bryndísar&kristjánsbörn
bryndís stefáns
gunnar hjálmars
elín smára
árný gísla
sigrún bjarna
hálfdán hálfdáns
eiríkur hrafns
karl hallgríms
örn guðmunds
birna guðmunds
kristinn hermanns
steingrímur guðmunds
páll páls
smári karls
grímur atla
vidófjölskyldan
bókabúðin mín
hljómsveitin reykjavík!

Bloggið er dautt og internetið líka. Ég las það á netinu, á einhverri bloggsíðunni!


























 
Archives
<< current













 
This is where you stick random tidbits of information about yourself.



























Ég er Kriss og ég er Rokk.
 
24 september 2007  
Playmobil og Kiddicraft

Þegar ég var lítill drengur í Hnífsdal var playmodót líf mitt og yndi. Ég átti rosalega mikið af playmoi, playmokalla og konur úr ýmsum stéttum og af ýmsum þjóðflokkum. Til að mynda man ég eftir að hafa átt nokkra starfsmenn af heilbrigðissviði, kappakstursmenn, frumbyggja norður Ameríku og sjóræningja. Mín sterkasta playmominning er örugglega þegar ég uppgötvaði að Jói Baddi einn besti vinur minn í þá daga, átti ekkert playmo. Ég gaf honum fullt af mínu. Í dag á sonur minn Stefán Bjartur mjög álitlegt safn af playmoi. Mest er af sjóræningjum, væntanlega í kjölfarið af vinsældum Pirates of the Caribbean og líka á hann mjög mikið af riddurum (væntanlega í kjölfar vinsælda þáttana um Hróa hött á Skjá einum...DJÓK). Ekki höfum við nú verið að ota að honum sjóræningjamyndunum úr karíbahafinu en hann fór allt í einu að tala um Jack Sparrow. Okkur fannst það mjög merkilegt og fannst það sennilegast að hann gripi þetta úr auglýsingatímum sjónvarpsins. Þá fór hann að tala um lagið um Jack Sparrow. Við vildum lítið kannast við það. Reyndum að fá hann til að syngja það, en lítið gekk. Svo kom að því á dögunum að hann heyrði í útvarpinu lag og kallaði á okkur að þetta væri lagið um Jack Sparrow. Kom á daginn að þetta var lagið um Jón Spæjó með honum Ladda. Á myndinni er annars nýtísku playmokall sem fæst í búðunum í dag; þetta er afgreiðslumaður í tískuvöruverslun. Þessi playmokall er í grafískri hönnun í listaháskólanum, fer á Sirkus um helgar, vinnur í KronKron, þambar soja-latte og reykir Salem lights.

Við fórum í frábært brúðkaup um þarsíðustu helgi þegar vinir okkar Kiddý og Tóti giftu sig. Eftir fallega athöfn í Lágafellskirkju lá leiðin í Laugardalinn þar sem veislan fór fram. Veislan var virkilega skemmtileg, þvílíkar kræsingar og frábær skemmtiatriði. Það hefur verið settur ansi hár staðall á brúðkaup innan vinaklíkunnar og þessi veisla stóðst alla stuðskala. Hressandi myndasýningar og ræður, söngatriði og dansar spiluðu stóra rullu. Sex manna hópur söng háðslegar gamanvísur um brúðhjónin við hið glæsilega lag Handle with care með Travelling wilburys, Elvis Presley kom í heimsókn og var ofursvalur og loks kom Tríó Björns Teitssonar fram og tók lagasyrpu með snaggaralega völdum Eurovision lögum. Þar voru íslensku lögin sem urðu ekki fyrir valinu í undankeppnum áberandi, s.s. eins og Sóley, Mitt á milli Moskvu og Washington, Aldrei ég gleymi og Norðuljós. Frábær veisla og glæsileg brúðhjón. Á æskuárum mínum fór ég oft með fyrrnefndum Jóa Badda inná Ísafjörð í heimsókn til ömmu og afa Jóa. Þau voru einmitt amma og afi Kiddýar líka og þar hitti ég Kiddý fyrst. Mest fannst mér gaman að hún skyldi heita Kiddý alveg eins og dótið Kiddicraft. Mér finnst það svo sem ekkert fyndið lengur. Ég er vaxinn upp úr því. Kiddicraft er reyndar voða merkilegt dót, Fisher Prize virðist hafa keypt þá samsteypu og hætt að framleiða. Kiddicraft á heiðurinn á Lego kubbunum en ekki hið danska Lego. Hér með skora ég á Kiddý að byrja að hanna föt og nefna sína fyrstu fatalínu Kiddycraft (væri líka gott hljómsveitarnafn). Amma og afi Jóa og Kiddýar áttu Volkswagen rúgbrauð pallbíl og foreldrar Kiddýar áttu dökkbláan Volvo Amazon. Ég gat þá ekki alveg gert upp við mig í hvora bíltegundina mig langaði meira í. Nú á ég dökkbláan Volkswagen skutbíl, læt mér það nægja núna. Annars finnst mér að Volvo samsteypan ætti að framleiða Volvo Amazon aftur og hafa hann á viðráðanlegu verði.

Nú veit ég ekkert hvert þessi færsla er að fara svo ég hætti bara núna. Var þetta ekki annars bara fínt hjá mér..?!

9:47 e.h. Ekki vera feiminn

18 september 2007  
Reykjavík! í Köln!
Reykjavík! fór um miðjan ágústmánuð til Kölnar að spila á C/O Pop hátíðinni. Sú hátíð er nú að mestu leyti raftónlistarhátíð en þarna vorum við að kynna Iceland Airwaves ásamt hljómsveitunum Seabear og Últramegateknóbandinu Stefáni. Við flugum út 14. ágúst sem er einmitt afmælisdagur Gumma en við félagar hans höfðum búið til leyniáætlun um að minnast ekkert á afmælið fyrren seinnipart dags þegar við höfðum pantað borð á fansí veitingastað og keypt afmælisgjöf. Strax í flugvélinni var ég spurður af liðsmanni Seabear hvort ég vissi ekki hvaða dagur væri, þá hafði Gummi minnst á að hann ætti afmæli og enginn okkar vina hans hefði minnst einu orði á það. Gummi minntist sérstaklega á að hann væri hissa á því að ég myndi ekki eftir deginum, ég ætti nú að muna það! Ég átti mjög erfitt með að halda í mér allan daginn. Köln er falleg borg, liggur við ána Rín og er mikið háskólasamfélag. Við skoðuðum borgina strax eftir að við höfðum komið okkur fyrir á Marriott hótelinu. Haukur og Bóas þurftu frá að hverfa til að sinna erindum, þóttust þurfa að hitta tónleikahaldarana en voru í raun að skipuleggja afmælisveislu. Við hittum þá aftur um kvöldmatarleytið, eftir að hafa borðað lítið kebab og spilað púl, og löbbuðum á ítalskan stað sem hét La Stella. Þar áttum við pantað borð, það var skreytt afmæliskonfettíi og þar mátti sjá freyðivín í fötu og 5 glös. Gummi fattaði ekki neitt og fannst þetta allt mjög furðulegt, það var ekki fyrr en við hófum að syngja afmælissönginn. Þá fyrst fór Gummi að átta sig á því að við höfðum alls ekki gleymt afmælisdeginum. Við borðuðum stórkostlegan mat, drukkum gott vín og fengum Grappa. Hann fékk svo svaka flottan bol frá okkur, áhugaverða heimildarmynd á DVD og hring.

Daginn eftir fórum við á einu tónleikana sem við gátum heimsótt og þeir voru í gömlu leikhúsi þar sem hljómsveitirnar Apparat (hin þýska) og Battles frá NY. Það var töluverð upplifun að sjá Battles, Apparat var glötuð en já Battles spilaði einhverskonar stærðfræðirokk. Það var dálítið þreytandi til leyndar en það var trommarinn sem hélt manni við efnið. Sá trommari var í hljómsveitinni Helmet áður, hann var virkilega að vinna vinnuna sína. Hann var gegnblautur allsstaðar (...get ég ímyndað mér, ég tékkaði ekki á því). Við fórum svo víða um bæinn í leit að rokkabíllýklúbbi, ekki veit ég af hverju. Öll þrjú böndin héldum hópinn og áttum góðar stundir. Gaman var að að ferðast aftur með strákunum í Últramegateknóbandinu Stefáni, það höfðum við gert áður í Noregi. Ekki er það síst fyrir þær sakir skemmtilegt vegna þess að alltaf er ein mamman með í ferð. Nú var mamma hans Sigga söngvara með í ferð og hún var mjög fyndin og skemmtileg. Hún var svo á endanum sú eina af hópnum sem var böstuð í tollinum hér heima, held að hún hafi verið með skinku eða súrkál eða eitthvað. Ekki var síðra að kynnast krökkunum í Seabear, öðlingar þar á ferð.

Tónleikadagurinn rann upp og eftir spicy pizzur (semsagt, extra strong pepperoni er ekki kryddpylsa, það er bara saxaður pipar) og þynnkubjór var næstum komið að sándtékki. Samt ekki alveg og gátum við því farið í skoðunarferð upp turninn í dómkirkjunni. Dómkirkjan í Köln er um 160 m há, massastór og er frá miðöldum. Það tók víst 600 ár að klára að byggja hana og það er víst talið að í kirkjunni sé að finna jarðneskar leifar vitringanna þriggja. Sel það ekki dýrara en ég keypti það. Það var frekar óhuggulegt að fara alla leið upp, ég veit ekki hversu mörg þrep við löbbuðum upp þröngan stigann og allt morandi í ferðamönnum. Þetta var svakalegt. Ég var voða feginn að koma niður aftur en þegar þangað var komið mættum við tveimur breiðum konum sem ríghéldu sér skíthræddar eftir einungis 12 tröppur. Ég benti þeim á að þær ættu bara eftir 588 þrep. Ég sagði það reyndar á íslensku. Eftir kirkjuheimsóknina vorum við vel gíraðir í giggið. Jón Þór var kominn til að hitta okkur og hann kom með handboltakappann Róbert Gunnarsson ásamt frú með sér. Róbert leikur með Gummersbach. Tónleikarnir voru í litlum sal í hátíðarhöllinni og kvöldið var hreinlega frábært. Seabear byrjaði og átti sitt crowd, platan þeirra var gefin út af útgáfu í Berlín. Við vorum næstir og náðum að halda fólki við efnið. Ég náði að svitna heilmikið en ekki í hálfkvisti við trommarann í Battles. Við héldum danskeppni þar sem Svala konan hans Róberts vann glæsilega. Últramegastrákarnir kláruðu kvöldið í mega-rugli og allir voru að tryllast úr gleði. Eftir vel heppnaða tónleika héldum við eftirpartý í baksviðsherberginu. Þangað kom fólk í hrönnum og við spiluðum íslensk ættjarðarlög. Við Sindri Seabear náðum ótrúlegum samleik á bassa- og sneriltrommu. Eftir heilmikið fjör vorum við rekin út og lá leiðin á rave-stað. Þar endaði kvöldið hjá okkur.
Daginn eftir fórum með keyrandi til Frankfurt hvaðan sem við flugum heim. Vel heppnuð ferð og biðjum við kærlega að heilsa Róberti og Svölu. Róbert stattu þig!
Þessi færsla var annars tileinkuð Birki bróður mínum sem á afmæli í dag og liggur heima eftir aðgerð. Svo bendi ég sérstaklega á að nýr meðlimur hefur litið dagsins ljós í Reykjavík! og það er Geiri. Velkominn Geiri!

10:24 e.h. Ekki vera feiminn

 
This page is powered by Blogger.