Reykjavík! - THE BLOOD Hún er komin út! Þessi plata sem er full af blóði, svita og tárum. Platan sem á að fylgja eftir frumburðinum árið 2006, hún á að vera þroskaðra verk, átti að vera mun melódískari og léttari en á miðri leið varð hún að einhverju allt öðru. Hún varð að skrímsli.
Þarna sjáið þið hulstrið, eða réttara sagt hulsuna utan um plötuna. Hún er úr sandpappír. Til að ná sem bestum áhrifum úr tónlistinni mælum við með því að sandpappírshulsunni sé nuggað í andlit hlustandans á meðan hlustað er. Við handlékum hvert eitt einasta eintak, skárum út sandpappír, brutum saman, heftuðum, máluðum, brutum saman vasann sem platan er í, textablaðið og settum allt heila klabbið í plastvasa. Eftir að hafa handleikið milli 1-2.000 eintök af sandpappírshulsunum er hljómsveitin fingrafaralaus og getur auðveldlega framið glæpi.
Þessi mynd er framan á textablaðinu. THE BLOOD er tilvísun í blóðtengsl, fjölskylduna, vinina og alla þá sem gerðu plötuna að veruleika. Platan er tekin upp í sama herbergi, mixuð og masteruð. Frá fyrstu innítalningu fram að síðustu fíniseringu í sama herbergi.
Fyrstu tónleikarnir okkar eftir formlega útgáfu er á næsta laugardag, að Smiðjustíg 4a, í æfingarhúsnæðinu okkar. Með okkur verða Sudden weather change og Hugleikur Dagsson. Tónleikarnir verða kl. 16-18. Aðgangur ókeypis.