Ristað brauð!
Hver kannast ekki við það þegar maður fær sér hinu klassísku máltíð, ristaða brauðsneið með smjöri, marmelaði og osti að marmelaðiskeiðin verður útötuð í bráðnuðu smjöri? Þetta er alþekkt vandamál og hafa menn verið býsnast út í smjörklessurnar oní marmelaðikrukkunni en ekki verið að einblína á lausnina á þessu hvimleiða vandamáli.
Í stað þess að að smyrja brauðsneiðina með smjöri og setja svo marmelaðið oná (og þarna er komið að kaflanum þar sem skeiðin útbíast) þá er lausnin komin í ostsneiðunum. Einfaldlega smyrjið marmelaðinu á sneiðarnar og leggið þær snyrtilega oná smurðu brauðsneiðina (sjá meðfylgjandi skýringarmynd). Ekki á ég að þurfa að minnast á það en geri það samt að vitaskuld á marmelaðið á ostsneiðinni að snúa niður. Ef marmelaðið snýr upp er hætta á að marmelaðið klístrist á vörunum og t.d. í yfirvaraskeggi sem getur verið mjög hvimleitt. Með þessu er máltíðin hin gleðilegasta og án smjörklessna og hverskonar marmelaðiklísturs.
Þetta húsráð er alveg ókeypis og í boði ritstjórnar Krissrokk, verði ykkur að góðu!