bryndísar&kristjánsbörn
bryndís stefáns
gunnar hjálmars
elín smára
árný gísla
sigrún bjarna
hálfdán hálfdáns
eiríkur hrafns
karl hallgríms
örn guðmunds
birna guðmunds
kristinn hermanns
steingrímur guðmunds
páll páls
smári karls
grímur atla
vidófjölskyldan
bókabúðin mín
hljómsveitin reykjavík!

Bloggið er dautt og internetið líka. Ég las það á netinu, á einhverri bloggsíðunni!


























 
Archives
<< current













 
This is where you stick random tidbits of information about yourself.



























Ég er Kriss og ég er Rokk.
 
31 desember 2005  
Tvöþúsundogfimm var gott ár, takk fyrir samveruna.

Tímamótaár myndi ég segja. Ég átti fjölmargar, yndislegar stundir með fjölskyldu og vinum. Við Bryndís og Stefán og flestir okkar nánustu ættingjar og vinir við ágæta heilsu. Það ber að þakka.
Á Sony geislaspilaranum mínum er hægt að ýta á high-peak takka og heyra hvar diskurinn rís hæst. Hér eru high-peak stundablik í mínu lífi 2005, samkvæmt vefdagbókinni:
janúar; kvef og heilsuleysi hjá fjölskyldunni, lítið annað merkilegt.
febrúar; keypti árskort í líkamsrækt og hef frá því lést um 15 kg. Hljómsveitin Reykjavík! fór í vel heppnaða tónleikaferð til Lundúna og Brighton.
mars; hlaup mín í ræktinni með hljómsveitina RASS í eyrunum það helst eftirminnilegasta. Svo var það náttúrulega Aldrei fór ég suður.
apríl; tók þátt í afmæli meistara Megasar, með því að halda litla veislu í Máli og menningu og spilaði á tónleikum honum til heiðurs.
maí; fór í skemmtilega vinnuferð til Eyjafjarðar, Kiddý vinkona átti dóttur, Bóas átti strák.
júní; vinir mínir glöddu mig eftirminnilega þann 04. júní, gekk að eiga Bryndísi á stórkostlegasta degi ársins í faðmi vina minna og fjölskyldu, varð þrítugur.
júlí; var í fríi á Ísafirði og fór í brúðkaup Smára Spekt og Sigríðar. Fór á tónleika með Antony and the Johnsons.
ágúst; spilaði á Innipúka, Krúttinu, fór vestur í brúðkaup Hála og Dóru. Stefán Bjartur átti afmæli daginn eftir það brullaup.
september; skemmtileg bókmenntahátíð, mikil og góð bókaútgáfa í kjölfarið, Paul Auster kom í heimsókn.
október; eyddum miklum tíma í stúdíóinu hjá Valgeiri við að taka upp fyrstu plötu Reykjavík!, spiluðum á Airwaves, fór í brúðkaupsferð til Berlínar.
nóvember; Fór á tónleika með White stripes og Sigurrós.
desember; Bryndís varð þrítug og við héldum skemmtilega veislu, fórum á jólahlaðborð og í leikhús. Jesús átti afmæli, héldum uppá það litla fjölskyldan saman ein, í Reykjavík ekki á Ísafirði. Það var notalegt.

Auðvitað gerðist margt fleira skemmtilegt. Þetta var helvíti fínt ár. Ég segi bara takk fyrir mig.
Áramótaheit? Jú, látum árið 2006 vera jafn eða meira skemmtilegt!

4:08 e.h. Ekki vera feiminn

 
Hvar á maður að kaupa flugeldana!
,,Við kepptum í hundruðum kappleikja á árinu, skoruðum böns af mörkum, unnum reyndar enga titla, keyptum dýran þjálfara frá Noregi, eyðum ógisslega miklum peningum til að ná árangri en lítið hefur gengið. Með því að kaupa flugelda frá okkur getum við kannski keypt betri leikmenn, kannski alla góðu mennina í hinum liðunum. Við erum KR".

3:16 e.h. Ekki vera feiminn

28 desember 2005  
Reykjavíkurnætur.
Á aðfangadagskvöld þegar kirkjuklukkurnar hringdu inn hátíðina klukkan 18.00 í útvarpinu var ég að hjálpa Stefáni að taka til í dótinu sínu, Bryndís var að þurrka af bókahillunum inní stofu þegar ein hansahillan losnaði og bækurnar hrundu yfir hana. Ég hljóp til og greip nokkrar bækur og við náðum að stoppa hillunam áður en stórskaði hlytist af. Þetta var örugglega eitthvað hint! Hvað þetta þýðir veit ég ekki. Bókaflóð inní stofu hjá mér kl.18 á aðfangadagskvöld. Úr flóðinu greip ég m.a. Flóttann eftir Sindra Freysson. Mér áskotnaðist hún í haust, ég er ekki búinn að lesa hana. Ætli hún sé ekki góð? Hún gerist á mínum heimaslóðum.

Reykvíkingar eru minntir á að þeir búa í stórborg. Þessi setning er haft eftir einhverjum ráðamanni í útvarpinu eftir að tveir eiturlyfjasjúklingar létust á heimili sínu við Hverfisgötu á jóladag eftir ofneyslu heróíns. Fólk í eiturlyfjaheiminum fer ekki varhluta af góðærinu, fólkið sem lést hafði boðið nágrönnum sínum að kíkja yfir í heróín sama dag! Jú, eiturlyfjavandinn er sannarlega til staðar í smábænum Reykjavík en ætli að það sé ekki hægt að ráðast til atlögu gegn dópruglinu í ekki stærra samfélagi? Ég trúi því algjörlega að eitthvað liggi meira á bakvið; spilling eins og í stórborgunum. Það kæmi einhverjum valdamönnum illa ef eitthvað róttækt yrði gert. Til dæmis kom það bersýnilega í ljós þegar Grímur Atlason, sem marga fjöruna hefur sopið í þessum "efnum", skrifaði í blöðin að úrlausnir vantaði fyrir þessa tegund sjúklinga. Hann talaði þar um vöntun eftirmeðferðar, sjúklingarnir færu aftur og aftur í meðferð en hittu svo alltaf sama fólkið og dyttu á endanum aftur í ruglið. Fyrir þessi litlu skrif hlaut Grímur hótanir í blöðum og var kallaður ljótum nöfnum. Greinilegt að menn eru búnir að koma sér vel fyrir í sætum sínum í þessum meðferðargeira.

Menn keppast um að tala illa um Hringbrautina, hið mikla skipulagsslys. Mér finnst hún frábær. Ég bý í 105 og að ferðast til vina minna sem búa í vesturbænum er hægðarleikur eftir þessar breytingar. Þessar slaufur við Snorrabrautina eru mjög lógískar þegar maður lærir á þær en ég hef vissulega klúðrað málunum þar. Þetta er nefnilega lífæðin milli bæjarhlutana. Þeir sem væla hve hæst um þetta eru þeir sem þurfa ekkert að nota brautina, vilja bara labba um borgina sína. En sömu aðilar hafa áreiðanlega aldrei labbað um þetta svæði. Nú á dögunum labbaði ég frá Stúdentakjallaranum og heim í Barmahlíðina og ég var eldsnöggur að því og var aldrei nálægt bílaumferð. Frábærar þessar stóru göngubrýr. Ekki skemmdi fyrir að þegar ég var á miðri göngubrúnni yfir Njarðargötu sá ég allt í einu ljós birtast að himni ofan; stórglæsileg Fokker 50 var að lenda á flugvellinum okkar. Ég var akkúrat í beinni línu við flugbrautina. Þetta var stórkostleg upplifun í fallegu veðri seint á vetrarkvöldi.

Halldór Ásgrímsson reynir að klára í bakkann, maður fólksins vill ekki að kjaradómur hækki laun þingkjörinna. Hann reynir að líta vel út, veit hinsvegar ekkert hvað hann er að gera. Veit einhver hvað hann er að gera þarna?

Akureyringar eru slegnir yfir því að Guðmundur frá Rifi sé að flytja allan fiskinn úr Eyjafirði. Þeir vilja meina að landvinnslan leggist niður. Þegar Guðmundur keypti þetta allt var Kristján bæjarstjóri hundfúll, sá sami sem fullyrti oftar en einu sinni á sínum tíma að Guðbjörgin færi ekki frá Ísafirði þegar Akureyringar keyptu hana. Þar kom vel á vondan sögðu gárungarnir þá. Ég ætla ekki að segja að þetta sé gott á Akureyringa en það má fara minnka vægi ráðamanna sem koma frá Akureyri. Það er meira en Akureyri og Reykjavík. Allir á Rif, þar eru stuðið. Hvað kallast fólk frá Rifi? Rifverjar? Ribbarar..?

10:14 e.h. Ekki vera feiminn

25 desember 2005  
Hátíð í bæ!

Stefán Bjartur Kristjánsson pollrólegur þegar klukkan sló 18.00 í gær.

Gleðilega hátíð kæru vinir og þið öll sem þetta lesið. Við Bryndís og Stefán áttum yndislegt aðfangadagskvöld saman. Í fyrsta skipti vorum við ein saman og ekki á Ísafirði þar sem við eigum foreldra okkar. Borðuðum hina rómuðu sjávarréttasinfóníu í forrétt, fyllta kalkúnabringu með döðlum og beikoni, heimagert rauðvín með og heimagerður ís á eftir. Allir voru duglegir að borða og allir fengu góðar gjafir. Yndisrosalegt. Mér tókst næstum því að gleyma tilhugsuninni um að lenda á Ísafjarðarflugvelli um hádegi á aðfangadegi og sækja messu í Hnífsdalskapellu kl.18.00. Næstum því.
Það var ekki laust við það að fjölskyldan hafi verið þreytt eftir pakkaflóðið og matinn. Við vorum ekki lengi að sofna. Allir skulduðu svefn eftir annríki síðustu daga. Jólin hjá okkur í bókabúðinni voru stórkostleg. Gekk rosalega vel, mikið að gera og alltaf jafn mikið af skemmtilegum viðskiptavinum. Á þorláksmessu var svo mikill troðningur hjá okkur að ég átti bágt með að komast yfir götuna til að fara á Grand rokk. Já, hvern fjárann var ég að fara á Grand rokk á Þorláksmessu? Nú, til að spila í partýi hjá Kiefer Sutherland. Ég var á fullu við að fylla á bókastaflana en var svo kallaður yfir á Grand rokk um kl.20.00 til að spila rokk. Fór þá úr hvítu skyrtunni og tók bindið af mér og beint í rokkgallann. Kiefer var upprifinn að heyra að þrír meðlimir úr hljómsveitinni hafi frestað för sinni til Ísafjarðar til að spila í partýinu. Það sem Kiefer veit ekki er að tveir af þeim komust ekki vestur í gær til að halda jólin með fjölskyldum sínum, það var ófært með flugi. Ég hamaðist á trommusettinu í góðan hálftíma, kinkaði kolli til Kiefer á leiðinni út og ruddi mér svo leið yfir í Mál og menningu. Eftir að ég hafði þurrkað mestan svitann og var kominn í bóksalagallann fór ég beint í að aðstoða með jólagjöf fyrir áttræða konu sem hafði kennt í húsmæðraskóla. Auður Eir þótti borðliggjandi.

2:49 e.h. Ekki vera feiminn

17 desember 2005  
Jólatónaflóðið í jólabókabúðinni!
Bókabúð Máls og menningar um helgina
Laugardagur 17.12.05:
Kl.14.30 BRYNHILDUR and the BBQ´s
Kl.15.00 MUGISON
Kl.16.00 HJÁLMAR
Sunnudagur 18.12.05:
Kl.14.00 KRISTINN SIGMUNDSSON og JÓNAS INGIMUNDARSON
Kl.15.00 KK & ELLEN
Kl.16.00 SÓLVEIG SAMÚELS

kíkið í miðbæinn og fáið jólastemninguna beint í æð. Gleymið svo ekki að kíkja til okkar í bókabúð allra landsmanna!

Sláandi tíðindi!

Benni Hemm Hemm heldur jólatónleika í Stúdentakjallaranum í kvöld, kl.22.00. Hann tekur hljómsveitina Reykjavík! með sér í stuðið og leyfir þeim að spila með.
Benni Hemm Hemm er ekki bara frábær gaur heldur frábær hljómsveit sem er með bestu íslensku plötu ársins.
Reykjavík! er ekki bara höfuðborg Íslands heldur klikkuð hljómsveit . Hljómsveitin er rekin með miklum halla alveg eins og borgin. Reykjavík! hefur ekki gefið út plötu...ennþá!

11:28 f.h. Ekki vera feiminn

13 desember 2005  
Leikur einn!

Hann Eyvindur P.Eiríksson er sjötugur í dag. Eyvindur er geysiskemmtilegur kall og mikið gæðablóð. Hann hefur oft komið til mín í heimsókn í bókabúðina og nú síðast kom hann til mín í gær og við drukkum saman kaffi á Súfistanum. Það er nefnilega svo með hann Eyvind að það er svo glettilega gott að ræða við hann málin, maður getur talað við hann líkt og jafnaldra. Hann er á sama plani. Hann og Erpur og Eyjó eru meira eins og vinir en feðgar. Eitt sinn sagði ég honum að ég væri með hljómsveit sem sérhæfði sig í finnskum tangó, hann var mjög hrifinn, þekkti finnska tangóinn vel og hafði eitthvað átt við að þýða texta við þekkta tangóa. Eftir góðan tíma birtist hann á gólfinu í bókabúðinni og gaf mér þýðingu á laginu Saatuma; ævintýralandið. Það var afbragðsþýðing. Við spjöllum oft um heimahagana eins og gefur að skilja. Hann eyðir sumrum í Arnardal í Skutulsfirði án rafmagns og hjólar í kaupstað eftir kosti. . Við vorum að tala um Hnífsdælinga í gær og það þótti mér stórmerkilegt að sögur hans af sínum kynnum þaðan í æsku mátti bera saman við mína kynslóð í Hnífsdal. Það var líkt og við værum að tala um sama fólkið, það hét bara öðrum nöfnum. Í minni útgáfu hétu hrekkjusvínin Deddu-púkar en hjá honum synir Stebba hnífs..eða eitthvað svoleiðis.

Á bókmenntakvöldi á Hótel Ísafirði árið 1996 var hann að lesa upp og hafði hitt mig einhverju fyrr og beðið mig um að tromma undir lestri sínum á téðu kvöldi. Ég átti að mynda hjartslátt undir miklum og taktföstum kvæðabálki undir heitinu "Hakk". Þetta var nú ekkert annað en rapp hjá kallinum. Þetta gerði ég að sjálfsögðu fyrir kallinn og mætti með stóra konga-trommu og allt kom þetta vel út. Í hléinu, eftir að ég hafði troðið upp kom til mín annar höfundur sem var líka að lesa upp í þessari dagskrá og sagði; ,,trommar þú ef ég syng?". Ég svaraði af bragði að það væri líklegast heppilegra en að ég syngdi og viðkomandi myndi tromma. Það varð úr að höfundurinn var kynntur á svið eftir hlé og ég kynntur sérstaklega til leiks. Höfundurinn minntist aldrei á hvað skyldi sungið, setti sig bara í stellingar og blikkaði mig þegar ég átti að telja í. Ég henti mér í einhvern takt og höfundurinn hóf raust sína af miklum glæsibrag.
Hvert er skáldið?

10:12 e.h. Ekki vera feiminn

11 desember 2005  
Hver er höfundurinn?
Um helgina komu til okkar fjölmargir höfundar í heimsókn. Þeir ráfuðu um og spjölluðu við viðskiptavini, afgreiddu á kössunum, pökkuðu inn, árituðu og margt fleira. Þannig mátti sjá Hallgrím mæla með bók fyrir þrettán ára stúlku, Sjón segja til hvar bílablöðin væru, Vilborgu Davíðs pakka inn Hugleiksbók sem jólagjöf, Auði Eir og Eddu Andrésar hlaupandi um alla búð leitandi af suður-amerískum matreiðslubókum. Þetta er uppátæki sem við hófum að bjóða uppá fyrir fjórum árum. Rithöfundar afgreiða; þá eru höfundar ekki að koma gagngert til að árita, sem getur verið mjög pínlegt, eða að lesa upp. En þeir geta gert hvort tveggja fyrir utan að afgreiða bækurnar oní poka.
Fyrir síðustu jól var ég að falast eftir höfundum til þess að "afgreiða", og fékk ég skemmtilegt svar frá einum höfundi sem var þá með skáldsögu:

Já, ég skal mæta svo framarlega að gengið verði að eftirtöldum skilyrðum:

A. Ég fái ókeypis kaffi og ábót.
B. Tryggt verði að Arnaldur hlæi ekki að mér.
C. Ungum drengjum verði ekki sérstaklega beint til mín.
D. Enginn segi við mig: ég man eftir þér, ert þú ekki Randver Þorláksson.
E. Fólk fari ekki að apa eftir göngulagi mínu (sem er frekar vaggandi, þetta er erfðagalli).
F. Þeir sem kaupi bókina mína verði ekki stoppaðir af og lamdir í klessu.
G. Hinir rithöfundarnir mæti ekki með heillandi gæludýr, svo sem talandi páfagauka.
H. Ég fái að komast á salernið á a.m.k. þrisvar, einu sinni til þess að gera nr. 1 einu sinni til þess að gera nr. 2 og einu sinni til þess að þvo mér um hendurnar.

Hver er þessi höfundur?

(svarið fékk ég í tölvupósti og er ég því hugsanlega að brjóta lög. Þetta er nú samt voða saklaust og varla meiðandi fyrir hlutaðeigandi.)

6:09 e.h. Ekki vera feiminn

08 desember 2005  
Á Grand Rokki má finna margt fleira en vonda lykt!
Úrkynjuð aðventa á Grandrokk með Reykjavík! Hairdoctor og Ben Frost.
Föstudagskvöldið 9. desember næstkomandi mun stórmerkilegur viðburður eiga sér stað á öl-kránni Grandrokk við Smiðjustíg í miðbæ Reykjavíkur, en þáleiða saman hesta sína ansi máttug öfl úr íslensku og alþjóðlegumenningarlífi og keyra saman kollum svo úr verður mikill og listfenginnárekstur. Um er að ræða tónleika sem hefjast um kl. 23oo, en þar koma fram:
Ben Frost-Hairdoctor-Reykjavík!Milli laga munu svo fræknir fulltrúar Nýhil-samsteypunnar kynna nýja ljóðaseríu sína, Norrænar bókmenntir. Ekki er þó verið að slá í neitt ljóðakvöld, heldur munu rokk og rólegheit skiptast á eins og skin og skúriryfir gervallt kvöldið, sem hlýtur að ljúka með trylltum ölæðisdansi.Miðaverði á þessa hljóðveislu er stillt mjög í hóf, aðeins kostar 500 krónurinn, þrátt fyrir að engu sé til sparað við að gera þá sem glæsilegasta úr garði (m.a. með notkun hágæða hljóðgerfla, gervisnjávar, reykvélar og rauðrafiltspjalda).
Ben Frost
Drengurinn með fínu klippinguna, Ben Frost – eða Frosti eins og hann er stundum kallaður – er fæddur og uppalinn í Ástralíu en elur manninn í Reykjavík þessa dagana og lætur vel af. Hann hefur á sínum 27 árum víða getið sér góðs orðs fyrir eigin tónsmíðar, mikla færni í hljóðupptökum og síðast en ekki síst endurhljóðblöndunarhæfni sína, en Frosti hefur fitlað við lög margra þekktra tónlistamanna. Þessa dagana starfar hann samhliða Valgeiri Sigurðssyni í Gróðurhúsinu milli þess að hann vinnur að eigin tónsmíðum – en í þeim má m.a. heyra óm af Swans, Cure (c.a. Pornography) og jafnvel Joy Division. Á föstudaginn má heyra forsmekk af væntanlegri plötu hans, „Theory of machines“, en áætlað er að hún komi út árið 2006. Þess má geta að góður rómur var gerður af framkomu Bens á Airwaves hátíð haustsins.
Hairdoctor
Að búa til tónlist er góð skemmtun. Þetta veit Hairdoctor. Þess vegna er fyrsta plata Hairdoctor, Shampoo, kominn í allar betri hljómplötuverslanir landsins svo að þú, hlustandi góður, getir notið fyrsta flokks skemmtunar í formi tónaflæðis hvenær sem þér hentar. Jón Atli (sem hingað til verið hvað mest áberandi á tónlistarsviðinu sem plötusnúður og bassaleikari – hefur spilað með fjölda listamanna hér á landi, allt frá hip hop sveitinni Forgotten Lores yfir í Bang Gang en lengst af var hann þó í rokkhljómsveitinni Fídel) og tæknitröllið Árni "PlusOne" gera Hairdoctor að því sem hann er í dag – svölum gaur sem veit hvað hann vill og gerir þar að auki fína tónlist sem helst væri hægt að lýsa sem lo-fi poppi með taktföstum tölvutónum.
Reykjavík!
Hljómsveitin Reykjavík! hefur vakið talsverða athygli í það eina og hálfa ársem hún hefur starfað, enda þykir sprengikraftur hennar á sviði magnaður(svo mjög að sumum þykir nóg um). Á stuttri starfsævi sveitarinnar hefur hún afrekað ýmislegt, m.a. að koma fram við góðan róm á Aldrei fór ég suður, Innipúkanum og tvennum Airwaves-hátíðum, afdrifaríka ferð til Lundúna og Brighton á vegum hinnar þarlendu Xfm útvarpsstöðvar og vefritsins drownedinsound.com og svo eignaðist líka söngvarinn Bóas fallegan pilt,Dalí, ásamt henni Ingu sinni. Um þessar mundir vinnur Reykjavík! að hljóðversfrumburði sínum í samstarfi við hinn kynngimagnaða ValgeirSigurðsson, en útgáfa hans er áætluð snemma á næsta ári.

11:27 e.h. Ekki vera feiminn

05 desember 2005  
Bárður fullur!
Bryndís mín átti afmæli í gær og við héldum uppá það á laugardagskvöldið með því að fara á Lækjarbrekku og borða góðan mat og síðan í Hafnarfjarðarleikhúsið að sjá gott leikhús. Það rættist úr því. Við borðuðum góðan mat á Lækjarbrekku og drukkum Shiraz með (Merlot er fyrir vanvita), þar sem leiðin lá suður til Hafnarfjarðar og við búin að staupa okkur urðum við að kvabba á vinum okkar. Núna liggur við að ég þurfi að hætta að blogga því upp gaus bráðamengun við heila. Ég fékk lagið "Ég held ég gangi heim.." á heilann. Þetta bévítans lag er óafturkræft umhverfisslys! Verra en Kárahnjúkar. Takk Valgeir Guðjónsson!
En þegar hér er komið við sögu þá fengum við Gumma til að keyra okkur á okkar bíl sem við höfðum lagt í grennd við MR. Við hlupum af Lækjarbrekku og hittum Gumma á bílastæðinu en þar var bíllinn okkur fastur inni þar sem tíu bílum hafði verið lagt á miðju bílastæðinu. Bílarnir komst hvergi. Jón Þór kom aðvífandi til bjargar sem oft áður á Lödu Sport 2002 með litaðar rúður og ók okkur á ofsahraða beint til Hermóðar og Háðvarar.
Þar beið okkur Himnaríki. Eftir Árna Ibsen. Árni er pabbi Þóru Karítasar. Ég ætla að vona að Árni sé góður til heilsunnar. Hann veiktist á dögunum. Sýningin er mjög skemmtileg. Gestir þurfa að skipta um sal í hléi, sjá sömu sýningu frá tveimur hliðum. Inní og fyrir utan sumarbústað. Frikki er frábær leikari og Guðlaug Elísabet var mjög skemmtileg. Við Bryndís vorum sammála um það að Jóhann Jóhannsson væri búinn að brenna brýr að baki sér með því að leika í Stundinni okkar. Það var erfitt að horfa uppá hann blindfullan í Himnaríki og daginn eftir í bláum spandex-galla að skemmta þriggja ára syni okkar. Þeir eiga þetta sameiginlegt Jóhann og Gunnar Helgason, en Gunnar sá ég einmitt fyrir fáeinum árum í Sölku-leikgerð í Hafnarfirði. Gott að hann hafi ekki leikið Arnald. Hann var ekki sannfærandi. Maður beið eftir að Felix birtist á sviðinu honum við hlið og þeir brytust í söng.
Óneitanlega fer maður að hugsa hvort ég sé á góðri leið með að skemma fyrir sjálfum mér. Hressi Penninn-Eymundsson kallinn. Get aldrei orðið svona hljómsveitartöffari eins og strákarnir í Singapore sling. Verð aldrei tekinn alvarlega í pólitík. Sölumannshæfileikum mínum er mætt með hlátri. "Hey..áttu gatara, hehehe"! "Þadna...Kate Moss...eitthvað, hahaha"!
Svo vinn ég ekki einu sinni í Eymundsson.

9:33 e.h. Ekki vera feiminn

02 desember 2005  
Hverjir verða hvar um helgina?
Laugardagur 03.des.
Kl.14.00 Töframaðurinn Jón Víðis kynnir Töfrabragðabókina
Kl.14.30 Aðalsteinn Ásberg flytur efni úr Romsubókinni og tekur lagið
Kl.15.00 Sigrún Edda kynnir myndasöguna Rakkarapakk
Kl.15.30 Útgáfan Stílbrot kynnir bókina Tröllafell og tölvuleik á netinu sem henni fylgir
Kl.16.00 Skoppa og skrítla koma í heimsókn
Einnig verða höfundarnir Kristín Helga, Ragnheiður Gestsdóttir, Halldór Baldursson og Gæludýra-Guðrún á staðnum milli kl.15.00-16.30.

Kl.16.30 Stórsveit Baggalúts spilar sveitó tónlist.

Sunnudagur 04.des.
Dagurinn verður tileinkaður ljóðinu í Bókabúð Máls og menningar við Laugaveg 18.
Ljóðabókaútgáfa ársins verður í forgrunni og ljóðskáldin mæta á staðinn, spjalla við viðskiptavini, lesa upp úr bókum sínum og árita.
Boðið verður uppá kakó og piparkökur.
Dagskráin stendur frá kl. 15.00 - 17.00 og þeir sem taka þátt eru m.a.:
Halldóra Kristín Thoroddsen með bókina Gangandi vegfarandi
Haukur Már Helgason með bókina Rispa jeppa
Þorsteinn frá Hamri með Dyr að draumi
Óttar Norðfjörð með Gleði og glötun
Kristjan Guttesen með Litbrigðamyglu
Sölvi Björn Sigurðsson með Gleðileikinn djöfullega

- þetta er nú ekki blogg, Kriss minn Rokk!
- Já, nei ég veit. Þetta er bara auglýsing.
- Þú verður nú að fara skrifa eitthvað gáfulegt eða sniðugt.
- Já, ég gæti skrifað um bækur eða um borgarskipulag. Hringbrautina kannski?!
- Tjaahh. Skrifaðu frekar eitthvað sniðugt.

12:36 e.h. Ekki vera feiminn

 
This page is powered by Blogger.