This is where you stick random tidbits of information about yourself.
Ég er Kriss og ég er Rokk.
31 október 2007 Miðvikudagur - hádegismatur
Það er miðvikudagur og klukkan er orðin 12.30. Það er hádegishlé og tveir menn hafa mælt sér mót á veitingastað, veitingastaðurinn er á Ísafirði.
Réttur dagsins er íslensk kjötsúpa og heimabakað brauð, með þessu er boðið uppá ískalt vatn í könnu. Kjötsúpan er með alvörubragði, troðfull af gómsætu grænmeti, kartöflum og kjötbitum. Hún er unaðsleg. Brauðið er hálfvolgt, er á brauðbretti undir yfirbreiddu viskustykki. Með brauðinu er boðið uppá íslenskt smjör. Í útvarpinu er Rás 1 á þægilegum styrki, dánarfregnir og jarðarfarir nýafstaðnar og við tekur þátturinn Vítt og breitt sem býður uppá fræðandi afþreyingu með vangaveltum, spjalli og tónlist. Mennirnir ræða um daginn og veginn; menningu og listir, stjórnmál, kaupin á eyrinni og veðrið.
- - - - - - - - -
Það er miðvikudagur og klukkan er orðin 12.30. Það er hádegishlé og tveir menn hafa mælt sér mót á veitingastað, veitingastaðurinn er í Reykjavík.
Réttur dagsins er Indversk gulrótarsúpa og speltbrauð, með þessu er boðið uppá volgt vatn með sítrónusneiðum oní. Gulrótarsúpan er með fersku basil og kóríander. Speltbrauðið er frá Hatting, hitað í örbylgju og borið fram með grænu pestói. Pestóið inniheldur kóríander. Í hljómtækjunum er verið að blasta Bylgjunni, Ívar Guðmunds er bjartur og brosandi og býður uppá óskalög. Við honum tekur Rúnar Róberts, hann býður uppá bestu tónlistina og létt spjall á mannlegu nótunum. Mennirnir tveir geta lítið spjallað vegna hávaðans frá Bylgjunni en geta þó rætt lítillega um leikina í meistaradeildinni.