Reykjavík! í Þrándheimi.
Fyrir síðustu helgi héldum við til Noregs. Förinni var heitið til Þrándheims þar sem okkur var boðið að spila á tónlistarhátíðinni by:Larm. Iceland airwaves hátíðin valdi þrjú atriði í sínu nafni og þau voru hljómsveitirnar Reykjavík!, Lay low og Últramegateknóbandið Stefán. Þrándheimur er geysilega fallegur bær og þegar við renndum í hlað var falleg froststilla og sólargeislar léku um andlit okkar rokkarana. Þessi vetrarrómantík var fljót að breytast. Í fyrstu fannst okkur allt voða fallegt í frostinu en svo fór að herða á gaddinn. Frostið var nærri óbærilegt. Það hefur víst eitthvað með golfstrauminn að gera að það er miklu kaldara í Þrándheimi heldur en öðrum bæjum sem liggja norðar í Noregi. Og við köllum ekki allt ömmu okkar en ég er ekkert að grínast með þennan kulda. Horið fraus uppí nefinu á manni.
Voðalegt væl er þetta. Það var rosalega gaman að koma þarna og við hittum frábært fólk. Það loðir reyndar einhvern veginn við okkur strákana, sem erum einmitt að reyna að fóta okkur í músíkiðnaðinum að við blöndum alltaf geði við alla aðra en þá sem við "ættum" að gera. Þannig fáum við alltaf síma og nafnspjöld hjá leigubílstjórum, barþjónum og hljóðmönnum og við látum þá fá prómóin okkar og svoleiðis. Okkur sárvantar umboðsmann. Ég var nú búinn að liggja í einum manni og biðja hann um að vera umboðsmaður okkar en koma þá ekki Bolvíkingar og bjóða betur. Þeir þurftu svo sem meira á honum að halda en við. Við spiluðum á fimmtudags- og föstudagskvöldinu og fengum mjög góðar viðtökur. Það eru geysimargir tónleikastaðir á þessari hátíð og í einni húsaþyrpingu. Við löbbuðum mest í fimm mínútur eftir tónleikum. Erfiðast var þó að skilja reglur heimamanna. Það mátti hvergi reykja inni og ekki drekka úti, bara borða inní tjaldi, kaupa þurfti bjór með sérstökum spilapeningum sem fékkst svo ekki skipt aftur í alvörupeninga. Þetta er allt að koma til Íslands, byrjar á reykingarbanninu í sumar.

Það var margt ágætt að sjá, mun meira samt leiðinlegt.
Últramegateknóbandið Stefán stóðu sig frábærlega, sama gildir um
Lay low krakkana. Við sáum norðmennina í
Datarock, þeir voru geðveikt kúl,
Maribel er líka norsk og töff, þau spiluðu
Jesus and Mary Chain rokk og svo sáum við geðveika metalhausa í hljómsveitinni
She said destroy en hún er líka frá Noregi. Eftir að ég sá þá tónleika sagði ég nú bara "takk fyrir mig", ég þurfti ekki að sjá meira. Þvílík spilamennska. Það var eiginlega ósanngjarnt að horfa á þetta. Við gistum í frábærri íbúð í miðbænum, með fjórum herbergjum. Við
Gummi deildum herbergi. Það var einhvern veginn þannig að allar ákvarðanir voru leystar með leiknum "pant eða pant ekki.." eða eitthvað svoleiðis. Við Gummi "töpuðum" oftast í þessum svokallaða leik sem segir kannski meira um þroska en eitthvað annað. Í fyrstu leigubílaferð okkar kynntumst við gæðadrengnum
Hugo, sem kynnti okkur fyrir gæðadrykknum "
korsk" sem er 90% spíri blandaður í kaffi. Hann var lúmskt góður. Hugo lofaði að redda okkur flösku af þessu en hann þurfti fyrst að fara að tala við pabba sinn sem bjó þetta til. Minnti mig skemmtilega á strák sem ég þekki hvers pabbi blandar einnig gæðadrykk.

Á laugardagskvöldinu fórum við öll, íslenski hópurinn, út að borða í boði
Iceland airwaves. Airwaves-drengirnir og gæðapiltarnir
Eldar og
Egill voru með í þessari ferð, einnig
Eva kona Eldars og
Saga dóttir þeirra. Ekki má gleyma því að
Steinþór blaðamaður hjá Fréttablaðinu var líka með. Seinna sama kvöld höfðum við lofað okkur í partí hjá forstöðumanni norska ríkisútvarpsins honum
Geir. Geir vildi að við spiluðum í partíinu og var búinn að auglýsa það. Hann var líka búinn að sanka að sér hljóðfærum, m.a. keypt þetta fína trommusett í leikfangabúð. Bendi ykkur á að á
mæspeissíðu hljómsveitarinnar má sjá lítið myndbrot af téðum tónleikum. Þetta var frábær endir á Noregsferð okkar, daginn eftir flugum við til
Osló.
Valdi hélt á vit nýrra ævintýra í dansbransanum með viðkomu hjá
Smára Karlssyni. Við hinir máttum hlaupa sem fætur toguðu til að ná vélinni til Íslands. Það er nú skemmst frá því að segja að flensan tók á móti okkur heima. Ég og
Haukur höfum meira og minna legið heima síðan og hef ég frétt af fleiri tilfellum í hópnum.