bryndísar&kristjánsbörn
bryndís stefáns
gunnar hjálmars
elín smára
árný gísla
sigrún bjarna
hálfdán hálfdáns
eiríkur hrafns
karl hallgríms
örn guðmunds
birna guðmunds
kristinn hermanns
steingrímur guðmunds
páll páls
smári karls
grímur atla
vidófjölskyldan
bókabúðin mín
hljómsveitin reykjavík!

Bloggið er dautt og internetið líka. Ég las það á netinu, á einhverri bloggsíðunni!


























 
Archives
<< current













 
This is where you stick random tidbits of information about yourself.



























Ég er Kriss og ég er Rokk.
 
27 desember 2003  
Komið fagnandi, að skjánum, því ég boða yður nýtt blogg!
Það er verst hversu slappur ég er við skrifin, þvílíkar hugmyndir sem poppa uppí hugann daga og nætur, leka svo því miður útum nefið á mér við fyrstu fráöndun. Bókavertíðin var ágæt. Frábært að hugsa til þess hversu margir halda tryggð við bókabúðina okkar, á Laugavegi 18! Hún er nú bara einfaldlega best! Er aldrei auglýst, laus við allan rembing, hún bara stendur styrkum fótum með fólkinu innan borðs! Það er samt ekki laust við blendnar tilfinningar eftir þetta haust, það blundar eitthvað inní mér, eitthvað sem kallar á breytingar...!

Djöfull var gaman á útgáfutónleikunum, sem voru fyrir viku síðan. Ég er ofsalega ánægður með plötuna, eins og margir aðrir greinilega, og er stoltur að hafa tekið þátt í þessu. Ég hlakka til að takast á við nýtt ár og vonast til að rokkið lifi.

Á leiðinni heim til mín, á þorláksmessu, kom uppí huga mér krassandi samsæriskenning, hún hljóðar svo; Robertino er ekki til. Tónlistin á plötunni "Robertino:Það allra besta" er einungis upptaka á Engilbert Humperdink spiluð aðeins hraðar, þannig að söngurinn verður áttund ofar. Myndin á hulstrinu er svo bara fermingarmynd af Óttari Felix Haukssyni. Þar hafið þið það!

Mig langar að geta þess að mér leiðist Ingvar E.Sigurðsson, af hverju í fjandanum leikur hann í öllum íslenskum bíómyndum? Eigum við ekki fleiri leikara? Í ljósi þessa, þverneita ég að sjá myndina Kaldaljós!

Við Bryndís og Bjartur erum á Ísafirði í endurhæfingu og erum að blómstra, í bókstaflegri merkingu. Við biðjum að heilsa öllum og óskum ykkur gleðilegrar hátíðar.
Birkir, takk fyrir sendinguna og kærar kveðjur til fjölskyldunnar. Önnur sending til þín er innan seilingar, en Stóri hvellur náði ekki í jólapakkann um daginn.

Líklegast var þetta næstsíðasta færslan á árinu, því sjá, ég boða yður annað blogg! Þangað til næst...

5:11 e.h. Ekki vera feiminn

17 desember 2003  
Svo mörg voru þau...
Jú, komið þið sæl. Staðan er nú bara þannig að maður er bara ekkert að fara í tölvuna þegar maður kemur heim. Maður vill helst sinna heimilinu og fjölskyldunni þegar maður kemur úr vinnu. Annars er það nú þannig að við Bryndís erum í hálfgerðu boðhlaupi flesta virka daga, hún fer í vinnu um leið og ég stimpla mig út og við köstum Bjarti á milli.
Það hefur hinsvegar verið nóg um að skrifa, en ég hef ekki notað tækifærið. Hannes Hólmsteinn hélt partí í bókabúðinni, ég var algjörlega á móti því. Ekki útaf því að hann er viðbjóður, ekki af því að bókin hans sé slæm, ekki útaf því að hann seldi RÚV-fíflum laxnessþáttinn á dögunum, þáttinn sem hefði átt að heita Hvar er Hannes! Ahh, ég sé hann, hann er kominn til Moskvu. Nei, bara útaf því að búinn var til einhver skrípaleikur í kringum útgáfuna sem mér fannst óþarfi að taka þátt í, en ég því miður réð ekkert um það.
Ég veit varla hvor stofnunin mér finnst sorglegri; Alþingi Íslendinga eða Spaugstofan! Hvort tveggja rusl sem óþarfi er að eyða orðum í, enda þegar ég fer að spá í það þá dettur mér aldrei í hug að ræða þjóðfélagsmál hér, ég nenni því ekki...

Stóra málið hlýtur að vera Stóri hvellur sem kom í búðir í vikunni (og þakka ég fyrir kveðjur í gestabókinni). Nú er gaman að lifa, og við verðum á fleygiferð við að kynna skífuna á næstu dögum. Meðal annars fögnum við útgáfunni næsta laugardag á Grand Rokk um miðnætti og vonast ég til að sjá sem flesta þar!
Annars bendi ég á síðuna hans Gunnars til að menn glöggvi sig á hvað sé í deiglunni! Ég þarf til dæmis að fara að sofa af því að við erum að spila á Stöð 2 í fyrramálið kl. 08.20 en mætum um kl. 06.00..
Góða nótt.

10:23 e.h. Ekki vera feiminn

10 desember 2003  
Jól og menning
Nú fara jólin brátt að ganga í garð. Öll tilhlökkun og spenna fer þverrandi með árunum og hátíðin snýst um eitthvað allt annað heldur en áður. Maður er náttúrulega ekki lengur barn. Auðvitað er til margs að hlakka til, nægir þar að nefna marglitu lagkökuna hennar mömmu. Ég get ekki beðið eftir að verða sendur vestur á firði um jólin, mér finnst eins og sé verið að senda mig í afvötnun eða afstressun..já eða afsvínun! Þetta er tíunda árið í röð þar sem ég er að vinna í verslun á jólavertíð, allt aðrar áherslur svífa um í hausnum heldur en vera ber og jólin fara bara algjörlega í þetta, að vera svín. Kaupmenn eru svín og hrína hæst á þessum dögum. Mér finnst þessi jól einkennast af ægilegri markaðssetningu og fjölmiðlar eru ekkert annað en auglýsingar, þá er ég ekki að tala um auglýsingartímana, menn hreyfa vart varirnar nema það sé í boði einhvers. Fréttirnar eru eintómar auglýsingar. Hver dropi dauðkreistur af hverju strái. Þú getur tryggt þér í næstu matvöruverslun 70 mínútna: DVD, VHS, bókina, bolinn, sængurverið, pepsíið, kertastjakann, samlokubrauðið og skóhornið. Ég hef aldrei séð né heyrt annað eins.

Hér koma nokkrar auglýsingar:

Hljómsveitin Dr.Gunni mun kynna sína meintu útgáfu, plötuna Stóra hvell í dægurmálaþættinum Ísland í bítið á Stöð 2 á föstudagsmorguninn um kl.08.30.

Helstu og heitustu rithöfundar vertíðarinnar, s.s. einsog Sjón, Ólafur Gunnarsson, Guðmundur Steingrímsson og u.þ.b. tíu fleiri verða í Bókabúð Máls og menningar Laugavegi 18 á laugardaginn og munu aðstoða viðskiptavini með að finna bækur, afgreiða og jafnvel pakka bókunum inn ef því er að skipta, milli kl.14-17.00

Hljómsveitin Homebreakers sem spilar nær fráleita blöndu af finnskum tangó og amerískri sveitatónlist, mun flytja nokkur lög sér og öðrum til skemmtunar í Bókabúð Máls og menningar Laugavegi 18 á laugardag undir kl.16.00.

Að lokum vil ég frábiðja viðkvæmum sálum að skoða gestabókina Mjúkinskinnu!

11:24 e.h. Ekki vera feiminn

01 desember 2003  
- Sæll Kriss!
- Já, hæ!
- Jæja, hvað er að frétta?
- Jú, bara þetta fína..!
- En hvað svona helst, svona maður út með sprokið!
- Já, jújú! Maður er alltaf að vinna, svo er maður óþreyjufullur í biðinni eftir Stóra hvelli. Platan fer nú að koma, líklegast í vikunni. Við vorum nú að spila áðan á Rás 2, sem á afmæli í dag og spilum á föstudaginn í Ísland í býtið. Pabbi á nú líka afmæli í dag og ég hefði frekar vilja spila fyrir hann en ég sendi honum afmæliskveðju í beinni til Ísafjarðar.
- Til lukku með pabba þinn. Hvað er annars að frétta af Stefbjarti?
- Bara rosa fínt, hann er frábær. Við fórum í aðgerð um daginn en hann hafði verið með stíflaðan tárakirtil alveg frá fæðingu. Það þurfti að svæfa hann og þræða svo í gegnum þennan örgranna kirtil. Ég var voða kvíðinn, en mamma hans sterk sem kletturinn, ég svaf varla nóttina fyrir aðgerðina. Við mættum kortér fyrir níu um morguninn, hann fór strax inná skurðstofu, og á meðan ég gekk frá skiptitöskunni var þegar búið að svæfa hann og okkur boðið að bíða á biðstofunni á meðan. Við fórum þangað og ég greip fréttablaðið til að dreifa huganum, mér tókst nú varla að klára eina opnu því aðgerðinni var lokið og Stefán vaknaði stuttu síðar eldhress. Við vorum komin útaf stofunni kortér í tíu. Hálftími. Það er meira mál að panta sér pizzu.
- Jæja, frábært. Er ekki allt gott að frétta af Bryndísi?- Jú jú, hún á meira að segja afmæli á fimmtudaginn. Ég er að spá í að bjóða henni út að borða og jafnvel í kvikmyndahús eða eitthvað. Mig vantar bara pössun á meðan.. ert þú að gera eitthvað á fimmtudagskvöldið?
- Ég..?
- Já, þú?
- Kriss minn! Ég er nú bara bloggruglið þitt, faktískt séð ertu að tala við sjálfan þig, þú vilt nú varla að ég/þú passi hann Bjart meðan þú/ég ferð út með Bryndísi?
- Ha, nei! Þetta er orðið frekar skrýtið og jaðrar við geðveiki!

10:05 e.h. Ekki vera feiminn

 
This page is powered by Blogger.