This is where you stick random tidbits of information about yourself.
Ég er Kriss og ég er Rokk.
31 maí 2005 Bóas, ísjaki og karaoke!
Bóas hinn óviðjafnanlegi söngvari hljómsveitarinnar Reykjavík! varð faðir hresss 16 marka drengs nú á sunnudaginn. Inga María konan hans var að eignast sitt annað barn, og Kara Lind lítinn bróður. Annars er það að frétta af bandinu og við hyggjum á endurkomu, eftir lægð. Sá gjörningur fer fram í Sirkus-garðinum annan fimmtudag og Skátar eru með...!
Er ekki bara góð stemning? Jú jú, sumarið og svoleiðis. Ég fór í vinnuferð til Eyjafjarðar um síðustu helgi. Vorum á Akureyri á föstudeginum og fórum síðan á laugardeginum til Ytri-Víkur, sem er rétt fyrir utan Dalvík. Meðal annars fórum við á sjóstöng og sigldum meðfram stórum borgarísjaka. Frábær ferð!
Núna á föstudaginn munu Eymundsson í Austurstræti og Mál og menning við Laugaveg eigast við í karaoke á Ölveri. Settar voru upp strangar æfingarbúðir hjá okkur og höfum við staffið staðið sveitt uppá sviði síðustu vikur. Ég leyfi ykkur að fylgjast með hvernig þetta fer allt saman. Hér á myndinni erum við nýkomin af einni æfingunni á Gljúfrasteini til að fá réttan anda yfir okkur, en eins og alþjóð veit voru ófá karókípartí í stofunni á Gljúfrasteini á sínum tíma.
10:01 e.h. Ekki vera feiminn
25 maí 2005 Sumarrass!
Síðustu misseri hef ég farið í Laugar á morgnana mér til heilsuræktunar. Mér líkar það virkilega vel og er allur mun hressari út daginn fyrir vikið. Það er nú ávallt stjörnufans á þeim tíma sem ég stoppa við; ég mæti Dr.Gunna iðulega á leiðinni út, hann er mjög duglegur og vaknar greinilega mun fyrr en ég. Einar Bárðar, Einar K.Guðfinnsson, Jónsi í Sigurrós...nei, djók, í svörtum fötum, Gísli Marteinn og Andri Snær Magnason. Það er eitthvað skrítið að hitta svona fólk undir þessum kringumstæðum, það er engan veginn hægt að vera kúl. Gísli Marteinn var svo langt frá því að vera kúl, gleraugnalaus í stuttbuxum. Það er svosem viðeigandi að sjá hann í stuttbuxum (SUS) en hann minnti mig mjög á Gúmmí-Tarzan. Þó mér líki þetta ágætlega þá er langt í það að þetta verði einhver lífstíll hjá mér. Það finnst mér ógnvekjandi. Á leiðinni úr ræktinni og í vinnuna stoppa ég ansi oft á ljósunum á horni Borgartúns og Sæbrautar. Það er ansi sérstakt móment. Þá sé ég streyma af Sæbrautinni og inní hið nýja Wall-street umhverfi fjölmarga jakkaklædda menn á nýjum bílum. Þetta eru menn sem eru að gera það gott í lífinu, komnir í feitar stöður í bönkunum, eru á glænýjum jeppum og með pelsklæddar konur sínar sér við hlið. Uppskafningar. Úr öllum bílunum sem streyma framhjá mér fæ ég ekki stakt bros, það eru eintómar skeifur. Þarna eru peningarnir að tala. Mér hefur alltaf verið illa við peninga, ég reyni að losa mig við þá strax þegar ég eignast þá. Ég hef til dæmis heyrt að Björgólfur eldri sofi vart fyrir áhyggjum. Hann kann vart aura sinna tal.
Það er einhver meiri sál og bjartara í miðbænum þegar þangað kom. Ég labbaði Bergstaðastrætið og var að koma framhjá Blómaverkstæði Binna þegar Erlingar Gíslason koma þaðan út aðvífandi. Hann var nýgreiddur, ilmandi af rakspíra, var með Morgunblaðið undir höndinni, brauð í poka og rósabúnt. Sólin skein og kaupmenn á Skólavörðustíg að stilla vörum sínum útá stétt. Fallegt eða hvað!?
Ég er að hlusta mikið á hljómsveitina RASS þessa dagana, hún er í miklu uppáhaldi og hefur verið frá því að Óttarr kom til mín með RASS-diskinn til að lána mér fyrir einhverju síðan. Mér finnst hún svo frábær að ég var búinn að gleyma því að hún héti rass og hvað það þýddi. Þannig hef ég gleymt mér og sagt ýmislegt asnalegt uppá síðkastið; ,,..ég dýrka RASS!" og ,,ég er með RASS á heilanum" og svo get ég ímyndað mér að það hafi hljómað hallærislega um daginn þegar ég var staddur í búð með Gumma vini mínum sem er samkynhneigður og spurði hann; ,, náðiru að sjá RASS í gær?"
Hér á kommentakerfinu á undan fór fram örlítil umræða um viðurnefni, já og uppnefni. Stefán okkar þverneitaði að heita því nafni um langa hríð, hann er nýbyrjaður að sættast við það. Þegar við kölluðum á hann leiðrétti hann um hæl og sagðist heita stebbi eða Gebbi eins og hann bar það fram. Stinni Hemm kom með mjög fína útlistun á möguleikum skömmu eftir skírn Stefáns; ef hann yrði þingmaður þegar hann verður stór þá yrði það Stefán B.Kristjánsson, ef hann yrði rithöfundur þá S.Bjartur Kristjánsson, tónlistarmaður Stebbi Kriss og almennur verkamaður þá yrði það Stebbi Kristjáns. Þessi mynd af Stefáni er tekin á Valseyri í Dýrafirði, horft er út fjörðinn og má sjá Sandafellið þarna í fjarska. Myndin var tekin í lok apríl. Kiddý átti fallega og heilbrigða stúlku þann 17.maí, sama dag fyrir ári átti Birna Málmfríður hana Álfrúnu Freyju og Erna Sigrún Snæfríði Lillý og Sunna og Steini áttu Birnu Júlíu þann 18.maí. Við ætlum einmitt að kíkja til Birnu Júlíu í kaffi í dag. Blessað barnalánið!
11:32 f.h. Ekki vera feiminn
16 maí 2005 ,,Pabbi, ég er kominn aftur"! Nú er lífið komið á réttan kjöl aftur. Stefán Bjartur er loksins kominn úr tveggja vikna útlegð. Hann dvaldi hjá ömmum sínum og öfum og frænkum og frændum á Ísafirði meðan Bryndís hefur einbeitt sér að náminu. Þetta er mikilvæg törn hjá Bryndísi, ef henni gengur vel þá er hún sloppin framhjá síunni. Ef svo yrði raunin, sem við vonum, þá er nokkuð ljóst að fjölskyldur okkar fyrir vestan hafa sett lóð sitt á vogarskálar. Ég hinsvegar...ég er nú bara búinn að vera að vinna mikið og reyna að vera ekki fyrir. Neinei, ég er búinn að vera duglegur að stappa stálinu í Bryndísi, klappa á bakið og segja ,,stattu þig stelpa"! Þetta er nú ekki fyrsta skipti sem Stefán er í burtu frá okkur, við höfum verið dugleg að fá aðra til að passa og slíkt. Það er mjög gott að venja börnin á það, Stefán gæti verið nánast hvar sem er í pössun. Nú var hann í tvær vikur, það var alltof langur tími. En þetta er nú reyndar ekki í fyrsta skipti sem við bíðum í tvær vikur til að sjá hann!! (Baráttukveðjur til þín Kiddý!) Það var frábært að sjá Stefán aftur og gott að sjá sælubrosið á andlitinu þegar hann sá foreldra sína í gættinni á hliði nr.1 á Reykjavíkurflugvelli. Okkur brá nú svolítið að sjá Stefán, hann hefur alltaf verið hárprúður og við haldið því við, nú hafði hann fengið þessa fínu herraklippingu á Ísafirði. Ef hún var ekki handverk Villa Valla þá er hún án efa hugverk hans. Hann fór úr Bruce Lee klippingu yfir í David Bowie.
Ég hef síðustu vikuna verið á örlitlu ferðalagi, fór á vegum Pennans austur í Mýrdal. Ég hef ferðast víða um landið og marga fjöruna sopið en aldrei ferðast um suðurlandsundirlendið. Djöfull er það magnað. Undir eyjafjöllum, við Seljalandsfoss, í Skógum, Dyrhólaey og í Reynisfjöru, ég var heillaður útí gegn. Gegnheillaður. Ég ætla að fara þarna einhverja helgina í bráð með fjölskylduna og toga vini mína með. Um helgina fórum við svo með Lambastaðabræðrum í innsveitir Borgarfjarðar, uppí Þverárhlíð. Þeir hafa tekið okkur með þangað síðustu árin og mikið rosalega hefur sú dvöl alltaf góð áhrif á mann. Maður endurnýjast á einhvern hátt við hverja heimsókn. Samt kemur maður alltaf til baka með örlítinn hausverk...! Jæja, ég tók smá pásu og horfði á LOST. Helv.. djöfull að festast í þessu. Þessi þáttur var samt eins og Stella í orlofi, einn farþeginn er eiturlyfjafíkill og fer í gegnum þessa fínu meðferð; flugferð þar sem stélið brotnar í háloftunum, krassa á eyðieyju, eltur af villisvínum og fl...! Mér fannst nú Stella í orlofi aldrei neitt frábær mynd. Eða kannski hef ég fengið of stóran ógeðsskammt af öllum frösunum sem fólk fer með úr myndinni endrum og eins...uhhhh! (rosalega er ég farinn að nota af upphrópunarmerkjum!!!)
9:54 f.h. Ekki vera feiminn
08 maí 2005 Ég heiti Kriss, ég er reikniblindur! Jæja, hér er ég kominn aftur eftir smá fjölmiðlabann. Ég ákvað að setja mig í smá bann, bloggið var alltaf að klúðrast hjá mér, svo var það orðið svo djöfull leiðinlegt. Það hefur nú ekkert lagast. Svo eigið þið flest sem eruð að lesa þetta núna að vera að lesa undir próf en ekki að slæpast á einhverjum aumum bloggsíðum...já, svona tsjútsjú drattist í lærdóminn. Hin verðandi frú Rokk er sveitt heimavið að lesa um kenningar í félagsfræði, bækur Ingvars Sigurgeirssonar og kenningar Gordon um fjölgreindir. Þetta finnst mér allt áhugavert og mun meira spennandi en munnlega prófið í stærðfræði sem Briss fór í um daginn. Guð almáttugur. Ég var alltaf svo vonlaus í stærðfræði, eygði aldrei von um að ná áttum. Sama hvað ég reyndi aldrei gat ég neitt. Ég þjáðist af reikniblindu. Öllu þessu er að kenna ómerkilegri flensupest sem gekk yfir landið 1983, þá lá ég nokkra daga heima og missti af nokkrum stærðfræðatímum. Í sömu viku fór Ingibjörg Þorleifs kennarinn minn í Hnífsdal yfir j-regluna í stafsetningu, sú regla gefur einnig staðið í mér. Ég reyni að komast hjá því að nota "j", ég beygji...beyji....nei, beyi....beygi frá því! Sami stærðfræðilúserinn og ég var hann Stefán Baldursson félagi minn í Menntaskólanum. Við Stefán höfðum meiri áhuga á hvernig ætti að fallbeygja orðið stærðfræði. Fer maður ekki í stærðfræðapróf í stað þess að fara í stærðfræðipróf? Öðruvísi með mig þá lagði hann stund á að læra stærðfræði eftir menntaskóla, hann sá að það var það eina sem hann átti ekki auðvelt með og réðst því í það af fullri hörku. Hann hafði agann sem þurfti.
Á meðan Briss er dugleg að læra reyni ég að vera ekki mikið fyrir eða gera eitthvað gagn. Það er svosem lítið sem ég geri annað en að vinna. Stefbjartur er fyrir vestan hjá fjölskyldum okkar þar. Búinn að vera viku og verður eitthvað áfram. Þetta er erfitt, mikill söknuður. Við feðgarnir fórum fljúgandi föstudaginn fyrir viku, snerum við yfir Ísafjarðardjúpi vegna ókyrrðar aftur til Reykjavíkur og komust svo á leiðarenda í seinni tilraun. Klassískt, því ég er svo mikill aðdáandi flugs. Ég náði nú að gera ansi margt á Ísafirði þrátt fyrir að stoppa varla meira en einn dag. Gerði enga byltingu en fór í skemmtilega fjöruferð með Stefáni í Dýrafirði, borðaði kjötsúpu hjá mömmu, fór í fimmtugsafmæli hjá Reyni frænda og á ball í Krúsinni. Gaman var líka að hitta Birki bróður sem ákvað að skella sér eina helgi frá Danmörku til að hitta vini og ættingja. Við ókum svo saman til Reykjavíkur á sunnudeginum ásamt Einari vini hans.
Líðandi helgi var elegant. Við Steini sleggja gerðum upp pallinn hér í Barmahlíðinni, þrifum hann uppúr sýru og basa, pússuðum með sandpappír og slettum tekk-pallaolíu á hann. Það verður mikið um palla-tíma í sumar. Grill og gourmet. Árangurinn á pallaupplyftingunni verður svo hægt að sjá á heimilissíðum DV næsta föstudag. Steini sleggja reddar málunum. Fyrir helgina hringdi Freysi í mig og bað mig um að tromma nokkur lög í stúdíói fyrir kántrí-prójektið hans sem kallast Sviðin Jörð. Það var mjög skemmtilegt og ég hlakka til að heyra þessa plötu. Þetta eru svona bömmerkántrílummur með niðurdrepandi textum. Lög til að skjóta sig við. Sviðin Jörð, tékkið á því. Mjög hressandi...nei! Við Bryndís vorum svo að koma úr matarboði frá þeim Kiddý og Tóta, dýrindis kvöldstund. Þau hafa staðið í framkvæmdum sem heppnast hafa stórkostlega og eru tilbúin fyrir væntanlega barneign. Glænýtt eldhús, uppþvottavél, barnaherbergi, hreiðrið tilbúið. Ég ætla að leyfa mér að veðja á að þau eignist fallegan og hraustan dreng (þau segjast vita að það sé stelpa, typpið sást ekki í sónar), næsta miðvikudag rétt fyrir hádegi!!
10:42 e.h. Ekki vera feiminn