminn

22 maí 2005  
Stebbi Kriss


Hér á kommentakerfinu á undan fór fram örlítil umræða um viðurnefni, já og uppnefni. Stefán okkar þverneitaði að heita því nafni um langa hríð, hann er nýbyrjaður að sættast við það. Þegar við kölluðum á hann leiðrétti hann um hæl og sagðist heita stebbi eða Gebbi eins og hann bar það fram. Stinni Hemm kom með mjög fína útlistun á möguleikum skömmu eftir skírn Stefáns; ef hann yrði þingmaður þegar hann verður stór þá yrði það Stefán B.Kristjánsson, ef hann yrði rithöfundur þá S.Bjartur Kristjánsson, tónlistarmaður Stebbi Kriss og almennur verkamaður þá yrði það Stebbi Kristjáns.
Þessi mynd af Stefáni er tekin á Valseyri í Dýrafirði, horft er út fjörðinn og má sjá Sandafellið þarna í fjarska. Myndin var tekin í lok apríl.
Kiddý átti fallega og heilbrigða stúlku þann 17.maí, sama dag fyrir ári átti Birna Málmfríður hana Álfrúnu Freyju og Erna Sigrún Snæfríði Lillý og Sunna og Steini áttu Birnu Júlíu þann 18.maí. Við ætlum einmitt að kíkja til Birnu Júlíu í kaffi í dag. Blessað barnalánið!

11:32 f.h. Ekki vera feiminn

16 maí 2005  
,,Pabbi, ég er kominn aftur"!
Nú er lífið komið á réttan kjöl aftur. Stefán Bjartur er loksins kominn úr tveggja vikna útlegð. Hann dvaldi hjá ömmum sínum og öfum og frænkum og frændum á Ísafirði meðan Bryndís hefur einbeitt sér að náminu. Þetta er mikilvæg törn hjá Bryndísi, ef henni gengur vel þá er hún sloppin framhjá síunni. Ef svo yrði raunin, sem við vonum, þá er nokkuð ljóst að fjölskyldur okkar fyrir vestan hafa sett lóð sitt á vogarskálar. Ég hinsvegar...ég er nú bara búinn að vera að vinna mikið og reyna að vera ekki fyrir. Neinei, ég er búinn að vera duglegur að stappa stálinu í Bryndísi, klappa á bakið og segja ,,stattu þig stelpa"! Þetta er nú ekki fyrsta skipti sem Stefán er í burtu frá okkur, við höfum verið dugleg að fá aðra til að passa og slíkt. Það er mjög gott að venja börnin á það, Stefán gæti verið nánast hvar sem er í pössun. Nú var hann í tvær vikur, það var alltof langur tími. En þetta er nú reyndar ekki í fyrsta skipti sem við bíðum í tvær vikur til að sjá hann!! (Baráttukveðjur til þín Kiddý!)
Það var frábært að sjá Stefán aftur og gott að sjá sælubrosið á andlitinu þegar hann sá foreldra sína í gættinni á hliði nr.1 á Reykjavíkurflugvelli. Okkur brá nú svolítið að sjá Stefán, hann hefur alltaf verið hárprúður og við haldið því við, nú hafði hann fengið þessa fínu herraklippingu á Ísafirði. Ef hún var ekki handverk Villa Valla þá er hún án efa hugverk hans. Hann fór úr Bruce Lee klippingu yfir í David Bowie.

Ég hef síðustu vikuna verið á örlitlu ferðalagi, fór á vegum Pennans austur í Mýrdal. Ég hef ferðast víða um landið og marga fjöruna sopið en aldrei ferðast um suðurlandsundirlendið. Djöfull er það magnað. Undir eyjafjöllum, við Seljalandsfoss, í Skógum, Dyrhólaey og í Reynisfjöru, ég var heillaður útí gegn. Gegnheillaður. Ég ætla að fara þarna einhverja helgina í bráð með fjölskylduna og toga vini mína með. Um helgina fórum við svo með Lambastaðabræðrum í innsveitir Borgarfjarðar, uppí Þverárhlíð. Þeir hafa tekið okkur með þangað síðustu árin og mikið rosalega hefur sú dvöl alltaf góð áhrif á mann. Maður endurnýjast á einhvern hátt við hverja heimsókn. Samt kemur maður alltaf til baka með örlítinn hausverk...!
Jæja, ég tók smá pásu og horfði á LOST. Helv.. djöfull að festast í þessu. Þessi þáttur var samt eins og Stella í orlofi, einn farþeginn er eiturlyfjafíkill og fer í gegnum þessa fínu meðferð; flugferð þar sem stélið brotnar í háloftunum, krassa á eyðieyju, eltur af villisvínum og fl...! Mér fannst nú Stella í orlofi aldrei neitt frábær mynd. Eða kannski hef ég fengið of stóran ógeðsskammt af öllum frösunum sem fólk fer með úr myndinni endrum og eins...uhhhh! (rosalega er ég farinn að nota af upphrópunarmerkjum!!!)

9:54 f.h. Ekki vera feiminn

08 maí 2005  
Ég heiti Kriss, ég er reikniblindur!
Jæja, hér er ég kominn aftur eftir smá fjölmiðlabann. Ég ákvað að setja mig í smá bann, bloggið var alltaf að klúðrast hjá mér, svo var það orðið svo djöfull leiðinlegt. Það hefur nú ekkert lagast. Svo eigið þið flest sem eruð að lesa þetta núna að vera að lesa undir próf en ekki að slæpast á einhverjum aumum bloggsíðum...já, svona tsjútsjú drattist í lærdóminn. Hin verðandi frú Rokk er sveitt heimavið að lesa um kenningar í félagsfræði, bækur Ingvars Sigurgeirssonar og kenningar Gordon um fjölgreindir. Þetta finnst mér allt áhugavert og mun meira spennandi en munnlega prófið í stærðfræði sem Briss fór í um daginn. Guð almáttugur. Ég var alltaf svo vonlaus í stærðfræði, eygði aldrei von um að ná áttum. Sama hvað ég reyndi aldrei gat ég neitt. Ég þjáðist af reikniblindu. Öllu þessu er að kenna ómerkilegri flensupest sem gekk yfir landið 1983, þá lá ég nokkra daga heima og missti af nokkrum stærðfræðatímum. Í sömu viku fór Ingibjörg Þorleifs kennarinn minn í Hnífsdal yfir j-regluna í stafsetningu, sú regla gefur einnig staðið í mér. Ég reyni að komast hjá því að nota "j", ég beygji...beyji....nei, beyi....beygi frá því! Sami stærðfræðilúserinn og ég var hann Stefán Baldursson félagi minn í Menntaskólanum. Við Stefán höfðum meiri áhuga á hvernig ætti að fallbeygja orðið stærðfræði. Fer maður ekki í stærðfræðapróf í stað þess að fara í stærðfræðipróf? Öðruvísi með mig þá lagði hann stund á að læra stærðfræði eftir menntaskóla, hann sá að það var það eina sem hann átti ekki auðvelt með og réðst því í það af fullri hörku. Hann hafði agann sem þurfti.

Á meðan Briss er dugleg að læra reyni ég að vera ekki mikið fyrir eða gera eitthvað gagn. Það er svosem lítið sem ég geri annað en að vinna. Stefbjartur er fyrir vestan hjá fjölskyldum okkar þar. Búinn að vera viku og verður eitthvað áfram. Þetta er erfitt, mikill söknuður. Við feðgarnir fórum fljúgandi föstudaginn fyrir viku, snerum við yfir Ísafjarðardjúpi vegna ókyrrðar aftur til Reykjavíkur og komust svo á leiðarenda í seinni tilraun. Klassískt, því ég er svo mikill aðdáandi flugs. Ég náði nú að gera ansi margt á Ísafirði þrátt fyrir að stoppa varla meira en einn dag. Gerði enga byltingu en fór í skemmtilega fjöruferð með Stefáni í Dýrafirði, borðaði kjötsúpu hjá mömmu, fór í fimmtugsafmæli hjá Reyni frænda og á ball í Krúsinni. Gaman var líka að hitta Birki bróður sem ákvað að skella sér eina helgi frá Danmörku til að hitta vini og ættingja. Við ókum svo saman til Reykjavíkur á sunnudeginum ásamt Einari vini hans.

Líðandi helgi var elegant. Við Steini sleggja gerðum upp pallinn hér í Barmahlíðinni, þrifum hann uppúr sýru og basa, pússuðum með sandpappír og slettum tekk-pallaolíu á hann. Það verður mikið um palla-tíma í sumar. Grill og gourmet. Árangurinn á pallaupplyftingunni verður svo hægt að sjá á heimilissíðum DV næsta föstudag. Steini sleggja reddar málunum. Fyrir helgina hringdi Freysi í mig og bað mig um að tromma nokkur lög í stúdíói fyrir kántrí-prójektið hans sem kallast Sviðin Jörð. Það var mjög skemmtilegt og ég hlakka til að heyra þessa plötu. Þetta eru svona bömmerkántrílummur með niðurdrepandi textum. Lög til að skjóta sig við. Sviðin Jörð, tékkið á því. Mjög hressandi...nei! Við Bryndís vorum svo að koma úr matarboði frá þeim Kiddý og Tóta, dýrindis kvöldstund. Þau hafa staðið í framkvæmdum sem heppnast hafa stórkostlega og eru tilbúin fyrir væntanlega barneign. Glænýtt eldhús, uppþvottavél, barnaherbergi, hreiðrið tilbúið. Ég ætla að leyfa mér að veðja á að þau eignist fallegan og hraustan dreng (þau segjast vita að það sé stelpa, typpið sást ekki í sónar), næsta miðvikudag rétt fyrir hádegi!!

10:42 e.h. Ekki vera feiminn

26 apríl 2005  
qqoldblogg
Ég er rétt búinn að jafna mig eftir bloggslysið á heimilinu á dögunum. Eftir að hafa legið mikið á hjarta og náð að koma því vel heppnuðu á skjáinn hvarf allt líkt og dögg fyrir sólu. Mér leið illa og fann óbragð í munni þegar ég loggaði mig hér inn í kvöld. Ég hef svosem séð svipaðar færslur á öðrum bloggsíðum. Engum finnst gaman að lesa um glataðar bloggfærslur, engum finnst gaman að lesa mínar skrifuðu bloggfærslur yfirleitt, þetta er bara froðusnakk, ömulegt uhuhuhu..! Djók.
Ég ætla bara gera það sem ég geri best og fara að vaska upp!
Annars líður mér og mínum ágætlega. Ég fer til Ísafjarðar um helgina, hitta bróður minn meðal annars. Það er nú ekki á hverjum degi sem ég á bróður...! Brúðkaup í vændum. Brúðkaup hjá vændum? Fólk gengur kaupum og sölum. Brúðkaupum í sölum...samkomusölum hahahaha...! Allir að gifta sig í sumar, frábært. Kannski ekki allir.... KOMA SVO! GIFTAST BÚMM BÚMM BÚMM GIFTAST BÚMM BÚMM BÚMM...!

9:21 e.h. Ekki vera feiminn

16 apríl 2005  
Nýjar raunir á hverjum degi!
Við Briss skelltum okkur með Jóni, Gumma og Hilmari á tónleika með hljómsveitinni Trabant á Nasa í gærkvöld. Staðurinn troðfullur af hressu fólki sem beið með öndina í hálsinum og kvíðahnút í maganum eftir sullandi klámpoppi, nekt og konfettíi. Enginn var svikinn, allir fengu sitt. Trabant í feiknastuði sem hefði mátt mæla í tugum Travolta (sbr. travolt = stuðeining). Meðal aðstoðarkokka Trabantmanna í gær var gusgus-arinn Stebbi Steph. aka. president bongo. Sá maður var á labbi á Laugaveginum síðasta haust með hund í bandi er hann mætti Gunnari Jónssyni stórleikara ásamt mér sjálfum. Gunnar Jónsson heilsar Stebba og segir; ,, Hey Stebbi, like your dog"! svarar þá Stebbi á móti um hæl; ,, ..like yours too"!!

Þegar klukkan fór að nálgast 03.00 í nótt höfðum við Bryndís fengið nægju okkar og tókum leigubíl heim. Leigubílstjórinn var hinn allra hressasti og ég bað hann að hækka þegar ég heyrði lagið Nasty boy með Trabant hljóma í útvarpinu. Ekki fékk það að hljóma lengi því bílstjórinn hafði greinilega ekki fengið aðra kúnna en okkur þetta kvöld eða hann var með munnræpu á háu stigi. Hann samkjaftaði ekki alla leiðina í Barmahlíð. Hann sagði okkur að hann hafi farið í Skífuna á dögunum og spurt um Mugison, hann hafði nefnilega heyrt þarna lagið hressa ,, ...murrimurr" og vildi endilega tékka á þessu. Hann spurði afgreiðslumanninn hvort tónlistin væri eitthvað í líkingu við hið téða lag, ,, svona hressandi blús" og afgreiðslumaðurinn hélt það nú. Leigubílstjórinn fór ánægður út úr búðinni með alla þrjá diska Mugison. Yfir þessu kvartaði hann sáran í okkur, ,,ekkert varið í þetta graðhestapopp" og ég hló mig máttlausan í aftursætinu.

Annað hlægilegt gerðist ekki í vikunni, þvert á móti!
Bíllinn okkar bilaði á undarlegan hátt, fór tvisvar á verkstæði, rafallinn virtist vera ónýtur, ekki er samt langt síðan við keyptum nýjan rafgeymi, ekki heldur langt síðan nýtt háspennukefli var sett í bílinn. Þetta finnst mér gjörsamlega óþolandi, viðgerðin kostaði 70. 000 kr,- sem merkir bara það að veislan sem við Bryndís ætlum að halda í sumar verður aðeins lélegri fyrir vikið. Í staðinn fyrir að bjóða Coke með matnum verður boðið uppá Pepsi. Við ætluðum að fá Hildi Völu til að syngja en verðum að sætta okkur við að bóka Kalla Bjarna...og svo fr.

Annað sem mér finnst gjörsamlega óþolandi er að ef maður missir af bíósýningu kl. 20.00 þá er enginn salur í neinu bíói sem býður uppá sýningu kl. 21.00. Öll bíóhúsin sýna nánast sömu myndirnar á fokkings sömu sýningartímum, sveiattan!

2:13 e.h. Ekki vera feiminn

10 apríl 2005  
Fyrirmyndarskemmtun!
Þetta var heilmikil skemmtan í Austurbæ á fimmtudagskvöldið. Afmælisveisla þar sem allir mættu nema afmælisbarnið. Á meðan herlegheitin fóru fram sat hann á Kaffi Jónasi í Köben sauðdrukkinn Jónsson Magnús Þór. Auðvitað hefði verið glatað hefði hann mætt. Bæði fyrir hann og alla aðra. Hann hafði vit á því að drífa sig til útlanda áður en allir hefðu lofræðurnar. Við í Máli og menningu tókum þátt í þessu hampi. Megas er mikill viðskiptavinur okkar og góður. Okkur starfsfólkinu tókst að taka ofan fyrir honum á vammlausan hátt. Við fengum nokkra aðila til að spjalla örlítið um kveðskap Megasar og tónlistina, við hripuðum niður á blað hugmyndir um þetta kvöld um páskana og þegar nær dró var þetta farið að vinda uppá sig. Allir fjölmiðlar sóttu hart að fyrirlesurunum okkar svo litlu munaði að þeir hefðu ekki tíma til að koma til okkar um kvöldið. Páll Valsson bar saman hið ýmsa í lífi og list Megasar og Jónasar Hallgrímssonar, margar skemmtilegar hliðstæður þar. Þórunn Hrefna var með mjög skemmtilegt erindi um ástarljóð meistarans og Freyr Eyjólfsson talaði um tónlistina. Þetta var gjörsamlega frábært kvöld og engu líkara en um menningarnótt hafi verið að ræða, svo troðið var á Súfistanum.

Tónleikarnir voru frábærir að sama skapi. Magga Stína tók Fílahirðinn frá Súrín að stakri snilli, generalprufan fór fram á Súfistanum kvöldið áður og flutningurinn mun áhrifameiri þar. Súkkat voru skemmtilegir með Litla sæta stráka, Ragnheiður Gröndal með Tvær stjörnur; góð söngkona en eitthvað svo óspennandi, Geirfuglarnir tóku einn af uppáhaldmegösum mínum; Síra Sæma og gerðu það einkar vel, Valgeir Guðjónsson tók Orfeus skemmtilega en ekki eins og Dr.Gunni gerði einu sinni, hljómsveitin Dr.Gunni tók Heimspekilegar vangaveltur og tókst vel upp, Fúnkstrasse tóku Paradísarfuglinn á lostafullan hátt. Hvernig á maður að ávarpa Hr.Óttarr Proppé í vinnunni eftir svona uppákomu? Trabant tóku svo lag sem ég hef aldrei heyrt áður, Björt ljós, borgarljós og það var glæsilegt hjá þeim, enda eru þeir besta hljómsveit á Íslandi í dag!

Jæja, nóg um Megas í bili. Þangað til hann verður sjötugur. Annars var fyndið að horfa á Gísla Martein í gær, ótrúlega taktlausir þessir temaþættir sem hann hefur bryddað uppá uppá síðkastið. Sáuð þið tilraunina með að gera settið Megasar-vænna? Svo var vandræðalegt hvað viðmælendur Gísla voru vandræðalegir. Ég hinsvegar tók eftir tveimur stafsetningar-, innsláttarvillum í skjátexta í þættinum. Það er naumast verið að skera niður á RÚV. Annars vegar var talað um ,, ..ævisögu Jónasar Hallgrímassonar" og hins vegar ,, ..Sigrúnu Hjálmtýrsdóttur"! Ég er alveg brjálaður út af þessu og krefst þess að útvarpsstjóri segi af sér vegna þessa.

Í þessum smekklausu auglýsingum frá Umferðarstofu, þær sem kenna krökkum skemmtilega frasa og að gefa fokkmerki, tók hún Bryndís mín eftir því að einn krakkinn situr í aftursæti bílsins í engum barnastól. Ekki einu sinni á púða. Krakki á þessum aldri á að vera í stól. Er Umferðarstofa góð fyrirmynd? Hún var virkilega góð baksíðugreinin hjá Guðmundi Steingrímssyni í Fréttablaðinu í gær (..sem endranær). Það er mikið um aðra og ískyggilegri hluti í samfélaginu þar sem við fullorðna fólkið sýnum af okkur slæma fyrirmynd. Að vera með öndina í hálsinum í umferðinni er eðlilegt mál og sjálfsagt. Þegar ég var sautján ára og á leið í umferðina þá sagði pabbi mér eina gullna reglu; það eru allir fávitar í umferðinni nema þú! Þetta er alveg satt. Ég hef meira að segja mætt pabba í umferðinni og blótað honum í sand og ösku.

9:56 f.h. Ekki vera feiminn

03 apríl 2005  
Mál og megas!
Voðalega er lítið í gangi þessa dagana. Enginn í bloggstuði. Helgin sem er að líða var fyrsta helgin síðan í endaðan janúar sem ekki var plönuð til hins ítrasta. Þetta var komið fínt. Nú taka við Megasar-dagar í komandi viku. Við í Máli og menningu verðum með ansi skemmtilega dagskrá á miðvikudagskvöldið;
Megas LX
Súfistinn+Mál og menning Laugavegi 18 06. apríl kl.20.00
Jónas okkar tíma Páll Valsson útgáfustjóri spjallar um kvæðaskáldið Megas
Megas og rómantíkin Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir leiðbeinandi í skáldskap Megasar í endurmenntun HÍ fjallar um rómantíkina í ljóðum hans.
Megas og rokkið Freyr Eyjólfsson dagkrárgerðar- og tónlistarmaður heldur erindi um tónlist Megasar, áhrifavalda og aðferðir.
Hrólfur Sæmundsson barítón flytur lög meistarans á sinn hátt við eigin undirleik.
Magga Stína söngkona með aðstoð Harðar Bragasonar orgelleikara mun syngja Megas eftir sínu eyra.

Á fimmtudagskvöldið verða svo stórtónleikar í Austurbæjarbíói þar sem helstu popparar landsins heiðra kallinn með hressandi kóveri. Við erum að tala m.a. um Traaaabaaaant (kynning Dóra Hermanns frá því á Aldrei fór ég suður ómar í hausnum á mér), Fúnkstrasse, Hjálmar, Möggu Stínu, KK, Súkkat og okkur í hljómsveit Dr.Gunna. Við höfum verið að æfa einn smell. Við tökum ekki Orfeus og evridís þó svo að sú útsetning hafi verið snilldarleg hjá kallinum. Synd. Þetta verður voða gaman. Ef ég væri þú kæri lesandi, þá myndi ég hlaupa niður í Mál og menningu við Laugaveg og tryggja mér miða...þeir eru að klárast!

10:08 e.h. Ekki vera feiminn

29 mars 2005  
Reykjavík! í Mósaík! í kvöld!
Komum heim frá Ísafirði í gær. Við áttum yndislega dvöl þar eins og venjulega. Tónleikarnir "Aldrei fór ég suður" voru til háborinnar fyrirmyndar í alla staði. Varðandi einhverskonar umsögn um þá tónleika held ég að ég spari yfirlýsingar þess efnis um sinn. Ég sé að ég hef ekki enn lokið frásögn minni af dýrðardögum hljómsveitarinnar í London í síðasta mánuði.
Reykjavík! gerði glamorous myndband með þeim heiðursmönnum Arnari og Jónatan í Mósaík, afraksturinn verður sýndur í kvöld. Ekki missa af því.

10:21 f.h. Ekki vera feiminn

20 mars 2005  
Og svo...
- við í hljómsveitinni Reykjavík spiluðum á Gauknum síðasta fimmtudagskvöld. Það voru einhverjir friðelskandi ungir drengir sem höfðu mikinn áhuga á því að við spiluðum þarna. Enginn okkar vissi í raun hvernig dagskráin liti út og þótti okkur það ansi grunsamlegt þegar einn okkar hélt því fram fyrr þennan dag að Elvar Logi (á Langa Manga) væri með puttana í þessu. Með okkur spiluðu sveitirnar Ask the slave, Days of our lives og Future future. Það er nú skemmst frá því að segja að allir vorum við svo illa stemmdir og annars hugar að tónleikarnir fóru hreinlega framhjá okkur. Sem er ekki gott en við lásum það á netinu að við höfðum verið skemmtilegir.
- Okkur Bryndísi var boðið í afmæli til Sigga Vídó á föstudagskvöld. Við vorum í góðu stuði á leiðinni og ekki tók við minna stuð þegar við komum á staðinn. Þar flæddu um veitingarnar og stuð um alla veggi. Ég tók með mér trommusett og fékk að troða upp með hinum víðfrægu Banjobræðrum, Sæþóri og Sigga Vídó. Við Siggi og Sæþór stofnuðum band fyrir þremur árum síðan og æfðum í sama húsnæði og Brain Police. Við ætluðum að taka sveitaballamarkaðinn með trompi en þá bárust tilboðin úr öðrum áttum og við urðum viðskila.
- Núna á eftir förum við Stefán Bjartur fljúgandi til Ísafjarðar í páskafrí. Á meðan fær Bryndís frið til að einbeita sér að náminu. Framundan eru sæludagar fyrir vestan fram að næstu helgi en þá tekur rokkið við; Aldrei fór ég suður.

1:02 e.h. Ekki vera feiminn

 
Sveiattan, hvílík bloggvanræksla!
Ýmislegt í gangi síðustu daga sem vert væri að segja frá;
- við fórum á árshátíð Pennans, laugardaginn fyrir viku. Vorum með fyrirpartý í Barmahlíðinni og héldum svo í leigubílum í veisluna á Nordica. Ég hafði í gríð og erg hvatt fólk til að mæta á hátíðina og sparkað í afturendann á þeim sem sögðust ekki nenna því það væri hvort sem er alltaf leiðinlegt. Ég sagði einfaldlega við alla að það væri algert rugl að nenna ekki að koma og borðan fínan mat, drekka gott vín og blanda geði við fólk, eitt fjandans laugardagskvöld. Fólk gæti nú alveg breytt útaf vananum í stað þess að horfa á Gísla Martein og Spaugstofuna.
Við ykkur sem ég dró með á þessa árshátíð vil ég biðja ykkur innilega að fyrirgefa mér það. Mikið andsk.. var leiðinlegt. Ég var nú nokkuð spenntur að fara á Nordica, þangað hafði ég ekki komið áður. Veislugestum var smalað í ægilegt biðstofugímald með tveimur sófum og nokkrum hringborðum. Þar mátti reykja. Þar voru allir. Á vínlistanum var boðið uppá heilar þrjár tegundir af rauðu og allar voru þær á sama verði. Við keyptum Cato negro á 3.500 kr.!!! Maturinn var borinn fram í sýnishornaskömmtum og leið langur tími milli rétta. Veislustjórinn var Auðunn Blöndal, popptívígalgopi. Ég var því miður búinn að heyra brandarann sem hann sagði og gat þess vegna ekki haft gaman af honum. Flestum fannst hann ömulegur, sem hann var, en það skrifast algjörlega á árshátíðarnefndina. Þetta var nefnilega ekki þrettán ára afmæli, þetta var árshátíð fullorðins fólks frá 20 til 80 ára. Fleira var ekki í boði þetta kvöld, að frátöldum ógeðsdrykknum, og mér var stórlega misboðið. Mér fannst ég vera hafður að fífli að hafa boðið konu minni með og við bæði klætt okkur í fínasta púss fyrir þessa "skemmtun". Ég skil ekki að þetta þurfi að vera svona erfitt, í svona stóru firma. Að sóa peningum okkar í aðkeyptan veislustjóra, og það þennan mann, sem þarf svo að sjá um öll skemmtiatriðin. Veislustjórinn á ekki að vera skemmtiatriðið. Ég ætla að heimta að sjá bókhaldið.
Nú er ég orðinn svo reiður að ég ætla að loka þessu bloggi og opna annað..helvítis djöfull!

12:05 e.h. Ekki vera feiminn

09 mars 2005  
Allt í blóma!
Hjá mér og mínum er allt í blóma. Bryndís átti góðar stundir í Kaupmannahöfn, kom með fínan afrakstur ferðarinnar í nokkrum pokum, flestum merktum Hennes og Mauritz!
Við höfðum einnig rætt nýjustu skyldueign allra sem ætla sér að taka þátt í neyslukapphlaupinu; i-pod og hvort við þyrftum ekki að eignast svoleiðis. Við ákváðum að gera það ekki strax en þegar Bryndís var að labba í gegnum fríhöfnina á Leifsstöð, greip hún einn pakka og setti í körfu. Allt í einu eigum við i-pod.
Við erum að fara á árshátíð á laugardag á Nordica. Auddi Blö er veislustjóri og Milljónamæringarnir og Raggi Bjarna leika fyrir dansi. Gæti það verið betra.

Það flaug um höfuðið á mér að Halldór Ásgrímsson sæti heima hjá sér með tölvuna í fanginu, og leitaði á google.com af umfjöllunum um Framsóknarflokkinn. Þess vegna segi ég;
Framsóknarflokkurinn er viðbjóður!

9:57 e.h. Ekki vera feiminn

06 mars 2005  
Reykjavík í London!
Dagur # 3 Sunnudagur
Nú var komið að því að standa sína plikt og fara að spila rokk. Það var jú tilgangur þessarar ferðar. Skátar höfðu boðið okkur með til Brighton og spila á rokkklúbbnum Free-Butt(?) með þeim og sveitinni I´m being good. Við Jón og Gummi þurftum að drífa okkur úr íbúðinni um hádegi því von var á áhugasömu fólki í íbúðarleit. Förinni var heitið á Victoria station, þar sem við ætluðum að hitta gengið og ná lest til Brighton. Okkur hafði borist liðsauki; snillingurinn Míó var kominn til að sjá um að við sánduðum vel. Það er eitt af hans hlutverkum í hljómsveitinni. Áætlað ferðalag til Brighton var klukkustundarlangt, samkvæmt upplýsingum frá Skátum. Það getur verið að við höfðum tekið vitlausa lest en við vorum tvo og hálfan tíma á áfangastað, í lest sem hvorki bauð uppá át né drykkju hvað þá reyk á leiðinni.

Brighton heillaði mig strax fyrstu sporin úr lestinni. Það eru allar þessar brekkur. Á Free-Butt fengum við bjór og gott sándtékk. Og eftir borgara og Pizzur á næsta horni og var strax komið að tónleikunum. Þeir byrjuðu kl.20.30 og dagskráin tæmd fyrir kl.23.00. Við hófum leikinn og áttum fínan konsert, vorum í góðu stuði. Fólk vissi ekki hverju þau áttu von á, og viðbrögðin eftir því. Fólki brá. Einhverjir sóttust eftir diskum og öðrum Reykjavíkur!-söluvarningi en við vorum tómhentir, fyrir utan demó sem nokkrir af þeim hörðustu fengu gefins. Skátar voru næstir og fengu áreiðanlega alla til að gleyma okkar framtaki þetta kvöld, eða allt að því. Svo góðir voru þeir. Frábært band. I´m being good enduðu dagskrána og eru þeir miklir spilarar. Fínt band.

Við drifum okkur til að ná lestinni tilbaka og ná áður í kjörbúð, þ.e.a.s. bjórbúð. Allir bjórkælar voru lokaðir og við sáum frammá leiðinlegt ferðalag til London. Yfir stóðu viðgerðir á brautarteinum svo við þurftum að taka rútu um helming leiðarinnar. Fyrir snilldarsnarræði Valda og Míó, sem höfðu leitað ráða hjá betlandi heimilisleysingja og þaðan hoppað í taxa, komu þeir rétt áður en rútan fór af stað klyfjaðir af bjór. Heimferðin til London var þes vegna afar skemmtileg, eftirminnileg, hávaðasöm og hláturmild. Við vorum ein á annari hæð rútunnar óáreitt. Við drukkum stíft og létum illa....þangað til bjórinn fór að segja til sín. Eftir um klukkustundarferðalag með rútunni nálguðumst við lestarstöðina, enginn sagði neitt. Það brast á með logni. Bílstjóri rútunnar og aðrir farþegar á fyrstu hæðinni héldu líklega að við værum sofnuð. Allir áttu það í hættu að pissa í sig ef einhver orðaskipti fóru fram.

Eftir að hafa pissað og tekið lestina síðasta spölinn tóku allir gleði sína á ný. Upp hófust sömu lætin. Nú var hægt að pissa um borð, ekkert gat stöðvað okkur. Spennufíkillinn Míó hinsvegar, sem er óvenju uppátækjasamur og veraldarvanur, lét sér ekki þessa gleði nægja heldur fór út að reykja í einu stuttu stoppana í einhverjum smábænum. Hann missti af lestinni og hringdi kortéri síðar, hann tók aðra lest. Til marks um það hvernig allt gengur upp hjá Míó, þurftum við ekki að bíða lengi eftir honum þegar við lentum í London. Hann var kominn undan okkur og beið eftir okkur fyrir utan lestarstöðina, skellihlæjandi. Frábær dagur að baki. Nú var það bara Marquee.


10:51 e.h. Ekki vera feiminn

 
Nú verða sagðar fréttir!
Nei, frá mér lítið að frétta. Við Stefbjartur höfum átt rólega en þrælfína helgi. Við erum búnir að vera ferlega duglegir, þrifið íbúðina hátt og lágt, bílinn að innan og utan og hent í nokkrar þvottavélar. Að sjálfsögðu nýttum við blíðviðrið líka og hjóluðum um víðan völl. Í gær elduðum við kjúklingabita í Caj P. sósu og fengum Gumma og Manna í heimsókn. Eftir að þeir voru farnir og Stefán sofnaður horfði ég á heimildarmyndina um Metallica. Þvílík dramatík, mér vöknaði um augun. Við Stefán Bjartur hlökkum til að hitta konuna á heimilinu á morgun svo lífið komist í fastar skorður. Við vorum sammála um að okkur þætti við varla heill né hálfur maður.

Ritdeilan!
Þau voru áhugaverð orðaskiptin sem fóru fram hér á síðunni og síðu Ágústs Borgþórs í febrúar. Þau voru reyndar í hæsta máta hlægileg. Upphafið skal rekja til framkomu minnar í þættinum Regnhlífarnar í New York á RÚV. Þar ræddi ég við Þorstein J. um metsölulista í stuttu spjalli
09. febrúar. Áður en ég fór að tjá mig eitthvað um mína frammistöðu og þennan nýja bókmenntaþátt las ég rýni Ágústs á bloggsíðunni hans. Ég hef soldið fylgst með þeirri síðu og haft gaman af. Miklu meira gaman að lesa um eitthvað sem maður er ekki sammála og getur hneykslast af. Ágúst hafði ekkert uppá mína frammistöðu að klaga og sagðist hafa verið ötull talsmaður bókmenntaefnis í sjónvarpi en loks þegar draumurinn rættist er hann hundóánægður. Allt sem fjallað um er um í þættinum er ekki að hans skapi. Ekkert er eftir hans höfði. Hvar er hin gamla fagurfræðihefð, spyr hann sig. Hann vill að talað sé um skáldsögur, helst smásögur og höfundarnir og engir aðrir spurðir álits, helst hann sjálfur.

Þetta fannst mér dæmigert fyrir rithöfunda, ég verð svo oft vitni að því að þeir gera sig stærri með því að rakka annað niður. Auðvitað er þetta ekki einsdæmi með rithöfunda, þetta er að sjálfsögðu landlæg pest. Ég hef verið mikið var við þetta í bókabúðinni og bendi ég á færslu eina hér á síðunni frá 02. febrúar með fyrirsögninni ,,Meira rokk, meira Slowblow". Auðvitað er það skemmtilegt að ég skuli vera að halda uppi einhverri vörn fyrir bókmenntaþátt á RÚV, stofnun sem ég finn allt til foráttu við hvert tækifæri, ég er barasta ánægður með þennan þátt. Fínt að fá umfjöllun um bækur og frá flestum sjónarhornum. Hafið þið einhvern tímann heyrt Eddu Andrésdóttur tala án prompters? Óþarfi að hafa alla þættina uppskrúfaða með Ármann og Sverri Jakobssyni sem álitsgjafa vopnuðum Hugtökum og heitum í bókmenntafræði eftir Jakob Benediktsson! Höfum þetta sem breiðast; allt frá fróðleiksmolum um kjölkraga til analíseringu á Miðnæturbörnum Salman Rushdie. Þátturinn á lof skilið miðað við það fjármagn sem þeir vinna með og metnaðinn á RÚV.

Ritdeila, dritseila! Auðvitað var það það eina sem þig langaði í! Ekki vildi ég gera það þér til geðs en þegar þú sagðir að ég væri vitlaus var ég BRJÁLAÐUR! Nei, djók! Mér er sama þó það komi frá þér. Þú segir svo margt.
Ég er ekki að fara moka bókinni þinni undir borð. Hún ratar til sinna.

9:29 e.h. Ekki vera feiminn

02 mars 2005  
Svell er á gnípu, eldur geisar undir..!
Ég er ekkert viss um að þessi fyrirsögn sé viðeigandi, mér finnst hún bara svo flott.
Marsmánuður hefur ekki byrjað jafnvel hjá mér líkt og febrúar gerði í bloggskrifum. Það hefur verið töluverður erill bæði í vinnu og á heimili í marsbyrjun. Við vorum að enda við talningar í bókabúðunum okkar við Bankastræti og Laugaveg. Næstu nótt mun Bryndís svo fljúga til Kaupmannahafnar og hitta vinkonur sínar sem búsettar eru á Spáni og á Ítalíu. Að öllum líkindum munum við Stefbjartur sitja heima eins og illa gerðir hlutirá meðan, í óhreinum fötum og með ekkert að borða þangað til hún kemur aftur eftir helgina. Hljómsveitinni Reykjavík! hefur verið boðið í menningarþáttinn Mósaík og munum við mæta eftir helgi í upptöku. Ég hef einu sinni áður spilað í Mósaík... ég hef reynt að gleyma því. Ég vona að sami aðilinn sitji ekki við stjórnvölinn þegar kemur að leikstjórn. Það eru margir sem muna eftir myndaramma- og baráttufánaruglinu hjá Geirfuglum í það skiptið.
Fyrst að ég er víst farinn að tala um innlent menningarefni í sjónvarpinu, dettur mér hann Ágúst Borgþór í hug. Hann er mikill áhugamaður um hámenningu. Honum finnst Mósaík sennilega lélegt. Í hinni meintu ritdeilu, sem lesendur hafa vafalaust tekið eftir, hef ég þegar játað mig sigraðan. Og að sama skapi verð ég að segja að ég er mun vitlausari en ég hélt. Ágúst hefur hins vegar þegar verið krýndur Eastwood rökræðnanna, en fyrir þá sem ekki vita er Eastwood heimsmeistari í kvikmyndaleikstjórn.
Ég held ég þurfi samt að spóla til baka og skoða oní kjölinn svo lesendur nái umgjörð og innihaldi í þessari orrahríð, en hvenær kemst ég í það? Um helgina vonandi. Kvöldin eru og hafa verið bókuð. Og hef ég ekki færi á að blogga í vinnunni líkt og sumir. Ég sá að Ágúst talaði líka um eril í sinni vinnu. Bandbrjálað að gera. Ég hafði einmitt verið að spyrja sjálfan mig að því hvar sá maður væri að vinna, og talaði hann um að þurfa að vinna frameftir á þriðjudagskvöldinu. Ég var einmitt svo heppinn að sjá hann það kvöld á Ölstofu Kormáks og Skjaldar um kl.21.00, eftir að við í BMM settumst niður eftir vel heppnaða talningu. Ég hreinlega vissi ekki að hann ynni þar!?

11:38 e.h. Ekki vera feiminn

28 febrúar 2005  
Bobby og Bubbi!
Þessa dagana er ég að nota peningana mína í að fá Bobby Fisher til landsins. Ég ákvað að styrkja för Sæma Rokk (..sem er hvorki pabbi minn né bróðir) til Japan, svo Bobby rati "heim"!

Og af því að það er meira en nóg til af peningum ákvað ég að kaupa öll lögin hans Bubba Morthens. Maður tryggir ekki eftir á...!

Ég er viðskiptamaður hjá Íslandsbanka og Sjóvá-Almennum.
Hversu geðsjúk er þessi veröld, segiði mér það! SEGIÐ MÉR ÞAÐ...AARRGGHHH!

11:54 e.h. Ekki vera feiminn

 
Þetta er fyrir þig...!!
Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson

Ágúst Borgþór er rithöfundur sem er duglegur að leita að sjálfum sér...
á google.com!
Hvar ætli hann vinni? Fyrir hvern ætli hann sé að vinna? Kannski Kolbein og Tinna??

11:43 e.h. Ekki vera feiminn

 
Brullaup!
Á morgun 01. mars mun vera ár síðan Bryndís bað mig um að giftast sér. Þá var reyndar 29.febrúar og Bryndís ætlaði sér ekki að bíða í fjögur ár í viðbót eftir tækifæri til að bera upp bónorð. Það var sunnudagur og ég nýkominn úr tónleikaferð með Dr.Gunna um Eyjafjörð og víðar, hún eldaði lax og hafði krotað spurninguna á Marilyn Monroe dagatal sem hékk í eldhúsinu.
Við höfum ákveðið að gifta okkur í Háteigskirkju (sem er hverfiskirkjan okkar) þann 17.júní. Þema veislunnar verður fullveldi Íslands og íslenski fáninn...djók!

11:58 f.h. Ekki vera feiminn

 
Febrúar er að renna mér úr greipum!
..og mig vantaði fjórar færslur til þess að jafna fjölda dagana. Það var nú ætlunin og mér finnst ég hafa brugðist lesendum mínum. Það er spurning hvort ég þurfi ekki að æxla ábyrgð að segja upp starfi mínu sem ritstjóri þessarar síðu. Helvítis Róbert Marshall og hans fordæmi. Ég fordæmi hann.

Það mætti samt líta á að löngu bloggin mín séu á við nokkur blogg meðalmanns. Ég held ótrauður áfram...!
Þetta var fínn mánuður!

11:56 f.h. Ekki vera feiminn

27 febrúar 2005  
Reykjavík í London!
Dagur # 2 Laugardagur

Hann var heldur hráslagalegur laugardagsmorguninn við Thames ána. Það skiptist á sól og kafald. Við Putney piltarnir héldum af stað niðrí bæ eftir að hafa farið í sturtu, sett á okkur andlitskrem og strauað skyrturnar. Á leið okkar niðrá lestarstöð löbbuðum við framhjá götumarkaði, sem má nú varla kallast venjulegur. Þar voru ekki epli og appelsínur, kakó og notaðar flíkur, nei þarna voru til sölu hunangsristaðar hnetur, kavíar, panda-fillet, allar tegundir af ólívum og þarna var Burberry bás. (þetta með pandabjarnakjötið er djók, sorrí)

Í þessari greinargóðu yfirferð minni á Lundúnaferðinni var ég að hugsa um að sleppa að segja frá öllu því sem gerðist undir áhrifum áfengis. Ég þakka lesturinn og góðar stundir....! Djók. Laugardagurinn einkenndist af óvenjulítilli framtakssemi. Drykkja. Honum var eytt á hinum spænska Bradley´s bar, þar sem stjörnurnar í White stripes og Strokes meðal annarra hanga mikið á. Reyndar komum við við í plötubúð, þar sem Valdi missti sig, ég hefði getað það sömuleiðis en ég get verið mjög passasamur á peninga en bara á kolröngum mómentum. Í staðinn eyði ég í annarskonar óspennandi vitleysu. Loks uppgötvaði hópurinn að betra væri að borða eitthvað annað en bjór, við ákváðum að elda saman pasta á Putney, fórum saman í kjörbúð og beinustu leið heim. Þar skyldi halda veislu.

Mér er það að sjálfsögðu lífsins ómögulegt að segja frá því í orðum hversu maturinn var góður, maturinn sem Bóas og Valdimar lögðu mikla ástúð við í eldhúsinu. Í veisluna voru mættir gestir; Elín okkar (á myndinni fyrir ofan má einmitt sjá Elínu fyrir framan höllina við Putney bridge) var komin frá Írlandi með kærastann sinn Bibs undir hönd, Þóra Karítas og vinkona hennar sem búa saman í London og loks Danni og Gunni vinir Jóns og Gumma sem voru með okkur í ferð. Eftir mikla matar- og drykkjaveislu sem enginn Putney-búi hefði skammast sín fyrir var ákveðið að fara á næturklúbb. Jón Þór þekkti nefnilega aðalmanninn á einum stærsta og vinsælasta næturklúbbi í London; Fabrique! Fyrir þau ykkar sem ekki vita hver Jón Þór þá eruð þið í slæmum málum. Ef þú ert með Jón Þór við hlið þér og hann með síma, þá þarftu ekki að hafa áhyggjur að neinu. Þegar við birtumst í klúbbnum, 17 manna partýið úr Putney, tók hinn franski Marc á móti okkur og við leidd í VIP herbergi og þeim sem þar voru fyrir, voru umsvifalaust hent út. Næst var í okkur borið kampavíni og aðra görótta drykki fram eftir nóttu. Marc þessi er víst heimsmeistari í hanastélsblöndun, var aðalblandari Oscars hjá Pölstar, og það var hrein unun að horfa á hann í action. Hann notaði enga skammtara hann einungis notaði nefið. Hann hefur mikið nef fyrir hlutföllum. Þessi klúbbur er í mörgum sölum á nokkrum hæðum og getur tekið á móti þúsundum gesta. Jón Þór fékk grand tour um staðinn hjá Marc, sem var vopnaður vasaljósi og saman fóru þeir í hvern krók og kima staðarins og það var einkar áhrifamikið að heyra frá Jóni ferðasöguna. Það var engu líkara að Jón hafi farið í gönguferð með Móses.

Eftir hið mikla drykkjuúthald dagsins og veru okkar meðal breska almúgans á næturklúbbi, vorum við Putney piltar ansi fegnir að koma heim seint á aðfaranóttu sunnudags. Á morgun skyldi halda til hafnarborgarinnar Brighton.

7:47 e.h. Ekki vera feiminn

 
This page is powered by Blogger.