bryndísar&kristjánsbörn
bryndís stefáns
gunnar hjálmars
elín smára
árný gísla
sigrún bjarna
hálfdán hálfdáns
eiríkur hrafns
karl hallgríms
örn guðmunds
birna guðmunds
kristinn hermanns
steingrímur guðmunds
páll páls
smári karls
grímur atla
vidófjölskyldan
bókabúðin mín
hljómsveitin reykjavík!

Bloggið er dautt og internetið líka. Ég las það á netinu, á einhverri bloggsíðunni!


























 
Archives
<< current













 
This is where you stick random tidbits of information about yourself.



























Ég er Kriss og ég er Rokk.
 
28 febrúar 2005  
Bobby og Bubbi!
Þessa dagana er ég að nota peningana mína í að fá Bobby Fisher til landsins. Ég ákvað að styrkja för Sæma Rokk (..sem er hvorki pabbi minn né bróðir) til Japan, svo Bobby rati "heim"!

Og af því að það er meira en nóg til af peningum ákvað ég að kaupa öll lögin hans Bubba Morthens. Maður tryggir ekki eftir á...!

Ég er viðskiptamaður hjá Íslandsbanka og Sjóvá-Almennum.
Hversu geðsjúk er þessi veröld, segiði mér það! SEGIÐ MÉR ÞAÐ...AARRGGHHH!

11:54 e.h. Ekki vera feiminn

 
Þetta er fyrir þig...!!
Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson Ágúst Borgþór Sverrisson

Ágúst Borgþór er rithöfundur sem er duglegur að leita að sjálfum sér...
á google.com!
Hvar ætli hann vinni? Fyrir hvern ætli hann sé að vinna? Kannski Kolbein og Tinna??

11:43 e.h. Ekki vera feiminn

 
Brullaup!
Á morgun 01. mars mun vera ár síðan Bryndís bað mig um að giftast sér. Þá var reyndar 29.febrúar og Bryndís ætlaði sér ekki að bíða í fjögur ár í viðbót eftir tækifæri til að bera upp bónorð. Það var sunnudagur og ég nýkominn úr tónleikaferð með Dr.Gunna um Eyjafjörð og víðar, hún eldaði lax og hafði krotað spurninguna á Marilyn Monroe dagatal sem hékk í eldhúsinu.
Við höfum ákveðið að gifta okkur í Háteigskirkju (sem er hverfiskirkjan okkar) þann 17.júní. Þema veislunnar verður fullveldi Íslands og íslenski fáninn...djók!

11:58 f.h. Ekki vera feiminn

 
Febrúar er að renna mér úr greipum!
..og mig vantaði fjórar færslur til þess að jafna fjölda dagana. Það var nú ætlunin og mér finnst ég hafa brugðist lesendum mínum. Það er spurning hvort ég þurfi ekki að æxla ábyrgð að segja upp starfi mínu sem ritstjóri þessarar síðu. Helvítis Róbert Marshall og hans fordæmi. Ég fordæmi hann.

Það mætti samt líta á að löngu bloggin mín séu á við nokkur blogg meðalmanns. Ég held ótrauður áfram...!
Þetta var fínn mánuður!

11:56 f.h. Ekki vera feiminn

27 febrúar 2005  
Reykjavík í London!
Dagur # 2 Laugardagur

Hann var heldur hráslagalegur laugardagsmorguninn við Thames ána. Það skiptist á sól og kafald. Við Putney piltarnir héldum af stað niðrí bæ eftir að hafa farið í sturtu, sett á okkur andlitskrem og strauað skyrturnar. Á leið okkar niðrá lestarstöð löbbuðum við framhjá götumarkaði, sem má nú varla kallast venjulegur. Þar voru ekki epli og appelsínur, kakó og notaðar flíkur, nei þarna voru til sölu hunangsristaðar hnetur, kavíar, panda-fillet, allar tegundir af ólívum og þarna var Burberry bás. (þetta með pandabjarnakjötið er djók, sorrí)

Í þessari greinargóðu yfirferð minni á Lundúnaferðinni var ég að hugsa um að sleppa að segja frá öllu því sem gerðist undir áhrifum áfengis. Ég þakka lesturinn og góðar stundir....! Djók. Laugardagurinn einkenndist af óvenjulítilli framtakssemi. Drykkja. Honum var eytt á hinum spænska Bradley´s bar, þar sem stjörnurnar í White stripes og Strokes meðal annarra hanga mikið á. Reyndar komum við við í plötubúð, þar sem Valdi missti sig, ég hefði getað það sömuleiðis en ég get verið mjög passasamur á peninga en bara á kolröngum mómentum. Í staðinn eyði ég í annarskonar óspennandi vitleysu. Loks uppgötvaði hópurinn að betra væri að borða eitthvað annað en bjór, við ákváðum að elda saman pasta á Putney, fórum saman í kjörbúð og beinustu leið heim. Þar skyldi halda veislu.

Mér er það að sjálfsögðu lífsins ómögulegt að segja frá því í orðum hversu maturinn var góður, maturinn sem Bóas og Valdimar lögðu mikla ástúð við í eldhúsinu. Í veisluna voru mættir gestir; Elín okkar (á myndinni fyrir ofan má einmitt sjá Elínu fyrir framan höllina við Putney bridge) var komin frá Írlandi með kærastann sinn Bibs undir hönd, Þóra Karítas og vinkona hennar sem búa saman í London og loks Danni og Gunni vinir Jóns og Gumma sem voru með okkur í ferð. Eftir mikla matar- og drykkjaveislu sem enginn Putney-búi hefði skammast sín fyrir var ákveðið að fara á næturklúbb. Jón Þór þekkti nefnilega aðalmanninn á einum stærsta og vinsælasta næturklúbbi í London; Fabrique! Fyrir þau ykkar sem ekki vita hver Jón Þór þá eruð þið í slæmum málum. Ef þú ert með Jón Þór við hlið þér og hann með síma, þá þarftu ekki að hafa áhyggjur að neinu. Þegar við birtumst í klúbbnum, 17 manna partýið úr Putney, tók hinn franski Marc á móti okkur og við leidd í VIP herbergi og þeim sem þar voru fyrir, voru umsvifalaust hent út. Næst var í okkur borið kampavíni og aðra görótta drykki fram eftir nóttu. Marc þessi er víst heimsmeistari í hanastélsblöndun, var aðalblandari Oscars hjá Pölstar, og það var hrein unun að horfa á hann í action. Hann notaði enga skammtara hann einungis notaði nefið. Hann hefur mikið nef fyrir hlutföllum. Þessi klúbbur er í mörgum sölum á nokkrum hæðum og getur tekið á móti þúsundum gesta. Jón Þór fékk grand tour um staðinn hjá Marc, sem var vopnaður vasaljósi og saman fóru þeir í hvern krók og kima staðarins og það var einkar áhrifamikið að heyra frá Jóni ferðasöguna. Það var engu líkara að Jón hafi farið í gönguferð með Móses.

Eftir hið mikla drykkjuúthald dagsins og veru okkar meðal breska almúgans á næturklúbbi, vorum við Putney piltar ansi fegnir að koma heim seint á aðfaranóttu sunnudags. Á morgun skyldi halda til hafnarborgarinnar Brighton.

7:47 e.h. Ekki vera feiminn

25 febrúar 2005  
Vormynd!
Í morgun horfði ég á fugl sem sat í makindum sínum á ljósastaur. Var mér þá hugsað til hunda en þeim finnst gott að pissa á ljósastaura. Fuglum finnst hinsvegar gott að kúka á húdd á bílum. En hundar kúka í görðum. Sumt mannfólk á erfitt með að kúka annars staðar en heima hjá sér. Fuglar æla oní hvorn annan. Sumt fólk á erfitt með að æla. Kettir æla klístruðum hárkúlum. Flestir geta pissað alls staðar. Sumir pissa í sig. Hundar pissa ekki í sig, þeir pissa á sig. Kettir pissa í sand. Sem leiðir mig að þeirri ógurlegu pælingu þegar ég sá fyrrnefndan fugl á ljósastaurnum: geta fuglar pissað?

3:04 e.h. Ekki vera feiminn

24 febrúar 2005  
Nóttin!
-það er alltof lítið af umfjöllunum um nætur og nætursvefn!
Góðan dag. Já nóttin var fín, svaf vel takk fyrir. Ég held að ég hafi legið lengstum á maganum, með aðra hönd undir koddanum. Vaknaði einu sinni þegar Stefán hrökk upp og spurði hvað klukkan væri. Mig dreymdi að ég væri í vinnunni að tala við Stefán Mána þegar Gyrðir Elíasson kom aðvífandi og byrjaði að kalla Stefán Mána öllum illum nöfnum og skammaði hann fyrir að gefa út glæpabók. "..þú ert glæpafíkill, ekkert nema dóp, húðflúr, kynlíf og glundroði. Svona stemningu skrifar maður ekki, óféti"! Ég vaknaði um 07.30, fékk mér Special K og sá Ara Edwald raula Nýdönsk í sjónvarpinu.
Þessi nótt fær; **

8:53 f.h. Ekki vera feiminn

23 febrúar 2005  
Reykjavík í London!
Dagur # 1 Föstudagur
Kl.16.30 á föstudaginn var áætluð brottför frá Keflavík. Það var blíða þegar við Valdi lögðum af stað með rútunni frá BSÍ. Þökk sé leigubílstjóranum biðum við ekki eftir rútunni við Loftleiðir, en þaðan fara flugrúturnar ekki lengur. Það hefði verið frekar glatað hefðum við Valdi drollað á Hótel Loftleiðum meðan hinir flygu til London. Við hefðum líklegast fengið okkur herbergi og setið þar skömmustulegir yfir helgina. Nei nei, auðvitað klúðruðum við þessu ekki, en Valdi uppgötvaði við bókunarborðið að hann hafði gleymt vegabréfinu sínu. Jói bróðir fór af stað frá Reykjavík með passann og Valdi beið frammi. Á meðan drukkum við bjór og borðuðum snakk í fríhöfninni.

Flugferðin var mjög fín, okkur var dreift haganlega um vélina og enginn hlið við hlið. Þetta var því að kenna að hljómsveitir hafa slæmt orð á sér í millilandaflugi. Mínus blindfullir og berir að ofan, Sigur Rós og Múm djammandi og syngjandi með harmonikkur og xylophona. Þess vegna fór flugferðin hjá mér í það að spjalla um ESB og kvótakerfið við hjón frá Sussex. Maður á semsagt aldrei að fara sem hljómsveit í flug, frekar bridgelið. Við vorum öll orðin eldhress þegar við lentum á Heathrow og þá tók rokkið við. Þið vitið náttúrulega að rokk er til í ýmsum myndum. Því til sönnunar voru kontrastarnir í ferðinni: Ég, Gummi og Jón fórum með pólskum bílstjóra (sem stóð á flugstöðinni með spjald þar sem stóð "Kon Thor") frá vellinum og á viðverustað okkar á Putney bridge. Þar beið okkar skínandi íbúð á tólftu hæð í fimmtán hæða húsi, skreyttu bláum ljósum líkt og flugstöð. Fullur ísskápur af bjór, plasma-sjónvörp og Bose hljóðkerfi í öllum herbergjum. Á meðan fóru þau Haukur, Helena, Bóas og Valdi í rottuholu annars staðar í borginni, á heimili Gareth tónleikahaldara og bróður hans. Þar beið þeirra tveggja sentimetra ryklag á baðinu, enginn klósettpappír (aðeins guð veit í hvað þeir nota allan pappírinn) og táfýla. Hvort tveggja heilmikið rokk.. bara öðruvísi!


Eftir að ég hafði farið með Gummi og Jóni og öðrum fimm hommum á hommaveitingastað, borðað hommaborgara og drukkið hommadrykki, fóru þeir á hommarölt og ég á hommabar...nei, ég fór á bar og hitti hina í genginu ásamt hinum frábæru krökkum í Skakkamanage. Klúbburinn var í hæsta lagi hlægilegur, Gareth sem var að plötusnúðast þetta kvöld, hristi sinn aflitaða makka uppá sviði (Gareth er frábær gaur sem stóð fyrir þessari ferð okkar, hann lítur út eins og Jack Black með pissugult hár og frekjuskarð), skólakrakkar pískruðu á dansgólfinu en bjórinn var ódýr. Eftir töluverða drykkju og havaðasama indí-tónlist fann ég að þessi félagsmiðstöð var ekki fyrir virðulegan Putney strák eins og mig. Ég fór heim. Eða öllu heldur reyndi. Leigubílstjórarnir voru ekki anxcious í að keyra mig heim, þeir vildu frekar fara sjálfir heim. Fyrsta leigubílinn sem ég stoppaði þurfti að ég að horfa eftir heim til sín, annar bíllinn ók af stað með mig en fékk bakþanka og skildi mig eftir á götuhorni einhvers staðar í fjáranum, sá þriðji skilaði mér heim eftir frækna ferð með London A-Z kortabókina við framrúðuna. Ég sagði honum að ég þyrfti nauðsynlega að komast á Putney bridge á fund. Bílstjórinn spurði þegar hann kom loks að blálýstu húsinu; "..is your friend doing well?". Íbúðin er í eigu Oscars hins sænska vinar Jóns Þórs, en hann er fyrir utan að vera einstaklega geðugur piltur; fyrrum fyrirsæta og fyrrum eigandi að Pölstar vodka. Oscar hugar að því þessa dagana að flytja til Íslands og selja íbúðina á Putney. Hún kostar 80 milljónir ISK. Anyone..??

9:30 e.h. Ekki vera feiminn

 
Upprisa Kriss!
Ég er kominn heim. Þið eigið ekki vona á góðu. Ég mun svoleiðis drita á ykkur bloggi, verð mjög óvæginn, bæði myrkur í máli og extra hress, mun úthúða fólki og hlaða öðrum lofi, sumt verður vitsmunalegt en annað algert rugl.
Í augnablikinu er ég að leysa hana Kiddý af í Máli og menningu í Bankastræti meðan hún fer í mat. Ég er ekki vanur að blogga í vinnunni, kannski eru allir á skrifstofunni að lesa þetta...!?
Árný Rós á afmæli í dag, til hamingju Árný.

Fylgist með.. ef þið þorið!

1:20 e.h. Ekki vera feiminn

16 febrúar 2005  
Við erum búnir að meika´ða!
Nú erum við drengirnir í Reykjavík! að fara að leggja í víking. Við leggjum af stað frá höfuðstað íslendinga, Keflavík (smá pólitík; ef Reykvíkingar vilja ekki hafa þennan flugvöll er þá ekki rétt að flytja alla þá helstu þjónustu úr Reykjavík og til Keflavíkur), kl.16.30 og lendum þremur tímum síðar á Heathrow flugvelli í Lundúnum. Tildrög þessarar ferðar eru þau að á Icelandic airwaves hátíðinni í október síðastliðnum, spiluðum við á hressum en fámennum tónleikum á Grandrokki. Þar vorum við í góðu stuði og ekki síst Haukur Magnússon sem milli laga hafði greinagóðar og spaugilegar international kynningar á bandinu, þar sem við vorum augljóslega að meika það verandi þátttakendur á Airwaves-hátíðinni. "if anyone of you are from Pepsi Cola or a large record company, please form a queue after the concert and we´ll talk to you".
Í salnum voru tveir bretar frá vinsælasta tónlistarvef Bretlands, DIS og þeir vildu hitta okkur strax daginn eftir. Við munum spila á sér Íslandskvöldi á Marquee klúbbnum við Leicester torg á mánudagskvöldinu. Marquee er margfrægur klúbbur, á m.a. DVD disk með the WHO þar sem þeir spila meðal annars þar.

Það verður einnig mjög gaman að hitta hana Elínu og þennan "vin" hennar sem þykist vera búinn að stela henni frá okkur. Ef einhver ykkar hefur hugmynd um hverskonar prófraun við eigum að láta hann þreyta þegar við hittum hann, sendið línu eða komment, hann verður að hafa fyrir þessu. Ein hugmyndin er hann lendi á trúnó með blindfullum Valda...?! Svo var hann Stinni Hemm að ýja að því að líta við. Það myndi sannarlega hressa okkur!

10:43 e.h. Ekki vera feiminn

14 febrúar 2005  
Mánudagur.
Mikið var gaman á þorrablóti vestfirskra brjálæðinga heima hjá Valdimar og Ingibjörgu. Ég hef verið að hugsa hvernig ég gæti komið þessari skemmtan áfram til lesenda minna en ég hef ekki fundið nein viðeigandi lýsingarorð. En myndir segja meira en þúsund orð og þess vegna er gaman að segja frá splúnkunýrri vefdagbók Kristínar Drafnar en hún gerði kvöldinu ágæt skil.

Mikið var gaman á Stúdentakjallaranum á föstudagskvöldinu. High-school gleðipopp frá strákunum í Weapons of mass-destruction, sætt og ljúft hjónapopp frá Skakkamanage, þétt éggetenganveginnskilgreint rokk frá Reykjavík og ógeðslega skemmtilegt elektrópönkdiskó frá Dáðadrengjum var sannarlega að skemmta hinum blindfulla lýð í troðfullum kjallara. Frábær mæting og greinilegt að fína plöggið fyrir helgina gerði gæfumuninn

Mikið var ekki gaman í dag. Kvef, hausverkur og þynnka. Ég labbaði dúðaður í vinnuna, í hettuúlpu, með ullarvettlinga og í fjallgönguskóm. Bryndís fór með Stefán á leikskólann á nýju snjóþotunni. Og hvað svo? Rigning auðvitað.

Ég hitti Helga Björns, hann var hress þrátt fyrir að vera einmitt í fjallgönguskóm líkt og ég. En honum finnst held ég rigningin góð. Hann lýsti áhuga á því að spila með hljómsveitinni Reykjavík á Aldrei fór ég suður hátíðinni. Spennandi!

9:34 e.h. Ekki vera feiminn

13 febrúar 2005  
Ég fæ vikulegan pirring gagnvart RÚV.
Ósjaldan á sunnudögum.
Ég lofaði sjálfum mér að dagbókarfærslur mínar í febrúar yrðu jafnmargar dögum þess mánaðar. Mér hefur gengið þokkalega, svo vel að fólk hefur kvartað yfir því að komast ekki yfir allt saman. Þessi helgi hefur verið mér sérlega annasöm, og skemmtileg í senn. Spilaði á frábærum tónleikum í Stúdentakjallaranum á föstudagskvöldinu, fór á ánægjulegan og árangursríkan fund með starfsfólki BMM á laugardeginum og á laugardagskvöldinu á ógleymanlegt þorrablót. Þessi þrotlausa gleði mín hefur því miður bitnað á lesendum mínum, því í gær kom ekkert blogg. Þetta þýðir bara að einn daginn mun koma tvö blogg. Ég hef svo aftur áhyggjur af bloggi næstu helgar því þá verð ég í Lundúnum. Annars eru hugmyndir uppi á Rás 2 um að við verðum með sérstakt myndablogg þaðan, sem verður auglýst sérstaklega í Popplandi. Kem að því síðar.

Halló Kuldaboli, eitt sinn laug einhver að mér að þú bitir mann í rassinn! Þetta var annars bitlaus gagnrýni á frammistöðu mína í Regnhlífunum í New-York. Ég kom nú ekki mörgu að. Ég er sammála þér með þennan þátt annars, mér finnst hann fínn. Það sést hversu takmarkað fjármagn þeir fá til þessa þáttar, sem er aðkeyptur á RÚV. Enn eitt dæmið um hið ótrúlega metnaðarleysi hjá þessari gjörspilltu stofnun. Á RÚV hanga inni deildir og starfsgildi sem eru algjörlega óþarfar, bara innheimtudeildin inniheldur tæpan tug starfsmanna og kostar 80 milljónir á ári. Ótrúleg óstjórn í tugi ára. Hin metnaðarfulla deild innlendrar dagskrágerðar heitir svo Spaugstofan. Það þarf hallarbyltingu. Skipulagt valdarán!

Í dag keypti ég mér árskort í World-Class.

10:37 e.h. Ekki vera feiminn

11 febrúar 2005  
Útvarp Reykjavík!
- nú verður rokkað!
Útvarpið í bílnum hjá okkur er bilað. Það hefur aldrei virkað almennilega því loftnetið er brotið. Stundum dettur það inn á einhverjum köflum, heitum reitum ef svo mætti segja, en þá aldrei eitthvað sem hlustandi er á. Þannig næst til dæmis varla Rás 2, alls ekki XFM, því síður Talstöðin en aftur á móti er LÉTT FM skýr og hrein og Bylgjan kemur oft inn á skúrrandi diskanti. Áðan var ég á fleygiferð á bílnum, kemur þá ekki Bylgjan inn og þá komu eftirfarandi orðaskipti sem gerði mig smeykan;
- ..já, góða kvöldið. Við ætlum að byrja þáttinn á einu bestu ballbandi okkar íslendinga á síðasta áratugi, nefnilega Stjórninni en heyrum fyrst í einum hlustanda. Góða kvöldið!
- Já, hæ. Get ég beðið um óskalag?
- Að sjálfsögðu, hvað má bjóða þér?
- Eitthvað hresst með Genesis..???

Stúdentakjallarinn kallar. Hef heyrt að heimspekinemar ætli að fjölmenna. Ætli að salurinn verði þá fullur fólks, íbyggnu á svið með hökuna í lófanum?

8:41 e.h. Ekki vera feiminn

09 febrúar 2005  
...er gaman?
Nú er maður loksins kominn örmagna heim eftir hljómsveitaræfingu, búinn að þræla sig út bara fyrir ykkur sem ætla að mæta í Stúdentakjallarann á föstudaginn og í Smekkleysubúðina! Allt ókeypis. Gaman?

Hann Stefán sonur minn er að smita mig af þessum frasa; þegar við erum að leika saman þá spyr hann til að vera viss hvort sé ekki örugglega gaman.

Ég var í Bæjarins Besta viðtali milli jóla og nýárs þar sem Halldór Jónsson spurði mig spjörunum úr, meðal annars hvort ég hafi farið hina hefðbundnu leið í músíkinni. Hvort flestir byrjuðu ekki í bílskúrnum og færu svo í sveitaballarúnkið og svo jafnvel í band með frumsamið metnaðarfullt stöff. Þetta var nokkuð skemmtileg spurning. Við félagarnir vorum einmitt að ræða þetta á dögunum. Innan vinahópsins var ég nánast eini maðurinn sem spilaði ekki á hljóðfæri. Hékk í staðinn utan í öllum, fór alltaf með Gumma á æfingar með Urmli.
Það er svosem engin hefðbundin leið í rokkinu, ekkert hefðbundið við rokk...!? En það verða tíu ár á þessu ári síðan ég byrjaði eitthvað af alvöru að gutla á trommur. Með hljómsveitinni Miðnes.

11:15 e.h. Ekki vera feiminn

08 febrúar 2005  
Saltkjöt og baunir, túkall!
Ég átti ágætan dag. Vona að hann hafi runnið blíðlega oní ykkur. Það gerði svo sannarlega saltkjötið sem ég borðaði á Lóuhreiðri í dag. Ég hef fram að þessu ekki mikið talað um Lóuhreiður en þangað fer ég nánast á hverjum virkum degi. Þar er boðið uppá rétt dagsins, alvöru mat; unaðslegir fiskréttir á mánu- og miðvikudögum, á þriðjudögum klassískir hversdagsréttir í anda hins íslenska heimilis, á fimmtudögum er manni komið á óvart með freestyle matreiðslu úr Evrópu og víðar og á föstudögum eru svo framreiddir fínni réttir úr hinni sígildu íslensku matargerð. Fyrir utan þetta er alla daga hægt að fá súpur, salöt, brauðrétti og bökur. Af einskærri eigingirni hef ég ekki viljað segja neinum frá þessu en ég get ekki setið á mér lengur, ég hvet ykkur til að kynna ykkur þennan veitingastað í hjarta borgarinnar; á kjörgarði við Laugaveg.

Er Laugavegurinn ekki annars hjarta borgarinnar, eða er það vélindað? Alla vega er Lækjartorgið ekki hjartað, það er meira svona ...endaþarmur! Þá hlýtur Hlemmurinn að vera munnopið, svo ferðast maður niður meltingarveginn, flækist í þörmunum (Þingholtunum) og endar við endaþarmsopið (Lækjartorg). Þar vill enginn vera til lengdar og flestir forða sér. Enda sér maður aldrei neinn á Lækjartorgi.

Við Stefán Már félagi minn vorum komnir með fínar hugmyndir á nýjum götuheitum. Helstu vandræðin á skipulagi nýrra íbúðahverfa er að finna ný götunöfn. Öll nöfnin eru greinilega að verða búin þegar við sjáum að hundruð manna í Grafarvogi búa við Mururima. Ein hugmyndin var að styðjast við undraheima mannslíkamans m.a. æðakerfið: Slagæð, Ósæð, Gyllinæð svo væri hringtorg sem myndi heita hringvöðvi, og gata sem ekki er hægt að keyra í gegn, hún myndi heita Botnlangi. Verslunarmiðstöðin héti Lífæð....

Minni á Reykjavík! á Stúdentakjallaranum á föstudagskvöld kl.22.00. Aðgangur ókeypis. Tökum svo smá æfingu fyrir kvöldið í Smekkleysubúðinni sama dag kl.17.00. Aðgangur ókeypis.

10:30 e.h. Ekki vera feiminn

07 febrúar 2005  
Stígandi lukka er best!
Bókmenntafræðingurinn og verðandi leiklistarfrömuðurinn Elín Smáradóttir átti kollgátuna í spurningu gærdagsins. Fyrsta bók Árna Bergmann heitir einmitt Geirfuglarnir og þá bók á ég einmitt hér í hillunni. Gaman að segja þér frá því að á saurblaðið er ritað: "25.maí 2000. Til Kristjáns Freys. Frá Elínu. - af því að þú ert vinur minn!!"! Þetta þótti mér og þykir fallegt.

Í dag er mánudagur og framundan er þrusurokk- og þorrablótshelgi. Búast má við stígandi spennu hér á síðunni frameftir vikunni sem mun þá ná hámarki á föstudaginn. Glöggir lesendur hafa einmitt tekið eftir því að ég er ansi duglegur við skrifin þessa dagana. Í gær varð ég uppvís að hlæja að mínum eigin skrifum þegar ég var að fletta uppí arkívunum. Á tímum var síðan einstaklega gagnvirk, menn skiptust á braglínum og hnittnum tilsvörum. Hvar er Steini Sleggja og hvar er Jói Bekk? Ég rýndi í mín gömlu skrif í gær til að athuga hvort ég hafi skrifað eitthvað um þorrablótið góða í fyrra en nú um næstu helgi skal endurtaka leikinn. Þið getið skoðað þau skrif undir færslunum 02/01/2004 - 02/29/04. Þar mátti líka sjá ótrúlega tilviljun; núna á laugardaginn 05. febrúar voru skrifin mín með fyrirsögnina Ljúfsárar..!, í fyrra á nákvæmlega sama tíma 05. febrúar var fyrirsögn blogggsins Ljúfsárar..! Ótrúlegt.


8:03 e.h. Ekki vera feiminn

06 febrúar 2005  
...ætli að Árni Bergmann lesi bloggið mitt!
Við Stefbjartur ráfuðum um alla Smáralindina með kaffi og kex meðan Briss skannaði útsöluandaslitrurnar. Þetta er ekki uppskriftin á uppáhaldssunnudagseftirmiðdagshanginu mínu. En biðin eftir Briss var þolanleg vegna hversu Stefán er hress gaur. Komum við í bakaríinu á leiðinni heim og keyptum rjómabollur sem voru alls ekki góðar. Allt í lagi.

Þorsteinn Joð boðaði mig í upptöku í fyrramálið uppí Efstaleiti fyrir bókmenntaþáttinn í sjónvarpinu; Regnhlífarnar í New York. Ansi hreint fínn þáttur hjá Þorsteini, lifandi og áhugaverð umræða um bækur. Þorsteinn Joð er kúl gaur, við í hljómsveit Dr.Gunna vorum á leiðinni með að vinna með honum, hann lýsti yfir áhuga að gera myndband með okkur. Synd að það skuli ekki hafa gerst. Sem sagt ég mun sitja fyrir svörum í bókmenntaþættinum enda er alkunna að ég hafi svör við öllum sköpuðum hlutum....múúhahhhaa!

Hvað heitir fyrsta skáldsaga Árna Bergmann?

1:14 f.h. Ekki vera feiminn

05 febrúar 2005  
Ljúfsárar...!
Það er svo margt sem ég fíla við laugardaga. Það er einhvern veginn alveg sama hvað maður er að gera, ef það er laugardagur þá er öðruvísi stemning yfir hlutunum. Það getur meira að segja verið mjög gaman að vinna á laugardögum. Það versta er náttúrulega ef dagurinn flýgur frá í einhverju móki, ef maður sefur eða situr með tóman haus fyrir framan sjónvarpið. Í dag höfum við verið að þrífa heimilið hátt og lágt. Allir á fullu. Stefán hefur hlupið sem stormsveipur um alla íbúð með tuskuna að þurrka. Það er einhvern veginn gömul klassík að laugardagar fari í almenn þrif á heimilinu og í sjónvarpinu séu menn að hamast í íþróttum. Ryksugan og enska knattspyrnan. Loks tróð ég í fullan ruslapoka gömlum fötum af mér úr fataskápnum og með þeim fylgdi aragrúi minninga, góðra og slæmra. Gott að endurnýja fataskápinn og endurnýja langtímaminnið. Tæma öðru hverju. Að sama skapi taldi ég dósir og henti í poka; gaman að henda gömlum partýum út úr húsi. Fletta upp í tómum dósunum.

Fannst ykkur þetta ekki skemmtileg minni; gömul föt, tómar bjórdósir og minningar.

11:56 f.h. Ekki vera feiminn

04 febrúar 2005  
Psssssssssttttt!
Eftir vinnu í dag var haldið þorrablót, svona örblót. Auðvitað var ekki af miklu að vænta af þeim borgarbúum sem blótið sóttu, ekki var mikið af signu, mignu og súru! Vitaskud vorum við Vestfirðingar búnir að vinna undirbúningsvinnuna; þurrka fisk, míga á hvalspik, reykja kjöt og leggja allt annað í súr. Ég færðist nú ekki mikið í fang með þetta, keypti sviðasultu, lifrapylsu og hangiket en fékk svo að smakka hákarl og brennivín þegar við lögðum allt í púkk. Reynt var að troða oní alla hákarli og brennivíni og ég var að hugsa hverskonar háttalag það væri. Er það einhver manndómsraun að éta hákarlstening? Ég veit ekki til þess að fólk verði eitthvað betra við það. Mér finnst alltaf fáránlegt að troða uppá einhvern annan svona mat.

Fyrir nokkrum vikum síðan þurfti ég að fara á salernið í vinnunni, það bar skjótt að svo ég hljóp á salerni Súfistans. Nr.2 var í aðsiglingu og er ég sat á dollunni þá heyrðist einkennilegt hljóð; ,,..pssssssstt"! Mér dauðbrá. Það var engu líkara en að einhver væri inni á baðherberginu með mér en svo var ekki. Þegar ég hafði lokið mér af, fann ég að lyktin var ekki eðlileg að mér vitandi. Yfir litla herbergið lagðist óvenjumikill blómailmur. Ég komst að því síðar að skynjari hefur verið settur upp efst í horninu fyrir ofan hurðina og ef einhver vottur er af vondri lykt sprautar hann blómailminum.

Enn frekar var mér brugðið þegar ég fór á þetta sama salerni á dögunum til að pissa, þegar skynjarinn sprautaði aftur, ,,pssssssstt"! Og ég var að pissa! Ég hef aldrei heyrt um að ég væri sérstaklega pissfúll!!

1:28 f.h. Ekki vera feiminn

03 febrúar 2005  
Alltaf í blogginu...!
Eins og geðhvarfasjúkur maður hugsa ég um þetta blogg. Þetta er fínt annan daginn, hinn daginn ógeðslega asnalegt....! Vitaskuld hugsa margir skrifarar þetta sama. Ég held að kjánaskapurinn og kjánahrollurinn felist aðallega í þessu orði; ,,blogg"! Mér finnst það alltaf jafnömulegt. Kannski ég tali við Gísla Martein, hann var svo sniðugur þarna í gær með jass-innleiðinguna í stað djass, hann finnur eitthvað frábært.

Svo talaði ég við manneskju í síma á dögunum sem sagðist vera nær daglegur gestur á síðunni. Það kom mér verulega á óvart. Ég held alltaf að það séu bara sömu tuttugu sem lesa. Ég set þær kröfur hér með að fólk sem komi hér við eigi að kvitta fyrir sig í kommentakerfinu. Ég gæti hæglega verið að hreyta fúk- og kúkyrðum í fólk sem eru hér daglegir gestir.

Nokkrir frægir komu í Mál og menningu í dag, eins og endranær. Megas kom með syni sínum og er ég labbaði framhjá þeim, fann ég mikinn daun og ég heyrði hann segja við son sinn ,,...maður á ekki að gera gys að fólki". Strangt uppeldi á þeim bænum. Síðar í dag sá ég Jónas Sen, hann er kúl. Ímynda mér hann alltaf með samuræjasverð innaní frakkanum. Einu sinni hélt ég að textinn í laginu væri; ,,...ég sá mömmu kyssa Jónas Sen"! Bjarni Bernharður fyrrum sakamaður og nú ljóðskáld stendur oft fyrir utan bókabúðina og selur ljóðin sín. Sem er í góðu lagi fyrir utan það að þegar hann öskrar ,,ljóð" þá heyrist mér hann alltaf segja ,,bjór".


11:21 e.h. Ekki vera feiminn

02 febrúar 2005  
Meira rokk, meira slowblow!
Hæ, ég er að horfa á íslensku tónlistarverðlaunin. Helv.. gaman. Kynnarnir fara á kostum. Ég fyllist öryggistilfinningu þegar ég sé Gísla Martein, þá veit ég að maður á von á góðum húmor og engum vandræðalegum augnablikum í beinni útsendingu. Ég hitti Mugison í dag og þegar ég var búinn að pumpa úr honum alla fæðingarsöguna þá spurði ég hann um kvöldið í kvöld, hvort hann væri ekki stressaður, hvort þetta yrði ekki algjört Mugi-fest. Ég lýsti yfir áhyggjum að hann færi að grenja uppí pontu verandi meyr eftir barneign. Hann átti ekki von á neinum ósköpum enda með eindæmum hógvær. Hann sagðist hálfpartinn vona að hann fengi ekki nein verðlaun, fengi frekar svona samúðarklöpp á bakið á barnum á eftir. Þá yrði til svona æst Mugison-fylking sem kepptist við að úthúða alla vinningshafana.

Þetta er akkúrat það sem gerðist með bókmenntaverðlaunin. Þeir sem voru tilnefndir áttu það sannarlega ekki skilið og þeir sem hlutu enga tilnefningu voru hífðir uppá stall. Eitt öndvegisskáld kom á máli við mig um daginn, höfundur sem hefur verið tilnefndur nokkrum sinnum og unnið einu sinni, hann hefur ákveðið að gefa ekki kost á sínum bókum framar í þetta kjör. Öll umræðan væri neikvæð. Sem er alveg satt. Mér fannst mjög merkilegt að hlera frá öllum höfundunum nú um jólin. Stéttin er ekki beint að standa saman eða samfagna neinum að nokkru leyti. Þetta eru allt einhverjar fylkingar; Bjartsklíkan, Jóhanns Páls-klikan og Máls og menningar. Það er ekki lenska að klappa á bakið á næsta manni, frekar að rakka niður. Engin samkennd.

Er þetta ekki bara líka svona í músíkinni. Það þykir ekki flott að vera á spenanum hjá Skífunni, Smekkleysa er krúttvæn, það eru slöpp kóver hjá Sonet og Lalli í 12 tónum er með fyndnari mönnum. Þetta er allt vaðandi í klíkum. Sjálfur er ég náttúrulega hundfúll, aldrei verið tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna. Búinn að bæta mig mjög í trommuleik, tilbúinn að velta Gulla Briem af stalli..nei nei, þá er hætt að veita verðlaun í þeim flokki. Svo er Jan Meyen tilnefndir sem nýliðar ársins... fuss! Er það tilviljun að gítarleikarinn skuli vera sonur Boga Ágústssonar?? Gítarleikarinn í Hjálmum er náinn samstarfsmaður kamerumannanna í sjónvarpinu. Báðir foreldrar Ragnars Kjartanssonar hafa unnið í þjóðleikhúsinu...!

9:11 e.h. Ekki vera feiminn

01 febrúar 2005  
Hér kemur febrúarbloggið...hahaha, djók. Ég blogga aftur!
Sæl og blessuð!
Nú er janúar búinn og febrúar tekur við. Jesús kristur. Hvað tíminn líður hratt! Tíminn líður hratt þegar maður skemmtir sér en janúar var bara ágætur fyrir utan veikindi innan fjölskyldunnar. Stefán Bjartur var frá skóla í tvær vikur. Ég vona innilega að hann hafi ekki misst af einhverju mjög drastísku á leikskólanum. Kannski mun eitthvað sem viðkemur þroska sitja í honum um alla ævi. Bryndís í það minnsta þurfti að sætta sig við að vera eftir á og að vera skilin útundan í hópavinnu vegna fjarveru frá skólanum.

Helgin var annars þrælfín. Borðuðum dýrindiskrásir hjá Bjarnveigu og Gunna á laugardagskvöldinu, en á sunnudaginn fórum við í stúdíóið til Míó. Hljóðverið er tvímælalaust eitt það besta á landinu og heitir gróðurhúsið! Við erum að fara til Lundúna eftir tæpar þrjár vikur og spila þar á hinum víðfræga klúbbi Marquee, einnig munum við spila í beinni útsendingu á XFM í London hjá hinum víðfræga John Kennedy. Einhver kann þá að spyrja; afhverju eru þeir í hljómsveitinni Reykjavík! að fara út, ekki eru þeir víðfrægir, eru þeir svona frábærir? Vandsvarað. Það þekkja okkur fáir, varla við sjálfir.

Tja, sei! Þetta verður viðburðaríkt ár. Ég finn það á mér. Ég sé það í spilunum. Ég sé barneignir hjá vinum mínum, ég sé tónlistarverðlaun og nýfætt barn hjá kynþokkafullum ísfirðingi, ég sé mikla tónlist á Ísafirði um páskana, ég sé brúðkaup, ég sé stórafmæli, ég sé plötuútgáfu, ég sé mikla tónleika í Reykjavík... jafnvel hjá erlendum listamönnum, ég sé sól og hamingju.

8:35 e.h. Ekki vera feiminn

 
This page is powered by Blogger.