Viltu ísbjörn?
Vorið 1992 var ég í 1. bekk Menntaskólans á Ísafirði og tók þátt í starfi Leikfélagsins. Örn Ingi Gíslason leikstjóri frá Akureyri var fenginn til að leikstýra hópnum og það endaði nú svo að hópurinn bjó til leikverk í stað þess að finna handrit. Leikverkið fjallaði um skemmtanalíf landans frá landnámi til þess dags og hét Maður er manns gaman. Þetta var mjög skemmtilegt og leikhópurinn var mjög fjölmennur. Við fórum m.a.s. í frægðarför til Akureyrar með verkið og sýndum fyrir hálffullu/hálftómu húsi Verkmenntaskólans á Akureyri.
Um vorið fórum við í æfingarbúðir inn í Engidal, æfðum ýmsar listir, borðuðum og sungum saman og sváfum tvær nætur ef ég man rétt. Á laugardagskvöldinu héldum við veislu og buðum skólameistara vorum Birni Teitssyni til veislunnar. Allir lögðu hendur á plóg og úr varð glæsileg veisla. Ekki man ég nákvæmlega hvað var í matinn, minnir að það hafi verið kjúklingur en ég man greinlega að í eftirmat var rjómaís borinn fram með lakkrísreimum. Allir voru saddir og sælir og margar skemmtilegar sögur voru fluttar við borðhaldið og þónokkrir brandarar fengu að fljúga.
Ástæða þess að ég pára þetta hér er að einn brandarana sem var sagður var mjög fyndinn. Ekki af því að hann hafi verið innihaldsríkur og standi tímans tönn. Þvert á móti er hann engan veginn fyndinn. En hann var fyndinn þarna vegna þess hver sagði brandarann, hvernig hann var fluttur og við hvaða tilefni. Það var hinn mikli sögumaður Björn Teitsson sem lét brandarann flakka og gerði hann það um leið og eftirrétturinn var borinn fram. Þá sagði hann; ,, ... nú væri tilvalið fyrir eitthvert ykkar að spyrja mig, viltu ís Björn?".
Þetta var mitt framlag til ísbjarnarbloggs.